Gæðamælingar í Rúanda

 - Fréttir

Fyrrverandi framkvæmdastjóri Rafarnarins, Smári Kristinsson, hefur unnið mörg spennandi verkefni í gegnum árin og nýlega tók hann að sér kennslu um gæðamælingar á myndgreiningarbúnaði, hjá Staðlastofnun Rúanda. Arnartíðindi óskuðu eftir ferðasögu og var það auðsótt mál.

Beiðni um kennslu í Rúanda
Fyrir rúmu ári síðan barst beiðni frá umboðsaðila Phantom Laboratory í Afríku um að kenna mælingar á tölvusneiðmyndatækjum með Catphan 700 fantómi hjá Staðlastofnun Rúanda í Kígali (Rwanda Standards Board). Ég hef áður unnið nokkur verkefni í þróunarlöndum en það hentaði mér ekki að taka þetta verkefni á þessum tíma, hinsvegar bauð ég upp á fjarnámskeið til undirbúnings. Þau námskeið byrjuðu í fyrravor og héldu áfram fram á haust.
Á þeim tíma kom líka fram krafa um að kenna mælingar á venjulegum röntgentækjum og brjóstamyndatækjum. Tæknilega gekk fjarkennslan upp, en nemendur kvörtuðu mikið yfir að fá mig ekki á staðinn. Fyrir nokkrum mánuðum var síðan ákveðið að ég kæmi til Kígali í Rúanda í byrjun nóvember og kenndi í eina viku.

Rúanda
Rúanda er lítið land í austanverðri miðbaugsafríku, sem komst eftirminnilega á heimskortið þegar Hútúar frömdu þjóðarmorð á Tútsum vorið 1994 þegar þeir myrtu um milljón manns eða 70% af skráðum Tútsum á 100 dögum. Eftir að borgarastríðinu lauk um mitt ár 1994 hafa orðið stórstígar framfarir í landinu og hagvöxtur með því sem best gerist. Tala þar sumir um kraftaverk. Þetta er um 13 milljón manna þjóð sem býr hálendu landi rétt við miðbaug. Loftslagið er mjög þægilegt og sólarhringshitasveiflan allt árið er milli 15 og 25 gráður. Náttúran er býsna mögnuð sem helgast af aðstæðunum sem verða til í 950 til 4500 m hæð. Í landinu norðanverðu eru virk eldfjöll og gosefnin úr þeim hafa lagt sitt til málanna. Rúmlega 700 tegundir fugla eru taldir eiga heima í Rúanda. Þar eru líka öll helstu dýr sem við teljum til Afríku eins og fílar, gíraffar, flóðhestar og ljón. Fjöldinn er samt lítill og stutt síðan tókst að koma böndum á ólöglegt dráp á verndarsvæðum.

Höfðuðborgin Kigali
Kigali er nútímaborg og er talin sú hreinasta og snyrtilegasta í Afríku og þótt víðar væri leitað. Veitingastaðir eru margir og við hittum á þokkalega staði. Máltíð kostar fá ca 1500 kr íslenskum en léttvín er á svipuðu verði og á Íslandi. Verslanir eru hér allt frá götumörkuðum til fínna stórverslana. Löggæsla er mjög áberandi og vopnaleit við innganga í nánast allar byggingar í miðborg Kigali. Á helstu gatnamótum í miðborginni eru hermenn með vélbyssur.
Bílar á götum borgarinnar eru dýrari og í betra ástandi en í þeim þróunarlöndum sem ég hef komið til. Hér eru Toyota Land Cruiser jeppar áberandi á götunum rétt eins og á Íslandi.
Allt viðmót fólks er mjög þægilegt og margir tala fjögur tungumál; rúandísku, Svahílí, ensku og frönsku, en eldra fólk og þeir sem ekki hafa gengið í skóla tala þó litla eða enga ensku.

Landsbyggðin
Við ferðuðumst út fyrir borgina og almenn snyrtimennska er þar einnig mjög útbreidd, þrátt fyrir mjög misjöfn efni. Landbúnaður stendur enn fyrir um þriðjungi þjóðarframleiðslunnar. Bújarðir eru litlar og algengt að menn rækti smáskika, eigi nokkrar geitur og eina kú. Þó eru til stórbýli með tugi kúa. Enga dráttarvél eða önnur landbúnaðartæki sáum við í ferðinni. Landið er að mestu mjög þéttbýlt og erfitt að sjá hvernig forðast megi verulega mengun frá mannabústöðum á alla ræktun. Rúanda flytur út landbúnðarvörur aðallega kaffi og te. Tekjur af ferðamennsku eru mjög vaxandi enda er landið talið eitt það öruggasta fyrir ferðamenn í Afríku.

Heilbrigðismál
Í Rúanda hefur heilbrigðiskerfið hefur þróast hratt eftir að borgarastyrjöldinni lauk og er nú með þeim bestu í Afríku. Eftirspurn eftir heilbrigðisþjónustu er meiri en framboðið. Það er mikið sjúkdómaálag, ekki síst af malaríu. Malaríutilfelli eru talin um 300 á hverja 1000 íbúa á ári, en þeim fækkar stöðugt. Stjórnvöld stunda rosalegan eiturhernað gegn moskítóflugum og úthluta eitri og skordýrafælum ókeypis til fátæks fólks í dreifbýli. Hótelið sem við bjuggum á eitraði alla lóðina og svalirnar reglulega. Það sama á við um ganga og herbergi. Síðan er rafdrifinn eiturúðari í gangi í öllum herbergjum. Til viðbótar við þetta er ferðamönnum ráðlagt að taka in malaríulyf og úða sig með skordýrafælum.

Þjálfunin
Þjálfunin var heilmikil lífsreynsla. Nemendur voru töluverður hópur og aðeins tveir höfðu bakgrunn í eðlisfræði. Ég hafði reiknað með því að vera mest við mælingar á heilbrigðisstofnunum og úrvinnslu, en stór hluti tímans fór í fyrirlestra um grunnatriði. Við mældum tvö tölvusneiðmyndatæki og eitt brjóstamyndatæki. CT tækin voru nútímabúnaður frá þekktum framleiðanda en mammografíutækið var gamalt tæki með CR lesara. Allar rannsóknir voru prentaðar út á filmur til úrlestar. Öll tækin sem við mældum voru í eigu einkaaðila, en þar borgar fólk hærri upphæðir og hefur að jafnaði meiri trú á þjónustunni en hjá ríksstofnununum. Starfsfók var mjög almennilegt og virtist öflugt fagfólk.

Það er mikið stökk fyrir þróunarland að koma á eftirliti með myndgreingartækjum. Eftir að löggjöfin er klár og búið er að afla búnaðar og þjálfunar er hægt að byrja að skrifa skýrslur, sem er að jafnaði mjög ósennilegt að við verði brugðist fyrst um sinn. Að vinna svona kerfum fylgi getur tekið mjög langan tíma og þannig var það t.d. á Íslandi. Erfitt er að að fá fólk sem ekki hefur sérþekkingu á gæðamálum til að skilja nauðsyn þess að geislafræðingarnir sem gera rannsóknirnar mæli sín tæki oft og reglulega með einföldum mælitækjum.
Það verður spennandi að sjá hvernig gengur í Rúanda en þessi þjóð hefur rúllað upp erfiðum verkefnum s.l. 20 ár og er til alls líkleg.

Desember 2019, Smári Kristinsson.

_________________________________________
Arnartíðindi þakka Smára fyrir texta og myndir.