Nú líður að ECR 2018

 - Fréttir, Uncategorized @is

European Congress of Radiology er stærsti viðburður í evrópska myndgreiningarsamfélaginu ár hvert. Ráðstefnan er alltaf haldin í Vínarborg og verður stærri og metnaðarfyllri með hverju árinu sem líður. Í ár stendur ECR yfir dagana 28. febrúar  til 4. mars.

Skráning, ferðalag og staðsetning
Skráning er einföld og þægileg, að sjálfsögðu á vefsíðu ráðstefnunnar, og þar er að finna ýmsar upplýsingar, m.a. um ferðatilhögun, gistimöguleika, forfallatryggingu og fleira.  

Ráðstefnan er, eins og áður, haldin í hinni glæsilegu ráðstefnuhöll Austria Center Vienna og áður en haldið er þangað getur verið gaman að líta á nokkur flott myndskeið frá staðnum.

Þess er ánægjulegt að geta að ECR ráðstefnan hefur vottun sem „Green Meeting“ frá Österreichisches Umweltzeichen og ráðstefnugestir eru hvattir til að hafa hag umhverfisins í hávegum á ferðum sínum.

Glæsileg dagskrá, að vanda
Það er European Society of Radiology (ESR) sem heldur ráðstefnuna og dagskráin er fjölbreytt og efnismikil. Sem dæmi má nefna að hægt er að velja úr um 400 fyrirlestrum, öðrum eins fjölda af kynningum á vísindarannsóknum og um 3000 rafrænum “posterum”. Svo er hægt að skoða myndgreiningarbúnað og annað sem tengist faginu hjá um 300 sýnendum á 26 þúsund fermetra sýningarsvæði. Fyrir utan ýmsa aðra hluti sem hægt er að sjá, heyra og upplifa.

Það er hægt að skoða dagskrána á vefsíðu ráðstefnunnar og í síðasta lagi um miðjan febrúar verður hægt að hlaða lokaútgáfu hennar niður sem pdf.

Geislafræðingum má benda á að líta sérstaklega á Radiographers´ Programme en undanfarin ár hefur ESR lagt sig mjög fram um að ná til geislafræðinga og hvetja þá til þátttöku á ECR.

Nýungar á ráðstefnunni í ár eru sérstaklega kynntar undir NEW at ECR 2018 og þar má t.d. nefna The Cube sem er gagnvirk sýning tileinkuð inngripsrannsóknum (Interventional Radiology). Lítur mjög forvitnilega út!

ESR opnar nýja iGuide gátt
Eitt af því sem er spennandi á ECR þetta árið er að The European Society of Radiology (ESR) notar tækifærið til að kynna nýjan möguleika í aðgangi að ákvarðanastuðningskerfinu iGuide. „ESR iGuide web portal“ er gátt sem byggir á sjálfstæðum hugbúnaði og gefur fleirum möguleika á aðgangi að þessu einstaka kerfi sem samtök röntgenlækna í Evrópu og Bandaríkjunum hafa haft gott samstarf um að byggja upp.

Gáttin er öllum opin og boðið er upp á frían aðgang til 30. september 2018. Eftir það hafa félagsmenn í samtökum röntgenlækna í Evrópu áfram aðgang gjaldfrjálst en aðrir þurfa að greiða vægt gjald fyrir áskrift.

iGuide hefur oft verið til umfjöllunar hér í Arnartíðindum og var í brennidepli á einni af ráðstefnum Rafarnarins, Gæðavísi 2015, þegar prófessor Guy Frija, fyrrverandi forseti ESR og núverandi formaður EuroSafe Imaging, kynnti kerfið í áhugaverðum fyrirlestri.

Með tilkomu gáttarinnar verður enn einfaldara að nota iGuide, bæði fyrir tilvísandi lækna og myndgreiningarfólk, og er kerfið einstaklega góður kostur til aðstoðar við réttlætingu rannsókna, sem er grunnþáttur í öllum geislavörnum.

Aðgengi að efni frá ráðstefnunni
Þeir sem heima sitja geta fylgst með á ECR Online, þar sem boðið verður upp á beinar útsendingar á meðan ráðstefnan stendur yfir. Einnig er hægt að horfa á upptökur frá dagskrárliðum og sú leið verður áfram opin að ráðstefnunni lokinni. Þessi þjónusta er ókeypis og yfir 1500 dagskrárliðir aðgengilegir!

ECR er á samfélagsmiðlunum, eins og vera ber, og ýmislegt að gerast á YouTube og Facebook og Twitter.

Minna frænka í Evrópu verður án efa með sitt sígilda “RADCast” frá ECR 2018 þar sem hægt verður að skoða fréttir, viðtöl, ljósmyndir, video og allt sem nöfnum tjáir að nefna.

Ekki má svo gleyma að skipuleggjendur ECR hafa löngum verið í fararbroddi með að veita aðgang að efni frá ráðstefnunum eftir að þeim lýkur og reikna má með að efni frá ECR 2018 birtist í Past Congresses á vikunum eftir ráðstefnu.

Tæknisýningin er komin til að vera
Fyrir nokkrum árum var tekin ákvörðun um það hjá ESR að leggja meiri áherslu á tæknisýninguna og það hefur skilað sér í mjög áhugaverðri viðbót við ráðstefnuna. Þó flestir tækjaframleiðendur miði við að kynna stærstu nýjungar á RSNA í Chicago eru þeir einnig farnir að gera sér far um að vera með flottar kynningar og góðar upplýsingar á ECR og enginn ætti að láta tæknisýninguna framhjá sér fara.

Menning og afslöppun
Til að halda einbeitingu og getunni til að innbyrða meiri þekkingu er nauðsynlegt að slaka stundum á og beina huganum að einhverju allt öðru en vinnunni.
Ótal vefsíður bjóða upp á hinar ýmsu upplýsingar um Vínarborg, sem dæmi af handahófi má nefna About Vienna, hluta borgarinnar í Austria Info, upplýsingar frá UNESCO sem eru skemmtilega “öðruvísi”, veðurupplýsingar og -spá hjá Accuweather og svo auðvitað YouTube og Facebook, svo eitthvað sé nefnt.

ECR þátttakendalisti Arnartíðinda
Eins og undanfarin ár hafa Arnartíðindi óskað eftir að fá að birta nöfn Íslendinga á ráðstefnunni á hinum sívinsæla ECR lista 🙂
Listann er hægt að sjá hér en líklegt er að nöfn haldi áfram að bætast við alveg fram að ráðstefnu.