Vel heppnuð árshátíðarferð til Brighton

 - Fréttir

Fyrir skömmu skipulagði Verkís flotta árshátíðarferð til Brighton í Englandi og góður hópur Rafarna tók þátt í henni. Allir skemmtu sér vel og mættu tvíefldir aftur til starfa, enda hefur sannað sig að skemmtileg samvera með félögunum utan vinnu skilar sér í enn betri starfsanda sem stuðlar að því að viðskiptavinir fái bestu mögulega þjónustu.

Góðar móttökur í Brighton
Boðið var upp á tvo möguleika dagsetningum á ferðinni og Rafernir tóku allir saman flugið út á föstudegi og heim aftur á mánudegi. Ekki spillti fyrir að Spectralis dömurnar Hildur og Anna Berglind voru líka í ferðinni og héldu góðu sambandi við Rafarnahópinn.
Gist var á hótelinu Jurys Inn Brighton Waterfront, þar sem fór vel um mannskapinn enda Bretar þekktir fyrir gestrisni og einstaka kurteisi við fólk sem sækir þá heim. Ferðaþjónusta í Brighton stendur á gömlum merg og var samdóma álit ferðalanganna að borgin hefði uppfyllt allar væntingar og meira til. Sérstaklega var minnst á hvað matur á veitingahúsum væri almennt góður, alveg liðin tíð að Bretar stæðu öðrum þjóðum að baki í matargerð.

Á vegum Verkís voru alls um 350 manns í ferðinni og var Ferðasmiðjan Eskimo Travel fengin til að sjá um hana. Allskyns skipulögð afþreying var í boði og notuðu Rafernir sér marga af möguleikunum, auk þess sem fólk naut lífsins á eigin vegum.
Eitthvað var verslað, eins og gengur, meðal annars í verslanamiðstöð við hótelið og vegna þess hve Verkís hópurinn var stór var víst auðvelt að koma auga á marga, þreytulega, íslenska karlmenn sem sátu hér og hvar með poka og pinkla í kringum sig.

Skemmtileg afþreying í boði
Það kom engum í fyrirtækinu á óvart að Bryndís og Eiríkur sáust fljótlega á nærliggjandi golfvelli ásamt Svanhildi konu Eiríks. Þau voru ánægð með völlinn og árangurinn en það fylgdi sögunni að þarna væri óvenju mikið um brattar og langar brekkur sem golfarar þurfa að ganga með kerrurnar í eftirdragi. Telja þau sig þessvegna hafa komið heim í stórum betra formi en þegar lagt var í hann!

Ferð í útsýnisturninn British Airways i360 var meðal þess sem fólk tók sér fyrir hendur og sagði Magnús að hann og Guðríður, konan hans, hefðu haft sérstaklega gaman af því. Farið er inn í risavaxið glerhylki sem flytur farþegana upp í 138 metra hæð, þar sem útsýnið yfir Brighton og nágenni er stórkostlegt. Tæknin er Raförnum alltaf ofarlega í huga og sagði Magnús að turninn væri mikið tækniundur sem meðal annars virkjar niðurferðina til að knýja næstu ferð og notar fyrir vikið helmingi minni orku.

i360 er örskammt frá hótelinu sem gist var á en ein af lengri ferðunum var farin á Ridgeview vínekruna, þar sem framleitt er margverðlaunað freyðivín með sömu upprunalegu aðferðinni og í Champagne héraðinu í Frakklandi. Meðal þátttakenda í þeirri ferð voru Daníel og konan hans, Hafdís, og eins og sönnum tæknimanni sæmir var Daníel mjög áhugasamur um bæði tæki og tól og ferli framleiðslunnar. Við reiknum þó með að hann láti sér nægja að kaupa freyðivín hjá ÁTVR, hér eftir sem hingað til.

Knattspyrnuáhugamenn fengu eitthvað fyrir sinn snúð, hægt var að kaupa miða á leik Arsenal og Brighton & Hove Albion sem fram fór á Emirates leikvanginum í London á sunnudeginum. Steini og Sigríður, hans kona, skelltu sér á leikinn og sögðu að það hefði verið meiriháttar upplifun. Miðarnir sem í boði voru tryggðu fólki sæti á prýðisgóðum stað, auk þess sem næstum ekkert þurfti að bíða eftir að komast inn á leikvanginn.

Af óskipulögðu pöbbarölti og fleiru
Ýmislegt fleira var í boði, meðal annars kokteilnámskeið og skipulagt pöbbarölt en ferðalangar frá Raferninum voru hrifnari af óskipulögðu pöbbarölti og að láta aðra um að blanda drykkina. Hópurinn naut þess líka að rölta um borgina án þess að beinlínis væri stefnt á pöbb, til dæmis var stutt á Brighton Pier með sínum ys og þys, ljósum og tívolítækjum. Spilakassar heilluðu suma, sérstaklega var tekið til þess hvað Steini og Sigga sýndu mikla snilli í þythokký! Frá bryggjunni er hægt að virða borgina fyrir sér frá sérlega fallegu sjónarhorni sem var vel þess virði að staldra við í næðingnum utan af Ermarsundi.
Skammt frá hótelinu er hverfið The Lanes sem einkennist af mjög þröngum strætum og litlum torgum. Daníel minntist á að um stund hefði honum fundist hann vera kominn inn í ævintýrið um Harry Potter, þegar gengið var um götur rétt nógu breiðar til að tveir gangandi gætu mæst og smáverslanir með allskyns antik og glingur voru á hverju horni. Tæknimenn Rafarnarins hafa stundum verið taldir göldróttir þegar þeir koma biluðum tækjum í gang á örskömmum tíma og nú er hægt að vonast til að allir séu búnir að endurnýja töfrasprotana sína.

Glæsilegur hápunktur og vel heppnuð ferð
Árshátíðin sjálf, á laugardagskvöldinu, tókst einstaklega vel og stóð undir nafni sem hápunktur ferðarinnar. Fagmannleg veislustjórn, vel heppnuð skemmtiatriði, góð tónlist og fjörugur dans. Bryndís minntist á að þrátt fyrir eðlilegar breytingar á starfsmannahópnum í gegnum árin þá hefur haldist sú hefð að Rafernir halda gjarna hópinn á gólfinu og slá ekki slöku við í dansinum!

Það var glaður hópur sem sneri aftur til vinnu á þriðjudeginum og ekki laust við ofurlitla öfund hjá þeim sem ekki komust með í þetta sinn.

Arnartíðindi þakka öllum ferðalöngunum fyrir upplýsingar og ljósmyndir.

Horft frá Brighton Pier. Mynd: Daníel Sigurðsson
Gengið um göturnar. Mynd: Daníel Sigurðsson
Útsýnið er víða fallegt. Mynd: Daníel Sigurðsson
Sem betur fer var EKKI gist á þessu hóteli. Mynd: Magnús Guðjónsson
Á Ridgeview vínekrunni. Mynd: Daníel Sigurðsson
Óvenjulegur byggingarstíll. Mynd: Daníel Sigurðsson
i360 útsýnisturninn. Mynd: Magnús Guðjónsson
Komið að i360 turninum. Mynd: Magnús Guðjónsson
"We love Brighton". Mynd. Magnús Guðjónsson
Hærra og hærra. Mynd: Magnús Guðjónsson
Þarna er Magnús hátt uppi 🙂 Mynd: Guðríður Hlöðversdóttir
Skemmtilegir pöbbar á hverju horni. Mynd: Magnús Guðjónsson
Steina fannst ljósaskiltið þurfa smá stuðning 🙂 Mynd: Sigríður Einarsdóttir
Glæsilegar dömur, Anna Berglind, Hildur og Bryndís. Mynd: Þorsteinn R. Jóhannesson