Spennandi áfangi hjá Einfríði í Orkuhúsinu
Íslensk myndgreining, sem flestir kannast við sem Röntgen Orkuhúsið, var stofnuð árið 1999 og frá upphafi hefur Einfríður Árnadóttir, röntgenlæknir, verið framkvæmdastjóri og einn af eigendum fyrirtækisins. Nú á 20 ára afmæli fyrirtækisins lætur Einfríður af störfum og skilar góðu búi í hendur þeirra sem taka við stjórnartaumunum.
Farsælum starfsferli fagnað
Einfríður á enn eftir þónokkur ár í hinn hefðbundna eftirlaunaaldur en ákvað að þetta væri góður tími til að láta af erilsömu en gefandi starfi og nota meiri tíma í önnur áhugamál. Áður en hún tók þátt í að stofna Íslenska myndgreiningu starfaði hún á sjúkrahúsum bæði í Svíþjóð og hér á Íslandi og getur sannarlega verið stolt af umsvifamiklum og farsælum starfsferli.
Í tilefni stafslokanna bauð Einfríður í glæsilegt partý laugardagskvöldið 30. mars sl. þar sem fjölskylda, vinir og samstarfsfólk fékk tækifæri til að gleðjast með henni á þessum tímamótum. Þeir sem þekkja Einfríði skilja hvers vegna hér er notað orðið partý en ekki samsæti, starfslokahóf eða eitthvert annað virðulegt, rammíslenskt orð. Í samkvæmi sem Einfríður skipuleggur verður gleðin alltaf í fyrirrúmi og engin þörf á að hafa hlutina í þröngum skorðum.
Þakklæti, virðing og gleði
Til að allt gangi smurt þarf samt þægilegan ramma utanum það sem fram fer og um þann hluta sá Árni Magnus Magnusson, sonur Einfríðar, og skilaði verkinu með þeim glæsibrag sem hann á ætt til. Hann sá meðal annars um að raða fólki á mælendaskrá, enda margir sem vildu heiðra Einfríði með nokkrum orðum og rifja upp góð kynni og skemmtileg atvik.
Ræðurnar reyndust allar vera í góðum samhljómi, stuttar með hæfilegri blöndu af gamni og alvöru, og lýstu því vel hvað fólk ber mikla virðingu fyrir Einfríði og þykir vænt um hana hvort sem um er að ræða fjölskyldumeðlimi, vini eða samstarfsfólk.
Ótal góðar stundir
Margir færðu Einfríði einhverskonar þakklætisvott fyrir samstarf og samskipti í gegnum árin og meðal annars útbjó starfsfólkið hjá Íslenskri myndgreiningu sérstakt gjafabréf fyrir óvissuferð undir þeirra stjórn, til að endurgjalda á táknrænan hátt allar þær ómetanlegu starfsmannaferðir og skemmtanir sem hún hefur skipulagt og stýrt í gegnum árin. Starfsandinn í þessum hópi hefur alla tíð verið einstaklega góður og það lét engan ósnortinn að sjá samheldnina og væntumþykjuna sem lýsti af Einfríði og fólkinu hennar þegar skálað var fyrir öllum góðu stundunum.
Snertingin sem breytti lífinu
Eiginmaður Einfríðar, Christer Magnusson, hélt frábæra tölu frúnni til heiðurs. Honum tókst jafn vel að draga upp mynd af starfsferli hennar í, „litlu röntgensjoppunni“ sem varð að leiðandi fyrirtæki í læknisfræðilegri myndgreiningu á Íslandi og af sambandi þeirra tveggja sem hófst þegar hendur þeirra snertust í fyrsta sinn… að vísu í skurðstofuhönskum 🙂
Svipmyndir síðustu 20 ára
Á meðan fólk hélt ræður og hlustaði á ræður, naut góðra veitinga og spjallaði við vini og kunningja rúllaði í bakgrunninum myndasýning sem Einfríður hafði sett saman um atburði í 20 ára sögu Íslenskrar myndgreiningar. Eins og kunnugt er segja myndir oft meira en hægt er að lýsa með orðum og þarna sást auðveldlega hvernig hverju grettistakinu á fætur öðru hafði verið lyft, frábær þjónusta við viðskiptavini höfð í fyrirrúmi og um leið gætt að því að daglegt líf væri skemmtilegt og gefandi. Rafernir voru stoltir af að birtast á mörgum myndanna, vegna þess að það sýnir hversu einstaklega gott samstarf fyrirtækin tvö hafa átt í gegnum árin og hvað við höfum fengið að taka þátt í ótal mikilvægum og skemmtilegum verkefnum.
Framtíðin er björt
Eins og áður var minnst á skilar Einfríður góðu búi í hendur þeirra sem halda áfram rekstri Íslenskrar myndgreiningar og þar er stýrt óhikað inn í spennandi framtíð með öllu því duglega og hæfa fólki sem fyrirtækið hefur á að skipa. Starfsfólk Rafarnarins hlakkar til að vinna áfram að metnaðarfullum verkefnum með þessum góða hópi.
Arnartíðindi þakka Einfríði fyrir og óska henni alls hins besta í framtíðinni.