ECR 2018
Evrópuráðstefna myndgreiningarfólks stóð yfir í Vínarborg í Austurríki dagana 28. febrúar til 4. mars. Arnartíðindi leituðu frétta hjá nokkrum úr hópi íslensks myndgreiningarfólks á ECR og eins og venjulega voru viðbrögðin frábær. Við erum innilega þakklát fyrir hvað fólk er endalaust tilbúið að leggja á sig auka vinnu, af greiðasemi við okkar örlitla fjölmiðil.
Allt að gerast á ECR.
European Congress of Radiology er einn af hápunktunum í myndgreiningargeiranum ár hvert og eins og hægt var að lesa í frétt Arnartíðinda 29. janúar sl. er þar ótalmargt að sjá, heyra og skoða.
Íslendingar á staðnum voru duglegir að deila myndum og öðru skemmtilegu á síðu Rafarnarins á Facebook og hér í Arnartíðindum er að finna aðeins efnismeiri punkta frá myndgreiningarfólki sem var á ráðstefnunni.
28. febrúar 2018:
Ein af þeim sem er að afla sér símenntunar á ECR þessa dagana er Gróa G. Þorsteinsdóttir, geislafræðingur hjá HVE á Akranesi.
„Mikið væri nú gott að geta verið á fleiri en einum stað í einu!“, sagði Gróa strax í upphafi lítils pistils sem hún sendi Arnartíðindum. „Það voru svo margir fyrirlestrar sem ég hefði viljað sitja strax á fysta degi.“
Opnunarhátíðin var að sögn Gróu mjög skemmtileg og það sem henni fannst standa uppúr var tónlistaratriði ungra manna sem kalla sig Symphoniacs.
„Þeir spiluðu Árstíðirnar eftir Vivaldi með poppuðu ívafi og það var algjör snilld“, sagði Gróa.
Hún sagði að í setningarávarpi hefði forseti ECR, Bernd Hamm, minnt á mikilvægi góðs samstarfs okkar sem vinnum á sviði myndgreiningar og að við höldum fókusnum þar sem hann á að vera, nefnilega á sjúklingnum. Hann benti á að við erum hafin yfir pólitík og höldum samstarfi okkar ótrauð áfram hvað sem líður Brexit og öðru pólitísku brölti.
„Ég held að einn af mínum annmörkum sé að ég gríp það sem tónar við mínar skoðanir en heyri síður það sem gerir það ekki“, sagði Gróa. „Markmiðið hjá mér er samt alltaf að hlusta, horfa og læra og ég hlakka til að halda því áfram hér á ECR.“
Fyrsti mars 2018:
Eins og sjá má á þátttakendalista Arnartíðinda er það glæsilegur hópur Íslendinga sem finna má á ECR 2018. Arnartíðindi fengu líka punkta frá Guðrúnu Friðriksdóttur, geislafræðingi hjá Röntgen Domus.
„Þetta mun vera mín fjórða ferð á ECR og sú allra kaldasta, enda óvenjulegt veðurfar í Evrópu eins og flestir vita“, sagði Guðrún. „Vínarborg er ísköld í ár en alltaf er samt gaman að vera hér og horfa yfir mannhafið og hugsa: Allir í sama vinnugeira, ótrúlegt! Heppin ég að vera hluti af þessu.“
Guðrún var sama sinnis og Gróa, að helsti vandinn væri að velja úr öllum þeim fyrirlestrum sem boðið er uppá ásamt því að skoða tækjasýninguna.
„Á miðvikudeginum hlustaði ég á fyrirlestur um bestu aðferð til að greina “multiple myeloma” og var reglulega ánægð að heyra að sú aðferð sem við höfum notað í Domus um tíma, lágskammta „whole body“ CT, væri sú sem best gefst“, sagði Guðrún.
„Morguninn eftir, í fyrirlestraröð um “whole body” MRI, var þessu alveg kollvarpað og sagt að “whole body” MRI væri albesta aðferðin, við þessa greiningu sem og margar aðrar. Nú væri t.d. farið að nota þessa aðferð á gigtarsjúklinga og ekki síst á sjúklinga með krabbamein í blöðruhálskirtli, þá í staðinn fyrir CT af kviðarholi og ísótópa beinaskann.“
„Þetta þótti mér sérlega athyglisvert og vel þess virði að skoða betur“, bætti Guðrún við.
Maríanna Garðarsdóttir, röntgenlæknir á LSH og formaður Félags íslenskra röntgenlækna, hélt fyrirlestur í flokki CT hjartarannsókna, um TAVI (Transcatheter aortic valve implantation), og sagði Guðrún að fyrirlesturinn hefði verið mjög vel gerður og ánægjulegt fyrir Íslendinga að fylgjast með.
„Svo er bara að halda áfram að fylgjast með og nema“, sagði Guðrún að lokum.
Hægt er að sjá fyrirlestur Maríönnu á ECR Online en athugið að til þess þarf að skrá sig inn eða búa til aðgang. Aðgangur að MyUserArea hjá ESR kostar 11 evrur á ári, sem er um 1400 kr. íslenskar, en opnar leið að ómældu efni, kennsluefni, efni frá ECR ráðstefnum og ótalmörgu öðru.
Eftir ráðstefnuna…
Hvað gerir íslenskur geislafræðingur sem lendir í töfum á leið heim frá ECR í Vínarborg? Nú… sest að sjálfsögðu niður og notar tímann til að skrifa ferðapunkta fyrir Arnartíðindi!
Það á að minnsta kosti við um Eyrúnu Ósk Sigurðardóttur, geislafræðing á LSH, og ritstjóri Arnartíðinda ákvað að birta einfaldlega þetta skemmtilega og vandaða bréf eins og það kemur fyrir: ECR Vín 2018
————————————
Arnartíðindi þakka öllum sem sendu efni frá ECR innilega fyrir.