Uppskera vetrarins á námsbraut í geislafræði
Nú er vetrarstarfinu að ljúka á námsbraut í geislafræði við Háskóla Íslands og geta bæði nemendur og starfsfólk haldið út í sumarið, stolt af árangrinum í vetur. Þetta vorið bætast tólf nýir geislafræðingar í hóp þeirra sem hafa starfsréttindi í faginu, rannsóknaverkefnum hefur fjölgað og sérfræðiþekking meðal geislafræðinga eykst.
Fjölbreytt vetrarstarf með skemmtilegum nýungum
Þegar Arnartíðindi höfðu samband við Guðlaugu Björnsdóttur, námsbrautarstjóra, sagði hún að það hefði svo sannarlega ýmislegt drifið á dagana í vetur. „Eitt af því sem er nýtt og mér fannst skemmtilegt að vera með í voru þverfræðilegu námskeiðin,“ sagði Guðlaug. „Þetta voru tvö námskeið, annað er kennt á fyrsta ári og hitt á fjórða, og hugsuð til að ýta undir meiri teymisvinnu og samvinnu almennt,“ bætti hún við.
Þemu námskeiðanna voru mannréttindi og mikilvægi þverfræðilegrar samvinnu en HÍ hefur undanfarin ár aukið áherslu á þverfræðilegt nám og námsleiðir, enda hefur atvinnulífið sífellt meiri þörf fyrir fólk með fjölbreytta menntun.
Metnaðarfullir nemendur á öllum námsstigum
Sérfræðiþekking á vönduðum grunni er mikilvæg með fjölbreytninni og Guðlaug sagðist sérlega ánægð með þá fjölgun sem orðið hefur á rannsóknaverkefnum í geislafræði. „Á síðasta ári útskrifuðust tveir geislafræðingar með meistaragráðu og við reiknum með að það bætist aðrir tveir í hópinn núna í vor. Svo erum við með virka nemendur í meistaranámi og það eru komnar fleiri umsóknir fyrir næsta skólaár.“
Tólf nemendur eru að ljúka diplómanámi og fá þá starfsréttindi sem geislafræðingar. Námið er uppbyggt þannig að eftir BS próf, að loknu þriggja ára námi, geta nemendur valið hvort þeir bæta við sig einu ári og taka diplómapróf eða tveimur árum og fara beint í meistarapróf. „Nú erum við í fyrsta skipti með nemanda sem ákvað að fara þessa leið, semsagt beint í meistaraprófið, og hún er að fara að ljúka því vorið 2019,“ sagði Guðlaug.
Á þriðja ári námsbrautarinnar eru 16 nemendur sem munu ljúka BS prófi, á öðru áru eru 12 nemendur og skráðir nemendur á fyrsta ári eru 10.
„Skiptinemarnir blandast líka inn í þetta, við fáum nemendur frá öðrum löndum og okkar nemendur geta farið erlendis á styrk og tekið part af verknáminu sínu til dæmis í Svíþjóð eða Danmörku,“ sagði Guðlaug. „Það er alltaf svo gefandi að taka þátt í erlendu samstarfi, kennir bæði okkur starfsfólkinu og nemendunum svo margt. Eykur víðsýnina hjá manni.“
Unnið í að auka sýnileika námsins
Til að fá áhugasamt og duglegt fólk inn í geislafræðinámið er nauðsynlegt að kynna það vel, því eins og myndgreiningarfólk veit þá eru störf geislafræðinga og röntgenlækna lítið þekkt hjá almenningi.
Námsbraut í geislafræði tekur þátt í Háskóla unga fólksins og kynnir þar fyrir grunnskólanemum hvað geislafræðingar fást við dags daglega. Svokallað beinabingo hefur gert talsverða lukku í því sambandi!
Háskólahermirinn er tveggja daga námskeið fyrir framhaldsskólanemendur sem námsbrautin tekur líka þátt í og sagði Guðlaug að í ár hefði verið ákveðið að breyta út af vananum og fá nemendur til að halda úti kynningu á náminu. „Það gafst alveg sérstaklega vel, við vorum ekkert smá stolt af nemendunum okkar!“
Félagslíf og fjör
Nemendur námsbrautarinnar ná vel saman í starfi og leik sem meðal annars má sjá í blómlegu starfi nemendafélagsins FLOG, þar sem geislafræðinemar vinna að hagsmunamálum sínum og skemmtunum í góðu félagi við lífeindafræðinema HÍ. Nemendafélagið heldur líflega árshátíð og í vetur var einnig farin hópferð í Þjóðleikhúsið og skipulagður sameiginlegur kvöldverður á Bryggjunni brugghúsi. Hinar hefðbundnu vísindaferðir eru sívinsælar og síðastliðinn vetur litu nemendur meðal annars inn hjá ORF-líftækni, Vífilfelli, NOVA, Íslenskri erfðagreiningu, Landspítalanum og síðast en ekki síst varð Raförninn þeirrar ánægju aðnjótandi að fá þessa hressu og skemmtilegu nemendur í heimsókn.
Geislandi útskriftarnemar!
Segja má að hinn árlegi diplómadagur námsbrautar í geislafræði hafi tvöfaldast því hann spannar tvo daga þetta árið, fimmtudaginn 24. maí nk. og föstudaginn 25. Vekja má athygli á að öllum áhugasömum er velkomið að koma og fylgjast með útskriftarnemum verja verkefni sín og nánari upplýsingar eru í auglýsingu.
Meistaranemarnir verja sín verkefni á öðrum dögum; Jóhanna Sigurðardóttir miðvikudaginn 23. maí, sjá auglýsingu, og síðan Sara Katrín Stefánsdóttir þann 1. júní, sjá auglýsingu. Rétt er að geta þess að Sigurður Sigurðsson er leiðbeinandi Söru Katrínar, það slæddist villa í útgefna auglýsingu frá HÍ. Þessar varnir eru líka opnar, allir velkomnir sem hafa áhuga á að fylgjast með.
Nemarnir sem útskrifast með BS próf eru svo brautskráðir ásamt öðrum kandídötum á glæsilegri hátíð Háskóla Íslands þann 22. júní 2018.
Arnartíðindi þakka Guðlaugu fyrir.