Frítt og nýtt – iGuide og ESUR

 - Fréttir

Gæðamál og öryggi sjúklinga eiga alltaf að vera ofarlega á baugi og nú er upplagt að undirstrika tvö áhugaverð atriði: Út september á þessu ári er ókeypis aðgangur að ákvarðanastuðningskerfinu ESR iGuide, nýtt efni er að bætast við þar og einnig í leiðbeiningar ESUR um notkun skuggaefna.

iGuide og réttlæting rannsókna með jónandi geislun
Ákvarðanastuðningskerfi ganga út á það að við tilvísun sjúklinga í rannsókn þurfi að fara í gegnum ákveðin þrep sem eiga að leiða til þess að rétt rannsókn sé valin og meiri líkur séu á að notkun jónandi geislunar sé viðeigandi í hvert skipti.

Evrópukerfið iGuide er unnið í samvinnu European Society of Radiology (ESR) og American College of Radiology (ACR).
ESR samtökin ákváðu að forðast þau mistök að reyna að finna upp hjólið enn á ný, heldur nýta þekkinguna sem fyrir var hjá kollegum í Bandaríkjunum og framtíðarsýn samtakanna beggja megin Atlantshafs er svo að byggja upp kerfi sem nýtist um víða veröld, óháð landamærum.

iGuide getur verið gagnlegt verkfæri við réttlætingu rannsókna þar sem notuð er jónandi geislun en réttlætingin hefur undanfarin ár verið að öðlast meira vægi en áður, meðal annars með leiðbeiningum  HERCA,  samtaka evrópskra geislavarnastofnana, og reglugerð um geislavarnir 1299/2015 sem tók gildi hérlendis í upphafi árs 2016.

Réttlætingin er samvinnuverkefni
Samkvæmt reglugerðinni er það skylda þeirra starfsmanna sem framkvæma rannsóknir eða meðferð að sjá til þess að notkun geislunar sé réttlætanleg en að sjálfsögðu er réttlætingin sameiginlegt verkefni sem allar stéttir á myndgreiningardeild og allir aðrir sem koma að málinu þurfa að vinna saman. Meðal annars þurfa tilvísandi læknar að láta koma fram á beiðni ýmsar upplýsingar til að byggja réttlætinguna á og á öllum myndgreiningardeildum eiga að vera til staðar skjalfestar leiðbeiningar fyrir starfsfólk hvað þetta varðar, um allar rannsóknir sem framkvæmdar eru. Þessu má t.d. ná fram með notkun iGuide, hvort heldur um er að ræða tilvísandi lækna eða myndgreiningarfólk.

Nýtt efni og frír aðgangur að iGuide
Á ECR ráðstefnunni í mars sl. var opnuð ný vefgátt, ESR iGuide Portal, og í tilefni þess gefinn frír aðgangur að iGuide út september nk. Það er því tilvalið að nota tímann til að kynna sér iGuide!

Hér má nefna að í apríl sl. var 25 ára afmæli bandarísku leiðbeininganna ACR Appropriateness Criteria fagnað með glæsilegri uppfærslu og nýju efni sem reikna má með að skili sér innan skamms í samstarfsverkefnið iGuide.

Leiðbeiningar ESUR um skuggaefni í æð
Þegar hugað er að öryggi í myndgreiningu má ekki gleyma skuggaefnunum og hvað leiðbeiningar í þeim efnum varðar bera ESUR Guidelines on Contrast Media, frá Evrópusamtökum nýrnasérfræðinga, höfuð og herðar yfir annað erlent efni sem hentar til notkunar hérlendis.  

Þar er nú í gildi útgáfa 8.1, með nýjustu uppfærslum og viðbótum, og þessar leiðbeiningar eru alltaf opnar fyrir alla, ókeypis.

Gæðavísir stendur fyrir sínu
Þegar leiðbeiningar og annað slíkt er til umræðu finnst ritstjóra Arnartíðinda sjálfsagt að minnast á Gæðavísi, veflægu gæðahandbókina sem Raförninn rekur og myndgreiningarfólk hjá flestum viðskiptavinum fyrirtækisins kannast við.

Margar myndgreiningardeildir eiga sína eigin, lokuðu gæðahandbók innan hans og með þesskonar áskrift fylgir aðgangur að Myndgátinni, sem er eina íslenska innstillingabókin, og Aðferðabókinni, sem inniheldur leiðbeiningar um framkvæmd algengra röntgenrannsókna.
Hver vinnustaður lætur síðan bæta við eigin vinnuleiðbeiningum, þannig að aðgangur að gæðahandbókinni kemur í staðinn fyrir möppur og miða á hverri einustu stofu. Vegna þess að efnið er veflægt skila allar breytingar sér strax og hvergi liggja úreltar upplýsingar.

Hinsvegar er hluti af Gæðavísi öllum opinn og þar er mikið af gagnlegum upplýsingum, meðal annars um joðskuggaefni sem notuð eru í æð. Að baki efninu liggur mikil vinna og viðurkenndar heimildir. Tilgangurinn með því að hafa það opið öllum, gjaldfrjálst, er að stuðla að sem öruggastri notkun skuggaefna og minnka með því heilsufarslega áhættu sjúklinga sem þurfa í rannsóknir þar sem þau eru nauðsynleg.