Röntgenráðstefnur erlendis haldnar samhliða í raunheimum og á vefnum
Stærstu erlendu ráðstefnurnar sem íslenskt myndgreiningarfólk hefur almennt sótt í gegnum árin eru RSNA í Chicago og ECR í Vínarborg. Árið 2020 voru þær báðar fjar-ráðstefnur þar sem einungis var hægt að taka þátt í gegnum veraldarvefinn og sama gilti um ECR 2021. Nú færa ráðstefnuhaldarar sig aftur nær raunheimum og stefnir í að myndgreiningarfólk hafi möguleika á að mæta á staðinn, bæði á RSNA 2021 og ECR 2022.
Þáttaka í raunheimum
Vegna Covid-19 faraldursins verða ýmsar takmarkanir á ferðum fólks og strangar sóttvarnareglur í gildi í bæði á McCormick Place í Chicago og í Austria Center í Vínarborg. Stærsta hindrunin fyrir Íslendinga er að eins og mál standa er Ísland á rauðum lista Sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna og almennt er íbúum Schengen landa bannað að koma þangað. Undanþágur er mögulegt að fá af sérstökum ástæðum en ólíklegt að nokkuð af því eigi við venjulega ráðstefnugesti. Ferðalög innan Evrópu eru minni takmörkunum háð en hvert sem fólk vill halda þá þarf að huga vel að öllum „tækniatriðum“, svo sem bólusetningarvottorði, neikvæðu Covid prófi og ýmsu öðru sem krafist er af ferðalöngum.
Upplýsingar um opnun landamæra og sóttvarnakröfur einstakra landa/ríkja má m.a. finna á vef Stjórnarráðsins undir „Ferðaráð vegna COVID-19 heimsfaraldurs“
Upplýsingar um sérreglur fyrir RSNA 2021 má finna á vefsíðu ráðstefnunnar undir „RSNA 2021 health & safety“
Upplýsingar um sérreglur fyrir ECR 2022 má finna á vefsíðu ráðstefnunnar, myesr.org/congress
Þátttaka í netheimum
Það er hægt að taka þátt í báðum þessum stóru ráðstefnum í gegnum veraldarvefinn og ráðstefnuhaldarar leggja metnað í að gera upplifun þeirra sem það kjósa sem besta.
Vefaðgangur að RSNA 2021 tryggir fólki aðgang að öllu efni ráðstefnunnar, á meðan hún stendur yfir og fram til 30. apríl 2022. Upplýsingar um skráningu er að finna undir „Pricing & Registration“
Vefaðgangur að ECR 2022 tryggir fólki aðgang að öllu efni ráðstefnunnar, á meðan hún stendur yfir og eftir það verður hægt að nálgast efnið undir „ECR 2022 On-Demand“. Nánari upplýsingar eru að tínast inn á myesr.org/congress
Það verður spennandi að fylgjast með möguleikunum á að sækja RSNA 2021 og ECR 2022 í raunheimum og hvort íslenskt myndgreiningarfólk verður meðal þátttakenda.