Hitt og þetta um RSNA 2019

 - Fréttir

RSNA ráðstefnan 2019 er sú 105. í röðinni og yfirskriftin í ár er „See Possibilities Together“. Flottur hópur af íslensku myndgreiningarfólki er á staðnum og þau koma svo sannarlega auga á ýmsa möguleika til að gera þjónustu við sjúklinga enn betri en áður. Arnartíðindi þakka innilega fyrir allt skemmtilega efnið sem við fáum sent… myndgreiningarfólk er frábært!

Þeir sem komu á opið hús hjá Raferninum í október sl. fengu að heyra hvað fréttaflutningur Arnartíðinda af RSNA þótti merkileg nýjung á sínum tíma og hvað aðferðirnar til að deila fréttum voru þá frumstæðar á nútíma mælikvarða. Nú er öldin önnur, allir deila fréttum fyrirhafnarlítið og finnst sjálfsagt að geta fylgst með hverju því sem er efst á baugi á þeirra áhugasviði.
Við birtum innslög á Facebook frá Íslendingum í Chicago og Arnartíðindi nýta efnið frá okkar frábæru tengiliðum í aðeins veigameiri samantekt frá ráðstefnunni.

Punktar frá Íslendingum á RSNA

Jórunn Jóna Garðarsdóttir, á HSS í Keflavík, var fyrst til að senda myndir og punkta frá RSNA þetta árið. Hún sagðist varla vita í hvaða átt hún ætti að horfa, allsstaðar væri eitthvað spennandi, bæði á tæknisýningunni og annarsstaðar. Líka fannst henni frábær upplifun að vera í hópi með þúsundum annarra sem allir hefðu áhuga á læknisfræðilegri myndgreiningu. Eini gallinn væri að stundum tæki tímann sinn að komast að því sem vinsælast væri að skoða.
„Það sem hefur heillað mig mikið eru lítil færanleg röntgentæki sem hægt er að taka með sér, t.d. á íþróttamót, og taka mynd af útlimum ef grunur er um brot og þessháttar“, sagði Jórunn. „Þetta eru þráðlaus tæki og mjög lítil og létt en það þarf auðvitað einhvern með viðeigandi kunnáttu til að nota þau“.

Elsa Dögg Áslaugardóttir, hjá Röntgen Domus, sagði að eins og venjulega væri ótal margt að sjá og heyra á RSNA og í ár væri mjög áberandi umfjöllun um AI, gervigreind, og deep learning sem er eftirvinnsla byggð á uppsöfnuðum upplýsingum.
Af fyrirlestrum sagðist hún vilja nefna sérstaklega djarfan og áhugaverðan fyrirlestur um að blýsvunntur á sjúklingum gerðu meira ógagn en gagn. „Umræðurnar eftir fyrirlesturinn voru mjög hressandi“, sagði Elsa Dögg. “ Ég hvet áhugasama til að googla; Rebbecca M. Marsh PHD, hún hefur skrifað grein um að hún vilji hætta að nota blýsvunntur á sjúklinga.“
Á tækjasýningunni sagðist Elsa Dögg hafa fallið fyrir CT tæki sem er eingöngu tengt við spjaldtölvu, engin önnur tölva eða langir kaplar í spilinu. „Öll vinnsla fer fram á þessari spjaldtölvu, upplýsingar um sjúkling, innstilling, skuggaefnisinngjöf, o.s.fr.“
Að endingu bætti Elsa Dögg við: „Svo er náttúrulega alltaf gaman að hitta kollegana á kvöldin og skála smá.“ 🙂

Magnús Lúðvíksson, á Landspítala, tók undir að Artificial intelligence væri mjög áberandi á RSNA að þessu sinni, bæði í fyrirlestrum og á tækjasýningunni. Hann sagði að auk þess væri heil álma undir tækjasýningarsvæðinu norðanmegin undirlögð af fyrirtækjum sem eru að vinna í nýjungum á þessu sviði.
„Umfangið á Artificial Intelligence svæðinu gefur góða hugmynd um hversu alvarlega RSNA er að sinna þessu á ráðstefnunni“, sagði Magnús. „Að mörgu leyti skynjar maður að við stöndum á  þröskuldi mikilla framfara, við vitum bara ekki ennþá hvert þessi þróun á eftir að bera okkur sem fag eða hvernig við nákvæmlega náum að nýta hana í framtíðinni“.

Fyrir þá sem hema sitja 

Þeir sem ekki komust á RSNA þetta árið  geta til dæmis fylgst með…

vefsíðu RSNA

Minnu frænku (AuntMinnie.com)

…Radiological Society of North America á Facebook og á Twitter og á YouTube

…öllu því sem er merkt #RSNA19 á Instagram

Imaging Technology News

SearchHealthIT

Svo er sérlega flottur möguleiki nota Virtual Meeting sem gefur aðgang að miklu efni, bæði í rauntíma og eftir að viðburðum lýkur. Í sumum tilvikum er boðið upp á gagnvirkni, fólk getur tekið þátt í umræðum og fengið spurningum svarað en tímamismunurinn gerir það ögn erfiðara fyrir fólk hér uppi á Íslandi 🙂
Það er nauðsynlegt að skrá sig til að nýta Virtual Meeting og það kostar u.þ.b. 35.000 íslenskar krónur en það ætti ekki að vefjast fyrir neinum vinnustað að greiða það í símenntun fyrir starfsmann.
Eftir að ráðstefnunni lýkur er efnið aðgengilegt til 30. apríl 2020.

Arnartíðindi þakka öllum innilega fyrir skemmtilega punkta og myndir frá RSNA 2019!
Athugið að ef smellt er á myndir í glærusýningunni hér fyrir neðan sjást myndatextar, þar sem meðal annars stendur hver tók myndina.