Vel heppnað opið hús hjá Raferninum

 - Fréttir

Raförninn er þeirrar gæfu aðnjótandi að eiga einstaklega góða viðskiptavini og samstarfsfólk! Það sannaðist eina ferðina enn á opnu húsi þann 19. október sl. þar sem fjöldi fólks heimsótti fyrirtækið og gerði sér glaðan dag með starfsfólki Rafarnarins.

Búið var að lofa léttum veitingum, léttum skemmtiatriðum, léttum fréttaflutningi og léttum og skemmtilegum félagsskap. Allt gekk þetta eftir en félagsskapurinn er það sem stendur upp úr, þarna mætti skemmtilega fjölbreyttur en um leið samstilltur hópur fólks sem tengist myndgreiningu og tækniþjónustu á ýmsan hátt. Veitingum voru gerð góð skil og gaman var hve margir hrósuðu því sem boðið var upp á.

Það var einstaklega ánægjulegt að fá til okkar bæði reynsluboltana í faginu og nýgræðinga, tæknitröll og læknisfræðiséní, partýljónin og rólegu týpurnar og sjá allt þetta fólk skemmta sér og njóta samvista hvert við annað.

Hinn árlegi spurningaleikur, að sjálfsögðu haldinn með hjálp tækninnar, gerði mikla lukku og þátttakendur náðu margir frábærum árangri. Verðlaunasæti dreifðust víða um en í heildina má segja að það hafi verið yngri kynslóðin sem sópaði að sér flestum verðlaunum þetta árið.

Við Rafernir erum innilega þakklát fyrir þetta skemmtilega kvöld. Takk fyrir komuna, öll, þið eruð frábær!