Útskrift frá geislafræðibraut HÍ 2017

 - Fréttir

Það er ekki seinna vænna að kynna til sögunnar diplóma- og meistaranema ársins 2017, frá námsbraut í geislafræði við Háskóla Íslands. Í ár útskrifuðust fimm nýir geislafræðingar að loknu diplómanámi, og einn bættist í hóp geislafræðinga með meistarapróf.

Diplómanám í geislafræði er fyrri hluti náms til meistaraprófs og veitir starfsréttindi sem geislafræðingur. Eftir það geta geislafræðingar bætt við sig sem svarar einu námsári til viðbótar og tekið MS próf. Í báðum tilvikum er hápunktur námsins vinnsla lokaverkefnis, sem nemarnir leggja mikla vinnu og eljusemi í.

Diplómapróf
Diplómanemar ársins voru þær Anna Halldóra Ágústsdóttir, Arna Björk Jónsdóttir, Elísabet Anna Helgadóttir, Helena Ýr Gunnarsdóttir og Kolbrún Birna Ólafsdóttir.

Að sögn Guðlaugar Björnsdóttur, námsbrautarstjóra, stóðu þær sig allar með mikilli prýði og fengu góðar einkunnir fyrir verkefni sín. „Það er þegar ein þeirra búin að sækja um MS nám og vonandi skila þær sér sem flestar í það“, sagði Guðlaug.

Hér má sjá lista yfir diplómaritgerðirnar og tengla við þær sem eru aðgengilegar á Skemmunni:

Anna Halldóra Ágústsdóttir – Mat á nýjum aðferðum við læknisfræðilega myndgreiningu á hné, Gæðaverkefni Landspítalans.
Leiðbeinendur: Guðlaug Björnsdóttir og Ólafur Ingimarsson.

Arna Björk Jónsdóttir – Geislaálag barna í tölvusneiðmyndarannsóknum.
Leiðbeinandi: Jónína Guðjónsdóttir.

Elísabet Anna Helgadóttir – Mælingar á æðaskellum í hálsslagæð, áreiðanleiki sjálf- og handvirkrar svertustýringar við mælingar á æðaskellum.
Leiðbeinandi: Guðlaug Björnsdóttir.

Helena Ýr Gunnarsdóttir – Áhrif fatnaðar og líns á myndgæði í röntgenmyndum.
Leiðbeinandi: Jónína Guðjónsdóttir.

Kolbrún Birna Ólafsdóttir – Bestun 18F-FDG Jáeindaskanna whole body rannsókna. Könnun á undibúningi og framkvæmd á nokkrum deildum í Danmörku við undirbúning fyrstu rannsókna á Íslandi.
Leiðbeinendur: Jónína Guðjónsdóttir og Louisa Sif Jóhannesardóttir.

Meistarapróf
Það var svo Björk Baldursdóttir sem varði meistararitgerð sína með glæsibrag og útskrifaðist með MS próf í geislafræði. Björk tók diplómapróf árið 2015 og hefur unnið meistaraverkefni sitt samhliða starfi á myndgreiningardeild LSH.

Það ber yfirskriftina “ Áhrif magahjáveituaðgerða á líkamssamsetningu: Tveggja ára framsýn rannsókn“, en þess má geta að við mat á líkamssamsetningu, þ.e. hlutfallslega mælingu á magni fituvefs og fitulauss mjúkvefs, er notuð myndgreining með tvíorkudofnunarmæli. Útdráttur úr ritgerð Bjarkar er aðgengilegur á Skemmunni.

Hamingjuóskir!
Arnartíðindi senda þessum metnaðarfullu og glæsilegu fulltrúum myndgreiningarfólks innilegar hamingjuóskir með árangurinn og óska þeim velfarnaðar í starfi.

Björk Baldursdóttir, útskrifuð með MS próf 2017
Geislafræðingar útskrifaðir með diplómapróf 2017: Helena Ýr, Elísabet Anna, Kolbrún Birna, Arna Björk og Anna Halldóra.