Þróun á sjálfvirkum úrlestri gæðamælingamynda

 - Fréttir, Uncategorized @is

Hjá Raferninum hafa verið unnin mörg metnaðarfull þróunarverkefni, enda leggur fyrirtækið áherslu á framþróun, hugmyndaauðgi og sífellda leit að leiðum til að gera betur. Nú er í gangi stórt verkefni þar sem vélnám er nýtt til að þróa hugbúnað sem les sjálfvirkt úr myndum sem teknar eru í gæðamælingum á hefðbundnum röntgentækjum. 

Meiri sjálfvirkni í gæðamælingum
Aukin sjálfvirkni er eitt af mikilvægum stefnumálum innan Rafarnarins og lengi hefur verið áhugi á að minnka þátt mannshandarinnar í framkvæmd gæðamælinga og skráningu á niðurstöðum, bæði í mælingum sem tæknimenn gera en ekki síður stöðugleikamælingum sem starfsfólk viðskiptavina sér um, oftast mánaðarlega. 

Það var því upplagt að grípa tækifærið þegar gerður var samningur við Háskólann í Reykjavík, í árslok 2019, um að taka nema á lokaári í heilbrigðisverkfræði í starfsnám hjá Raferninum. Ákveðið var að neminn, Jónas Már Kristjánsson, leiddi verkefni þar sem athugaðir yrðu möguleikar á að nota vélnám (machine learning) til að þekkja myndir af mismunandi prófunarlíkönum (phantom) og staðsetja ákveðin atriði á þeim. 

Spennandi verkefni sem stefnir vel
Í stuttu máli var fyrsta niðurstaða sú að þetta væri vel gerlegt og eftir það varð ekki aftur snúið, allir voru orðnir mjög spenntir fyrir að búa til starfhæfan hugbúnað sem notar gerfigreind til að lesa úr gæðamælingamyndum. 

Eftir starfsnámstímann var Jónasi boðið að vinna hjá Raferninum yfir sumarmánuðina og meðfram náminu eins og mögulegt væri. Hann þáði það og hefur borið mestan þunga af vinnunni við þróunarverkefnið en aðrir Rafernir koma að verkefninu á ýmsan hátt, enda einn af stærstu kostum fyrirtækisins hversu fjölbreyttur starfsmannahópurinn er og býr yfir breiðri þekkingu og reynslu. 

Pehamed Digrad prófunarlíkanið er almennt notað við stöðugleikamælingar sem starfsfólk viðskiptavina Rafarnarins gerir á röntgenbúnaði og tæknimenn fyrirtækisins nota það líka við hluta af því gæðaeftirliti sem þeir sinna. Þess vegna var ákveðið að einbeita sér fyrst um sinn að þróun búnaðar til að lesa sjálfvirkt úr myndum af því líkani. 

Krefjandi og skemmtilegt ferli
Jónas segir að í grundvallaratriðum séu í verkefninu tvær stórar áskoranir. „Sú stærsta er líklega breytileiki myndanna milli tækja,“ segir hann. „Þar sem framleiðendur og stillingar eru ekki eins á öllum stöðum veldur það því að sumar myndir verða t.d. bjartari en aðrar eða í betri upplausn.“

Hin stóra áskorunin er að þvinga hugbúnaðinn til að sjá myndirnar líkt og mannsaugað, með því að skilgreina ákveðnar reglur. „Stöðuleikamælingar röntgentækja byggja auðvitað á að það sé lesið úr þessu með augunum,“ segir Jónas. „Það býður upp á hinar og þessar mannlegar villur, t.d. vegna þess að það er ekki alltaf lesið úr myndunum við sömu innanhúss birtuskilyrði eða hreinlega af því að mann vantar einn kaffibolla enn. Þar fyrir utan þá greinir tölvan betur mismun heldur en mannsaugað.“ 

„En heilt yfir þá hefur þetta verið rosalega skemmtilegt ferli“ bætir Jónas við. „Líka að fá að nýta það sem maður lærði í Heilbrigðisverkfræði um merkjafræði, læknisfræðileg tæki, myndatöku og myndirnar sjálfar, svo eitthvað sé nefnt.“ 

Allir bjartsýnir á framhaldið
Næsta skref er að tæknimenn Rafarnarins geri prófanir á frumgerð hugbúnaðarins, um leið og þeir framkvæma nauðsynlegar mælingar á röntgenbúnaði viðskiptavina. Niðurstöður þeirra prófana verða svo notaðar í áframhaldandi þróun og að sjálfsögðu er lokamarkmiðið að geta boðið hugbúnað sem er þægilegur í notkun og skilar öruggum niðurstöðum úr gæðamælingum á röntgenbúnaði.

Arnartíðindi þakka Jónasi fyrir.