Forrit sem les úr gæðamælingamyndum

 - Fréttir

Fyrir ári síðan birtum við frétt um hugbúnað sem hefur verið í þróun hjá Raferninum, til að lesa sjálfvirkt úr gæðamælingamyndum frá almennum röntgentækjum. Þróunin hefur gengið vel og frumgerð er nú tilbúin til notkunar. Búnaðurinn verður settur upp hjá einum viðskiptavini til að byrja með en kynning fyrir alla var haldin 7. október sl. og er upptaka frá henni aðgengileg á Facebook síðu Rafarnarins

Raförninn hefur undanfarin tvö ár unnið að þróun á hugbúnaði til að sjálfvirknivæða mánaðarlegar gæðamælingar á almennum röntgentækjum. Í því sambandi má minnast á að fyrirtækið hefur áður þróað sambærilegan hugbúnað fyrir tölvusneiðmyndatæki með góðum árangri en þó með eldri tækni. Eins og sagt var frá í Arnartíðindum í fyrra var markmið verkefnisins að skoða hvort hægt væri að nýta vélnám og tölvusjón til að greina myndir af prófunarlíkönum, með því að staðsetja íhluti líkannana og senda í sjálfvirkan úrlestur. Vonin var að með því að beita þessari nýju tækni myndi nást fram töluverð hagræðing í þróun á slíkum hugbúnaði og aukin geta til að takast á við breytileika í myndum á milli tækja en sá breytileiki er meiri í almennu röntgeni heldur en í tölvusneiðmyndatækjum.

Frumgerðin er tilbúin!
Við höfum fengið góða aðstoð við þróunina frá Háskólanum í Reykjavík en verkefnið var í upphafi unnið í gegnum samstarfssamning Rafarnarins og HR um starfsnám nemenda. Viðskiptavinir Rafarnarins hafa einnig stutt við þróuninna með því að veita aðgang að myndum af prófunarlíkaninu sem notað er til mánaðarlegra mælinga og aðgengi að niðurstöðum gæðamælinga en myndirnar og niðurstöðurnar voru notaðar til að þjálfa forritið.
Nú hefur verið lokið við frumgerð forritsins sem getur tekið við gæðamælingamyndum beint úr röntgentækjum og skilað niðurstöðum hratt og örugglega til notenda. Einnig er búið að þróa viðbót sem skráir niðurstöður gæðamælinga sjálfvirkt inn í gæðamælingakerfið Smárann. Þetta er því verulega aukin sjálfvirkni frá því sem er í dag þar sem starfsmaður á staðnum þarf bæði að lesa handvirkt úr myndunum og slá niðurstöðurnar inn í Smárann eða QCC.

Prófanir hjá viðskiptavinum
Næsta skref í þróuninni er að prófa frumgerð forritsins hjá viðskiptavini. Í framtíðinni verður möguleiki að keyra hugbúnaðin frá miðlægum stað en á meðan prófunum stendur verður honum komið fyrir á vélbúnaði hjá viðskiptavini. Settar verða stillingar inn á röntgentæki þannig að þau geti sent gæðamælingarannsóknir beint á hugbúnaðinn. Gæðamælingarnar yrðu þá framkvæmdar með breyttu sniði en í stað þess að geislafræðingur lesi úr gæðamælingamyndum yrðu þær sendar á hugbúnaðinn og opnað vefviðmót sem sýnir niðurstöður mælinganna. Þar næst væri farið yfir þær niðurstöður og staðfest að um réttar tölur sé að ræða.
Þegar prófunum er síðan lokið er vonast til þess að ferlið verði með öllu sjálfvirkt fyrir utan myndatökuna sjálfa og kerfið láti vita ef niðurstöður eru utan marka eða ef þörf er á að endurtaka mælinguna.

Raförninn bauð á kynningu
Kynning á hugbúnaðinum var haldin 7. október sl og þar sagði Jónas Már Kristjánsson, verkefnisstjóri, frá þróun hugbúnaðarins, notagildi hans og möguleikum. Góðar spurningar úr sal sköpuðu svo grunn að gagnlegum umræðum um gæðamál og hugbúnaðarþróun.
Við Rafernir þökkum öllum sem komu innilega fyrir en þeir sem ekki gátu mætt á staðinn geta séð upptöku frá kynningunni á Facebook síðu Rafarnarins.