Allt að gerast á RSNA – 2. tölublað :)
Þessa vikuna stendur yfir RSNA ráðstefnan í Chicago og að vanda er ótalmargt að sjá og heyra. Góður hópur Íslendinga er á ráðstefnunni, eins og t.d. má sjá á RSNA lista Arnartíðinda, og nokkur hafa tekið tíma úr sinni þéttskipuðu dagskrá til að senda fréttapunkta heim til Íslands. Búið er að bæta við fréttina frá 29. nóvember og aldrei að vita nema von sé á meiru.
Gervigreind og önnur nýjasta tækni
Öllum sem Arnartíðindi hafa heyrt frá er gervigreindin efst í huga, enda þema ársins „Leading through change“ og mikil áhersla á það sem myndgreiningarfólk getur notað til að þróa sitt eigið vinnuumhverfi, ásamt því að leiða jákvæðar breytingar innan heilbrigðiskerfisins.
Eitt af því áhugaverða sem kom fram í setningarávarpi formanns Radiological Society of North America, dr. Matthew Mauro, var að gervigreindin getur létt störf bæði myndgreiningarfólks og annars heilbrigðisstarfsfólks með því að einfalda vinnu við bókanir, forgangsröðun eftir bráðaþörf, skýrslugerð og ýmislegt fleira fyrir utan hina eiginlegu myndgreiningu. Málið snýst nefnilega ekki eingöngu um meiri myndgæði og aðstoð við greiningu, heldur að létta á öllu hinu vinnuálaginu og gefa fólki þannig meiri tíma til að sinna… fólki.
Covid og krabbamein
Helga Auðunsdóttir, geislafræðingur á HSS í Keflavík, er á RSNA ásamt starfssystur sinni Jórunni Garðarsdóttur. Hún sendi Arnartíðindum fréttapunkta þar sem hún hrósaði tæknisýningunni sérstaklega og sagði frábærlega gaman og áhugavert að skoða nýjungarnar sem hin ýmsu fyrirtæki hefðu upp á að bjóða.
Af fyrirlestrunum sem þær voru búnar að fara á sagði Helga að tveir hefðu sérstaklega staðið upp úr; annarsvegar fyrirlestur um áhrif og eftirköst Covid sýkinga á hin ýmsu líffæri hjá sumum sjúklingum en hinsvegar fyrirlestur um skimun með lágskammta tölvusneiðmyndum fyrir lungnakrabbameini hjá konum og möguleika á að tengja hana við skipulagða skimun fyrir brjóstakrabbameini.
Vinna og hvíld
Lára D. Baldursdóttir, geislafræðingur í Orkuhúsinu, var á sama máli og Helga; að tæknisýningin væri óvenju flott og þá væri mikið sagt! Þau eru fjögur saman frá Röntgen Orkuhúsinu á ráðstefnunni og hafa haft í nógu að snúast. Vinna hvers dags getur tekið rækilega á og Lára minntist á hversu vel væri búið að ráðstefnugestum hvað varðar möguleika á hvíld og næringu. „Það var meira að segja strengjasveit að spila róandi tónlist í einu hádeginu“, sagði hún hlæjandi.
Tækjaframleiðendur og sýnendur
Tækni og nýjungar eru alltaf í brennidepli á RSNA ráðstefnunni og ekki síst þetta árið, eins og fram hefur komið. Arnartíðindi höfðu samband við íslenska umboðsaðila helstu tækjaframleiðenda, bæði þau sem eru stödd á ráðstefnunni og þau sem ekki komust til Chicago í þetta sinn.
Rafland
Hlöðver Þorsteinsson, hjá Raflandi, brást við þó hann sé fjarri góðu gamni. Hann sagði spennandi tíma framundan hjá Canon. Canon Medical væri framalega, ef ekki fremst í flokki varðandi þróun og nýtingu gervigreindar, “AI – Artificial Intelligence”, bæði fyrir notendur og sjúklinga. Þetta ætti við um segulómtæki, tölvusneiðmyndatæki, ómtæki og vinnustöðvar. Hann sagði þetta greinilegt í nýjum tækjum sem eru að koma á markaðinn og nefndi sem dæmi nýja gerð af tölvusneiðmyndatækjum sem voru kynnt á RSNA. Þessi tæki bera nöfnin Aquilion ONE / INSIGHT Edition og Aquilion Serve SP, og eru með innbyggt Clear-IQ Engine (AiCE) Deep Learning Technology.
Canon Medical leggur meðal annars áherslu á að gera tækin notendavænni og Hlöðver nefndi sem dæmi staðsetningarbúnað fyrir sjúklinginn á borðinu, hliðarfærslu á borðinu og möguleika á að stjórna tækinu með snertiskjá á gantryinu.
Tækin skila myndum í hárri upplausn og gera notendum kleift að nota minni skammta af skuggaefni. Einnig auðvelda þau bestun á vinnuferlum og auk þess er geislaálag á sjúklinga enn minna en í fyrri tækjum vegna tæknilegrar nýtingar á geislaskammtaviðmiðum „DRL – Diagnostic Reference Levels“.
HealthCo / Fastus
Erna Dís Brynjúlfsdóttir er á RSNA, ásamt Guðmundi Hreiðarssyni, og Arnartíðindi fengu skemmtilega punkta og myndir frá þeim:
„Það er búið að vera mikið að gera á GE Healthcare, AGFA og Bayer básunum okkar síðustu daga. Má þarf nefna að GE var að frumsýna nýtt 1,5T MRI tæki sem heitir SIGNA Champion. Öflugur vinnuhestur með frábærum myndgæðum. Einnig er gervigreindin að koma hratt inn í öllum flokkum myndgreiningatækja hjá okkur í GE healthcare en básinn þeirra var einstaklega stór og glæsilegur að venju.
Við vorum á sýningunni frá morgni til kvölds að taka á móti Íslendingunum sem voru á svæðinu og kynna fyrir þeim allar nýjungarnar sem voru í boði. Virkilega skemmtilegt að sýna þeim CT tækin Apex og Ascend sem nýlega voru sett upp á Akureyri, Ísafirði, Keflavík og Neskaupstaður fær síðan sitt í janúar.
Mikilvægt var að vera tvö á staðnum þar sem fundir áttu það til að skarast og gátum við því boðið upp á góða þjónustu frá okkar hendi með öllum okkar birgjum.
Bkv frá Chicago
Guðmundur & Erna Dís
HealthCo/Fastus“
Líður að lokum ráðstefnunnar
Flestir af Íslendingunum fara nú að huga að heimferð frá Chicago en gaman væri ef fleiri gætu sent Arnartíðindum eitthvað skemmtilegt, jafnvel eftir að heim kemur.