Mikil ánægja með nýja CT-ið í Orkuhúsinu

 - Fréttir

Nýja tölvusneiðmyndatækið hjá Íslenskri myndgreiningu var komið í notkun rúmri viku eftir að það kom í hús. Allt hefur gengið að óskum og starfsfólkið er hæstánægt með nýju græjurnar. Það sem blasir við sjúklingunum er sama góða þjónustan, ásamt því að rýmra er um fólk í nýja tæknu en undir niðri eru enn fjölbreyttari rannsóknamöguleikar, lægri geislaskammtar og minni skuggaefnisskammtar.

Allt hefur gengið að óskum
Eins og lesa má um í frétt Arnartíðinda frá 21. ágúst sl. sá vaskur hópur um að vippa eldra tæki út og þessu inn, án nokkurra vandkvæða. Framhaldið hefur einnig gengið vel, Rafernir luku uppsetningu í góðri samvinnu við Orkuhússfólk og tæknimann frá framleiðanda og fyrsti sjúklingurinn var myndaður þann 28. ágúst.
Þegar notendasérfræðingur kom var starfsfólkið, með þau Arnþór Guðjónsson, röntgenlækni, og Unni Björnsdóttur, geislafræðing, í broddi fylkingar, búið að gera sér góða grein fyrir hvað þyrfti að fá að vita og læra til að nýta eiginleika tækisins til hins ýtrasta. Unnið var af sérlega miklu kappi þá daga sem notendasérfræðingurinn var á staðnum og skilaði það góðum árangri.

„Það hjálpaði náttúrulega mikið að viðmótið á tækinu er kunnuglegt“, sagði Unnur þegar ritstjóri Arnartíðinda heimsótti Orkuhúsið fyrir skömmu. „Sumt er öðruvísi en á gamla tækinu en mér fannst dagarnir með notendasérfræðingnum nýtast sérstaklega vel vegna þess að við vorum ekki að byrja á núlli.“ Hún sagði að tækið væri mjög þægilegt og það hefði gengið ótrúlega fljótt að koma rannsóknum í gang.

Vel búið og hentugt tæki
Með svona tæki er hægt að fá hinn ýmsa aukabúnað og mismunandi forrit og Unnur sagði að það sem keypt var með tækinu hentaði starfseminni vel. „Það er alltaf gaman að vinna með ný tæki, endurmenntun er nauðsynleg og heldur manni við efnið og eflir starfsánægjuna.“
Hún minntist líka á að stundum gætu lítil atriði skipt miklu máli, til dæmis væri mjög þægilegt á þessu tæki að spila fyrirmæli um öndun fyrir sjúklinginn og láta hann æfa sig á meðan verið væri að stilla inn. Það gerði sjúklingana rólegri og minnkaði líkur á öndunarhreyfingum á meðan verið væri að mynda.

Sem dæmi um vel heppnaðar rannsóknir fyrstu dagana nefndi hún carotis angiografíu, slagæðarannsókn af hálsæðum, sem nýbúið var að gera og starfsfólkið var sérlega ánægt með. Um leið og nýja tækið var keypt ný sjálfvirk skuggaefnissprauta sem bætir nýtingu á skuggaefni frá því sem áður var og einfaldar nákvæma skömmtun fyrir hvern sjúkling. Reiknað er með að það skili sér í enn meira öryggi sjúklinga og minni kostnaði af skuggaefniskaupum.

Gamla tækið var komið að lokum líftíma síns og það var aðalástæðan fyrir endurnýjuninni en einnig að fá tæki með nýjustu notkunarmöguleikum.

Starfsemi í stöðugri þróun
Á röntgen í Orkuhúsinu er starfsemin í sífelldri þróun og ekki er langt síðan nýtt segulómtæki var tekið í notkun. Arnþór minntist á að samhliða breytingunum sem tengjast þessum tveimur tækjum hefðu þau notað tækifærið til að fara yfir gæðamál, meðal annars uppfæra gæðahandbók staðarins og tryggja að allar merkingar, t.d. varúðarmerki á hurðum og þessháttar, væru samkvæmt reglum. Næsta mál á dagskrá væri síðan að fara yfir nýju persónuverndarlöggjöfina sem tekur gildi í maí á næsta ári og ganga úr skugga um að vinnuferlar og verklagsreglur uppfylli kröfur í henni.

Arnartíðindi þakka Arnþóri og Unni fyrir upplýsingarnar og ritstjórinn þakkar öllum hjá Íslenskri myndgreiningu fyrir góðar móttökur.