Raförninn á tímum Covid-19
Rafernir eru ekki ónæmir fyrir Covid-19 veirunni, frekar en aðrir, en fyrirtækið stendur að sumu leyti vel að vígi í varnarleiknum sem fram fer þessar vikurnar. Þar er hlutverk fjarvinnunnar stærst, á því sviði hefur Raförninn um það bil aldarfjórðungs reynslu og allur búnaður og verkferlar er uppsett með fjarvinnu í huga.
Fjarvinna er ekkert nýtt hjá Raferninum
Raförninn var stofnaður árið 1984 og það hefur alltaf verið hluti af stefnu fyrirtækisins að vera vakandi fyrir nýrri tækni og prófa sem flest af því sem virðist álitlegt. Það hefur skilað sér í mikilli þekkingu og reynslu, bæði jákvæðri reynslu og reynslu sem hefur getið af sér áður óþekkt blótsyrði hjá ýmsum tæknimönnum 🙂 Stundum er það reyndar sú reynsla sem kennir manni mest.
Það er búið að nota módem, ISDN, VPN, ljósleiðara, veraldarvefinn, Bomgar, Skype, Google… og ótal önnur verkfæri. Bæði til að tengjast tækjabúnaði hjá viðskiptavinum og þjónusta hann án þess að koma á staðinn og til að vinna hjá Raferninum þó fólk búi fjarri höfðuðstöðvum fyrirtækisins, hérlendis eða í öðrum löndum.
Kostirnir eru óteljandi og verða ekki tíundaðir hér en fólk gæti haft gaman af að líta á nýjustu upplýsingar frá Bandaríkjunum, um þróun fjarvinnu þar og kosti hennar.
Helsti gallinn hefur verið að margir Íslendingar þekkja lítið til fjarvinnu, sem hefur stundum gert að verkum að starfsfólk viðskiptavina telur að tæknimenn Rafarnarins „geri ekki neitt“ þegar þeir hafa ekki sést á staðnum í einhvern tíma.
Höldum þjónustunni eins lítið breyttri og mögulegt er
Á þessum undarlegu tímum Covid-19 faraldursins hvikum við ekki frá því að veita viðskiptavinunum sem besta og öruggasta þjónustu. Allir Rafernir halda ótrauðir áfram þeim fjölmörgu verkum sem hægt er að vinna án þess að koma inn í húsnæði viðskiptavina og þegar nauðsynlegt er að mæta á staðinn gætir starfsfólk okkar að sjálfsögðu ýtrasta hreinlætis og fær leiðbeiningar hjá starfsfólki viðskiptavina um sérstakar varúðarráðstafanir.
Það eru stór verkefni í gangi á nokkrum myndgreiningardeildum og mikilvægt fyrir heilbrigðisþjónustuna að nýr búnaður komist í gagnið og núverandi búnaður haldist í góðu lagi. Af þessum sökum er ekki hægt að takmarka samgang tæknimanna Rafarnarins nema að litlu leyti en við reynum eins og mögulegt er að skipuleggja vinnuna þannig að menn skiptist á um að vera á staðnum og/eða hafi tilhlýðilegt bil á milli sín við vinnuna.
Eins og allir aðrir hafa Rafernir undantekningarlaust í heiðri leiðbeiningar Landlæknis og Almannavarna og við vonumst til að komast sem best í gegnum þetta erfiða tímabil.