Stefnir í fjölmenna og skemmtilega norræna ráðstefnu

 - Fréttir

Eins og myndgreiningarfólki er kunnugt verður norræna ráðstefnan Nordic Congress of Radiology & Radiography haldin í Reykjavík dagana 29. júní til 1. júlí nk. Þegar hafa nær fjögur hundruð manns frá 34 löndum skráð sig á ráðstefnuna og er tilhlökkunarefni fyrir alla að taka þátt í þessum fjölbreytta og metnaðarfulla viðburði. Enn er tími til stefnu fyrir myndgreiningardeildir að skipuleggja starfsemi þannig að sem flestir komist a.m.k. á hluta ráðstefnunnar.

Boðið upp á ýmsa möguleika til að taka þátt
Skráning er enn í fullum gangi og benda má á að íslenskt myndgreiningarfólk notar ekki skráningarmöguleikann á vefsíðu ráðstefnunnar heldur skráir sig með því að senda tölvupóst á birna@athygliradstefnur.is eða thorunn@athygliradstefnur.is. Einnig er rétt að undirstrika að fyrir þá sem ekki komast á alla ráðstefnuna er hægt að kaupa tveggja daga passa og einnig geta t.d. myndgreiningardeildir keypt nafnlausa passa sem hægt er að láta ganga á milli starfsfólks.
Þann 26. maí sl. voru 384 þátttakendur búnir að skrá sig, stærstu hóparnir koma frá Norðurlöndunum, þar fyrir utan eru Bandaríkjamenn fjölmennastir og sem dæmi um aðra sem koma langt að má nefna að 12 Ástralir eru skráðir og 11 manns frá Suður-Kóreu.

Félagslegi hlutinn er bæði skemmtilegur og mikilvægur
Undirbúningsnefndirnar eru að leggja lokahönd á ýmislegt sem tengist dagskráratriðum, ekki síst á félagslegu hliðinni. Á viðburðum sem þessum gefst frábært tækifæri til að hitta kollega frá ýmsum heimshornum, læra, skemmta sér, viðhalda góðum tengslum og mynda ný.
Þó myndgreiningarheimurinn á Íslandi sé ekki stór þá eru fá tækifæri fyrir fólk frá hinum ýmsu vinnustöðum að hittast, þannig að það er um að gera að láta slíkt ekki framhjá sér fara. Þegar við bætist fjöldinn allur af myndgreiningarfólki frá öðrum löndum er þetta einfaldlega orðið of gott til að sleppa því!

Móttaka, kokteilboð og hátíðarkvöldverður
Fimmtudaginn 29. júní verður móttaka í Iðnó, þar sem gott verður að njóta léttra veitinga og samskipta við fólk. Á föstudeginum hefst kokteilboð klukkan 18 og síðan glæsilegur hátíðarkvöldverður kl. 19. Þess má geta að móttakan og kokteilboðið eru innifalin í ráðstefnugjaldinu en kvöldverðinn þarf að skrá sig í og greiða sérstaklega. Þegar hafa um 200 manns skráð sig í kvöldverðinn og stefnir því í skemmtilega samkomu þar. Veislustjóri verður Áskell Löve, röntgenlæknir, og eftir borðhald og ræðuhöld stígur Hundur í óskilum á svið með bráðfyndið og stórskemmtilegt atriði! Hundur í óskilum samanstendur af Eiríki Stephensen og Hjörleifi Hjartarsyni og hafa þeir slegið í gegn með atriði sín. Boðið verður upp á þriggja rétta matseðil og verður hann, ásamt öðrum nánari upplýsingum, auglýstur þegar nær dregur. Reiknað er með snyrtilegum klæðnaði.

Miðnæturgolfmót
Í tengslum við ráðstefnuna verður einnig haldið glæsilegt golfmót, Acta Radiologica Open Midnight Golf TournamentMótið hefst klukkan 19:30 miðvikudagskvöldið 28. júní og er reiknað með að því ljúki um miðnætti. Eins og golfáhugafólki er kunnugt finnst erlendum gestum mikil upplifun að leika golf um bjarta sumarnótt og geta þannig bæði sinnt áhugamáli sínu og notið hinnar einstöku íslensku náttúru. Samvera við heimamenn með sama áhugamál er svo punkturinn yfir i-ið og eru íslenskir golfarar úr hópi myndgreiningarfólks sérstaklega hvattir til að skrá sig á mótið. 

Fróðleikur um allar gerðir myndgreiningar
Hvað fyrirlestra og annan fróðleik varðar þá má sjá á dagskrá ráðstefnunnar að þar er fjallað um myndgreiningu af öllum gerðum, allt frá toppi til táar, af börnum og fullorðnum. Má meðal annars nefna fyrirlestra um öryggi í segulómun (E. Kanal), tölvusneiðmyndir af börnum (R. Seuri), grundvallaratriði gegnflæðisrannsókna (perfusion) (A. Bjørnerud), myndgreiningu stoðkerfis nærri málmi (M. Frick), menntunarmál (E. Metsälä) og ómskoðanir gerðar af geislafræðingum (K. Gerhardsen Vikestad).  
Enginn ætti heldur að láta fram hjá sér fara opnunarfyrirlesturinn „The Changing Face of Radiography: Looking back and Thinking Forward“ sem Audrey Paterson flytur.

Þrjár málstofur með kynningu á vísindastarfi eru á dagskrá, ein á fimmtudeginum og tvær á föstudeginum. Þar munu fjölmargir bæði úr hópi geislafræðinga og röntgenlækna sýna og segja frá afrakstri rannsókna sinna, og eru Íslendingar þar á meðal. Einnig verða veggspjaldakynningar sem full ástæða er til að fylgjast með.

Samantekt úr dagskráratriðum, svökölluð abstraktabók, verður fylgirit með Acta Radiologica og kemur út rétt fyrir ráðstefnuna. Samantektin kemur eingöngu út á rafrænu formi og eru allir hvattir til að sækja hana á vefsíðu SAGE útgáfunnar

Arnartíðindi þakka Aðalheiði Jónsdóttur, Hildi Einarsdóttur og Jónínu Guðjónsdóttur fyrir upplýsingarnar.