Ásmundur Brekkan

 - Fréttir
Ásmundur Brekkan á Röntgendaginn 2013

Ásmundur Brekkan röntgenlæknir og prófessor emeritus lést 11. aprí s.l. Útför hans var gerð frá Neskirkju þann 8.maí. Við vottum Ásmundi virðingu og sendum samúðarkveðjur til fjölskyldu hans og ættingja. Hér á eftir fer stutt minningargrein eftir Smára Kristinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóra Rafarnarins.

Ég hitti Ásmund Brekkan fyrst þegar ég sótti um vinnu tæknimanns við röntgendeild Borgarspítalans árið 1979. Ég fékk starfið og vann náið með Ásmundi og öðru starfsfólki röntgendeildarinnar í Fossvoginum næstu árin.

Engin lognmolla var kringum Ásmund, enda maðurinn hrifnæmur, kappsamur eldhugi, nokkuð ör í skapi og ekki allra. Metnaður fyrir hönd starfseminnar var ótvíræður þótt ekki væru menn þá frekar en nú, ætíð sammála um stefnuna.

Ásmundur telst klárlega brautryðjandi í læknisfræðilegri myndgreiningu á Íslandi. Hann var primus mótor við undirbúning og opnun röntgendeildar Borgarspítalans í Fossvogi 1966 og fyrsti yfirlæknir deildarinnar. Þetta var mikið framfaraskref í heilbrigðisþjónustu á Íslandi, því bið eftir rannsóknum var þá veruleg. Deildin byrjaði starfsemi í nýjum húsakynnum, með nýjum og vönduðum tækjabúnaði, en eins og jafnan á Íslandi var síðan snúið að sækja fé til framfara, viðhalds og endurbóta. Það var lærdómsríkt að kynnast þessari um margt undalegu baráttu og hernaðarlist sem beita þurfti í samskiptum við fjárveitingavaldið.

Minnisstætt er ferlið þegar Ásmundur hafði forgöngu um að Borgarspítalinn tæki í notkun fyrsta tölvusneiðmyndatæki landsins árið 1981, en tölvusneiðmyndatæki voru upphafsskref til stafrænnar tæknibyltingar, sem átti eftir að gjörbreyta greiningarmætti læknisfræðilegrar myndgreiningar á næstu árum og áratugum.

Ásmundur lagði mikla áherslu á að fá til starfa í sínu teymi færa einstaklinga á öllum sviðum. Urðu rökræður oft býsna harðar í hans hópi, en Ásmundur mat það við fólk ef það stóð fast á sínu með skýrum rökum og lét þá gjarnan sannfærast og skipti um skoðun, nokkuð sem er frekar sjaldgæft hérlendis.

Hann var maður augnabliksins, skarpur, næmur og viðkvæmur, sem gat verið tvíeggjað í dagsins önn. Þannig gátu dagarnir á röntgendeild BSP verið býsna litríkir á köflum en vinnuandinn var að jafnaði góður og fólk stolt af sínum störfum.

Seinna varð Ásmundur yfirlæknir röntgendeildar Landspítalans og prófessor við Háskóla Íslands.

Á kveðjustund er þakkað fyrir góða leiðsögn og trausta samvinnu.

Með samúðarkveðjum til fjölskyldu og ættingja hins látna.

Smári Kristinsson