Starfsmannakynning: Emil Friðriksson
Þegar nóg er að gera er um að gera að bæta góðu fólki í góðan hóp og rafeindavirkjaneminn Emil Friðriksson bættist nýlega í hóp Rafarna. Það byrjar enginn hjá Raferninum án þess að fara í létta yfirheyrslu hjá ritstjóra Arnartíðinda og fá sína 15 mínútna frægð á forsíðu raforninn.is 🙂
Góð viðbót í fjölbreyttan hóp
Raferninum berast oft starfsumsóknir og upplýsingar frá fólki sem vonast eftir tækifæri til að kynna sig hjá fyrirtækinu. Í júlí sl. hafði Emil nokkur Friðriksson samband og okkur sýndist hann hafa ýmislegt fram að færa sem gæti gagnast Raferninum við að veita viðskiptavinum sem besta þjónustu. Hlutirnir gengu nokkuð hratt fyrir sig, Emil kom í viðtal, síðan í stutta starfskynningu og í framhaldi af því réði hann sig til Rafarnarins og byrjaði að taka til hendinni. Hann hefur mikla þekkingu og reynslu á sviði tölvukerfa og -búnaðar og þátttaka hans í tækniþjónustu Rafarnarins er því með nokkurri áherslu á upplýsingatækni.
Fjölskyldan, dýrin og áhugamálin
Emil er 36 ára Reykvíkingur, hann á tvö börn, 18 ára stelpu sem býr hjá honum og 11 ára strák sem býr hjá mömmu sinni. Dóttir hans er í Fjölbraut í Ármúla, á náttúrufræðibraut, og vinnur við afgreiðslu á veitingastaðnum Gló. Auk þeirra feðgina eru á heimilinu tveir hundar og einn köttur, en Emil er mikill dýravinur og áhugamaður um þjálfun hunda.
„Ég er mikið fyrir dýr og hef setið slatta af námskeiðum með hundunum og verið formaður fyrir Íslenska NoseWork klúbbinn,“ sagði Emil. „Í fyrra urðum við, ég og annar hundurinn minn, Íslandsmeistarar í NoseWork,“ bætti hann við.
Þess má geta að NoseWork er leitarþjálfun fyrir almenning, íþrótt þar sem hundur og manneskja vinna saman, og skemmtilegar upplýsingar er meðal annars að finna á vefsíðunni nebbi.is
Safnað í reynslubankann
Emil hefur mikla starfsreynslu og hefur safnað sér yfirgripsmikilli þekkingu á hugbúnaðarsviði.
„Árið 2004 fékk ég vinnu hjá CCP, vann fyrst við hugbúnaðarprófanir en svo sem gagnagrunnsstjóri, eða gagnasafnsvörður eins og tölvuorðabókin kallar það, á sýndarveruleikareksturssviði,“ sagði Emil. „Þar var ég bæði að reka gagnagrunna og líka að reka leikjaþjónana sem fyrirtækið lifir á.“
„Þaðan færði ég mig, árið 2011, yfir í startup fyrirtæki sem var stofnað af fyrrum starfsmönnum CCP, til að búa til hugbúnað til að hjálpa pókerspilurum sem spila á netinu,“ bætti Emil við. „Þar var ég með marga hatta, allskyns forritun, reverse engineering, eða greiningu á innri virkni póker hugbúnaðarins, kerfisrekstur o.fl. Ég ákvað svo að fara frá fyrirtækinu eftir að það hafði mikið dregið saman seglin.“
Framtíðin er björt
Emil segist alltaf hafa haft mikinn áhuga á rafmagni, aðallega smáspennu og fiktað mikið við allskyns smáspennudót heima hjá sér. Árið 2017 ákvað hann að láta vaða og dreif sig aftur í nám, fyrst á grunndeild rafiðna í Tækniskólanum. Eftir fyrstu önnina var komið í ljós að námið var honum ákaflega létt og hann skipti yfir á hraðferð strax og hann hafði tök á. Eftir það tók svo rafeindavirkjabrautin við og Emil stefnir á útskrift haustið 2020.
Allir Rafernir bjóða Emil velkominn til starfa og við hlökkum til áframhaldandi samstarfs.
