Öflugasta tölvusneiðmyndatæki á LSH til þessa

 - Fréttir, Uncategorized @is

Á röntgendeild LSH í Fossvogi er að komast í notkun nýtt og glæsilegt Canon tölvusneiðmyndatæki, öflugra en áður hefur sést á staðnum. Tækið er með 16 cm skynjara og er t.d. hægt að mynda allt hjartað án þess að sjúklingaborðið hreyfist.

Vel búið tæki með ýmsum aukabúnaði
Tækið er af gerðinni Aquilion One og er frá Canon en áður báru þessi tæki nafn Toshiba. Raförninn fékk það ánægjulega verkefni að leggja til mannskap til aðstoðar við uppsetningu tækisins og framtíðarþjónusta við það verður í höndum tæknimanna Rafarnarins.
Uppsetningunni er lokið, tækið er tilbúið til notkunar og iðnaðarmenn að leggja lokahönd á frágang stofunnar.

„Það er breiði skynjarinn sem gerir þetta tæki sérstakt“, sagði Magnús Guðjónsson, Raförn, þegar ritstjóri Arnartíðinda bað um sjónarhorn tæknimannsins. „Hann tekur 320 0.5 mm sneiðar í einu sem jafngildir 16 sentimetrum af líkamanum. Með hugbúnaði er svo hægt að reikna út 640 sneiðar í hverjum hring. Til samanburðar þá nær Aquilion Prime tækið 80 0.5 mm sneiðum í einu.“

Magnús sagði að þetta mikla gagnamagn útheimti gríðaröflugar tölvur og stærri gagnageymslur en áður hafa sést í tölvusneiðmyndatæki á LSH.
Með tækinu fylgir sérstaklega styrkt borð sem veldur 300 kg sjúklingi án vandræða og er það nærri 100 kílóum meira en tækin sem fyrir eru geta tekið. Önnur nýjung er að hægt er að færa borðið til hliðanna en það getur t.d. komið sér vel þegar verið er að rannsaka sjúklinga með fjöláverka, sem æskilegast er að hreyfa sem allra minnst.

Nýir möguleikar í kunnuglegu umhverfi
Nýja tækið er með samskonar notendaviðmóti og Aquilion Prime tækið sem kom í Fossvoginn í árslok 2016 og er það í samræmi við þá stefnu stjórnenda að sambærileg tæki á röntgendeildunum hafi samskonar notendaviðmót.

„Þetta auðveldar okkur að koma tækinu strax í fulla notkun“, sagði Díana Óskarsdóttir, deildarstjóri, þegar Arnartíðindi leituðu frétta hjá henni. „Allir starfsmenn sem kunna á Prime tækið eiga að geta unnið allar almennar rannsóknir á nýja tækið líka. Bæði uppsetningin og þjálfun starfsfólks hefur gengið vonum framar enda frábært fólk sem kemur að þessari vinnu og þau eru með allt sitt á hreinu. „

Díana sagði að með tilkomu þessa tækis opnuðust möguleikar á að gera flóknari rannsóknir en áður, til dæmis með hjálp ECG stýringar sem nýtist vel við rannsóknir á hjarta og ósæð. Breidd skynjarans auðveldar einnig hjartarannsóknir, þar sem tækið nær öllu hjartanu án þess að sjúklingaborðið þurfi að hreyfast. Einnig má nefna að rannsóknir á sjúklingum með fjöláverka taka mjög stuttan tíma í þessu tæki.

Við óskum LSH fólki innilega til hamingju með þessa mikilvægu viðbót við tækjakost sjúkrahússins.

Arnartíðindi þakka Díönu og Magnúsi fyrir upplýsingar og myndir.