Gamalt CT út og nýtt inn í Orkuhúsi

 - Fréttir

Á Röntgen í Orkuhúsinu er verið að skipta um tölvusneiðmyndatæki og Raförninn tekur þátt í því skemmtilega verkefni. Farið var af stað með hressilegu átaki helgina 18. – 20. ágúst, eldra tækið tekið út og því nýja komið í hús. Allt gekk að óskum og nú er unnið að því að koma tækinu í rekstur eins fljótt og auðið er.

Það var vinnuhestur af gerðinni Toshiba Activion sem lét af störfum eftir langa og dygga þjónustu hjá Íslenskri myndgreiningu og við tekur annað Toshiba tæki, Aquilion Lightning.
Seinnipartur á föstudegi var nýttur í að undirbúa nýja tækið fyrir flutning og taka það gamla niður, svo stofan yrði tilbúin. Gert var hlé á verkinu á laugardeginum og sáust bæði Rafernir og Orkuhússfólk á hlaupum í Reykjavíkurmaraþoni og að njóta hinna ýmsu viðburða sem í boði voru á Menningarnótt. Síðan var tekið til óspilltra málanna á sunnudegi og að kvöldi stóð glænýtt CT á sínum framtíðarstað í Orkuhúsinu.

Svona verk þarfnast gaumgæfilegs undirbúnings og styrkrar stjórnunar og af Rafarnarins hálfu var það Sigurður Rúnar Ívarsson sem bar hitann og þungann af því, í góðri samvinnu við alla sem að komu. Áframhaldandi verkefnisstjórnun verður svo í höndum Magnúsar Guðjónssonar en rétt er að undirstrika að í verkefnum eins og þessu er það samstarfið sem gildir og allir hlekkir í keðjunni jafn mikilvægir.

Þann 22. ágúst mætir tæknimaður frá framleiðandanum á staðinn og tekur þátt í að ljúka uppsetningu og þann 28. kemur svo notandasérfræðingur til að aðstoða við að fínpússa framkvæmd rannsókna.

Arnartíðindi óska Íslenskri myndgreiningu til hamingju með áfangann og við hlökkum til að birta fleiri fréttir síðar.

.

Gamla tækið bíður þess að fara út
Gamla tækið bíður þess að fara út
Verið að sækja nýju græjuna
Verið að sækja nýju græjuna
Steini í fullum skrúða
Steini í fullum skrúða
Gamla tækið á útleið, undir vökulu auga Magnúsar
Gamla tækið á útleið, undir vökulu auga Magnúsar
Nýja tækið komið inn og Sigurður Haukur og Sigurður Rúnar ræða málin við Hlöðver Þorsteinsson frá Raflandi, umboðsaðila Toshiba
Nýja tækið komið inn og Sigurður Haukur og Sigurður Rúnar ræða málin við Hlöðver Þorsteinsson frá Raflandi, umboðsaðila Toshiba