Afmælisár arnarins! Fyrsti þáttur…

 - Fréttir

Raförninn var stofnaður 20. maí 1984 og fagnar því 40 árum á þessu ári! Okkur langar að gera allskyns hluti af því tilefni, allt þetta ár, og eitt af því er að birta skemmtilega þætti úr sögu fyrirtækisins. Fyrsti þáttur er í boði stofnanda Rafarnarins, Smára Kristinssonar, og þar kemur meðal annars við sögu sauðfé, villa í þýðingu texta, tilviljanir og sendiráð Íslands í Danmörku.

Rætur Rafarnarins

Fyrsti vendipunkturinn
Allt á sitt upphaf. Það er gjarnan smátt og ósýnilegt nema kannski í baksýnisspeglinum. Ég er alinn upp í sveit, einkum við sauðfjárbúskap. Frá fyrstu tíð voru vélar, þótt fáar og fátæklegar væru miðað við það sem seinna varð, það áhugaverðasta í búrekstrinum.
Þá var það dag einn þegar ég var um 13 ára að við systkinin sáum kindur utan túns að haustlagi. Einhver náði í kíki til að sjá þær betur, því ef við áttum þær þurfti að sækja þær. Kíkirinn gekk á milli okkar. Ég sá bara venjulegar kindur. Yngri systkini mín þrjú sögðu öll “þær eru ókunnugar”. Ég spurði “hvernig sjáið þið það”? Það kom löng þögn, sennilega vegna þess hversu heimskuleg spurningin var. Svo kom svarið “Þær ganga svo asnalega”.
Á þeirri stundu varð mér ljóst að mín biði ekki framtíð í sauðfjárbúskap. Alla tíð síðan var minn fókus á tæknina.

Tilviljanir, heppni… örlög?
Í gagnfræðaskóla hafði ég ákveðið að verða rafmagnstæknifræðingur. Þá var 4 ára iðnnám undirbúningsskilyrði, sem þýddi að nám í tæknifræði tók 9 til 12 ár talið frá fyrsta ári í iðnskóla. Ég leitaði að styttri leið og með bréfaskriftum við norrænu sendiráðin fann ég framúrstefnuskóla í Danmörku sem hafði þjappaði iðnnáminu niður í eitt ár, með fókus á þá sem ætluðu í rafmagns- eða rafeindatæknifræði. Eftirspurn var mikil eftir þessu nýja námi og biðtími eftir inngöngu 18 mánuðir.
Einn minna traustu og góðu kennara, Ármann Halldórsson á Eiðum, þýddi umsóknina mína á dönsku yfir góðu spjalli og kaffibolla. Þar varð rafvirkjun að electronic en ekki elektroteknik, sem leiddi til þess að ég innritaðist í rafeindatækni en ekki rafvirkjun. Sem betur fór bauð skólinn upp á báðar þessar brautir, þvi rafeindatækni er undirstaða flestra lækningatækja og þar með alls myndgreingarbúnaðar.
Í
 tækniháskólanum í Árósum rétt fyrir 1980 voru vinsælu valgreinarnar upplýsingatækni og stafræn merkjavinnsla. Ég merkti við stafræna merkjavinnslu sem nr 1 og kjarneðlisfræði sem nr 2. Ég fékk nr 2 og þar með kom áhugi á geislun og geislavirkni sem síðar leiddi til þess að ég sótti um vinnu á röntgendeild Borgarspítalans í Fossvogi.

Fyrstu skref í myndgreiningu
Ásmundur Brekkan, yfirlæknir röntgendeilarinnar á Borgarspítalanum, hafði byggt upp þá deild sem opnaði 1966. Þegar hér var komið sögu, 1980, var hann ósáttur við stöðu viðhaldsmála á deildinni og í samráði við yfirstjórn þá auglýsti hann eftir tæknifræðingi til starfa við deildina. Ég sótt um og fékk starfið eftir starfsviðal við þá Jóhannes Pálmason aðstoðarforstjóra og Ásmund Brekkan. Í hönd fóru lærdómsrík ár þar sem starfsfólk myndgreingardeildarinnar sýndi mér einstaka þolinmæði og reyndi að svara öllu sem um var spurt.
Þetta voru spennandi tímar. Deildin á Borgarspítalanum var að breytast úr röntgendeild í myndgreiningardeild. Búnaður fyrir ísótópastofu hafði verið keyptur og geymdur í kössum í 2 ár en var nú settur upp og tekinn í notkun. Fyrsta tölvusneiðmyndatækið á Íslandi var keypt og það var lærdómsríkt að koma því í rekstur.  Með tölvusneiðmyndatækninni hófst stafræn bylting í myndgreiningu sem ekki sér fyrir endann á.       

Raförninn verður til
Árið 1984 komu þrír tæknifræðingar saman að Bröttukinn 23 í Hafnarfirði til að stofna Raförninn ehf. Þetta voru þeir Kristján Antonsson, Ásgrímur Skarphéðinsson og Smári Kristinsson. Stefnan var að bjóða upp á þjónustu í upplýsinga- og heilbrigðistækni.
Þessir ágætu félagar hittust aldrei síðar á vegum fyrirtækisins og það kom í hlut Smára að koma fótum undir reksturinn.


Arnartíðindi þakka Smára fyrir.
Framhald í næsta þætti…