Meistarapróf í geislafræði

 - Fréttir, Uncategorized @is

Fyrir skömmu sögðu Arnartíðindi frá flottum hópi geislafræðinga sem vörðu diplómaverkefni sín og nú berast fleiri góð tíðindi frá geislafræðibraut Háskóla Íslands. Berglind Eik Ólafsdóttir varði meistararitgerð sína á dögunum og lauk þar með MS prófi með glæsibrag. 

Rannsókn Berglindar ber yfirskriftina „Áhrif samræmingar á geislaskammta barna í tölvusneiðmyndarrannsóknum: Könnun á stillingum tækja og verklagi við rannsóknir“ og lýsti hún skammtamælingum á Íslandi í helstu TS rannsóknum á börnum fyrir höfuð, kviðarhol, brjósthol og sinusa.  

Þróun geislaálags stefnir í rétta átt
Í niðurstöðum rannsóknarinnar kemur meðal annars fram að meðalgeislaálag tölvusneiðmyndarannsókna sem skoðaðar voru reyndist sambærilegt við aðrar rannsóknir. Miðgildi DLP (Dose length product) var borið saman við Evrópsku viðmiðunarmörkin EDRL og í rannsóknum gerðum árið 2018 var það yfir viðmiðunarmörkunum en hafði lækkað og var komið niður fyrir þau í rannsóknum gerðum árið 2019. Í höfuð- og kviðarholsrannsóknum hjá 5 og 10 ára aldurshópunum og í brjóstholsrannsóknum hjá 10 og 15 ára aldurshópunum var marktækur munur á fyrri og seinni hluta árs 2019. 

Góð barna-prógröm eru grundvallaratriði
Á flestum tækjum sem rannsóknin náði til voru til staðar rétt stillt barna-prógröm. Á einum stað leiddu niðurstöður Berglindar í ljós þörf á að bæta við fleiri barna-prógrömum og nota líkamsþyngd í stað aldurs í forsendum þeirra. Annar staður reyndist notast við fullorðins-prógröm í rannsóknum á börnum og er sterklega mælt með að barna-prógröm verði sett upp þar. 

Auka þyrfti samræmi í verklagi
Geislaskammtur í samskonar rannsóknum reyndist geta verið talsvert mismunandi og gæti ástæðan verið ósamræmi í verklagi við rannsóknir. Meðal annars eru í sumum tækjum mörg mismunandi prógröm og það hvaða prógram er valið getur leitt til þess að jafn stór börn fái misháan geislaskammt við samskonar rannsókn. 

Þeir sem vilja kynna sér niðurstöður Berglindar nánar eru hvattir til að hafa samband við hana sjálfa eða geislafræðibraut HÍ, til dæmis Guðlaugu Björnsdóttur námsbrautarstjóra, gub@hi.is

Raförninn óskar Berglindi innilega til hamingju!