Starfsmannakynning: Einar Örn Þorkelsson

 - Fréttir, Uncategorized @is

Starfsemi Rafarnarins gengur vel, þökk sé góðu starfsfólki og eðal viðskiptavinum. Í ársbyrjun var ljóst að verkefnastaðan væri góð og alltaf eitthvað nýtt og spennandi að bætast við, þannig að ákveðið var að stækka þjónustuteymi fyrirtækisins og auglýsa eftir tæknimanni.
Viðbrögðin voru mjög góð og eftir mikla úrvinnslu, vangaveltur og viðtöl var Einar Örn Þorkelsson, rafiðnfræðingur, ráðinn í starfið og byrjaði að vinna hjá Raferninum snemma í mars.

Menntun og reynsla sem nýtist vel
Einar er rafiðnfræðingur frá Háskólanum í Reykjavík og hefur löggildingu raflagnahönnuða og rafverktaka frá Mannvirkjastofnun. Starfsreynsla hans er mikil og fjölbreytt og má þar nefna almenna rafvirkjun, uppsetningu á og þjónustu við ýmiskonar tæknibúnað, verkefnastjórnun, verkferlagreiningu, hönnun og vöruþróun.

Einar hefur lengst af starfað hjá Marel, fyrst sem rafvirki á árunum 2000-2002 og svo eftir Iðnfræðinám við hönnun-teiknivinnu rafkerfa og vöruþróun árin 2003-2017. Síðustu árin sín hjá Marel starfaði hann sem fagstjóri rafhönnuða innan alþjóðaumhverfis Marel group. Þar voru helstu verkefnin samræmingar vinnuferla rafhönnuða, val búnaðar, samskipti við birgja og stuðningur við innkaupadeild.
Áður en Einar Örn gekk til liðs við Raförninn var hann vörustjóri og ráðgjafi í Raftæknideild Fálkans, 2017-2018.

Nýr félagi sem styrkir góðan hóp
Af ofangreindu má ráða að Einar kemur inn í Rafarnahópinn með fjölþætta og breiða þekkingu sem nýtist vel. Hann hikaði heldur ekki við að stinga sér beint í djúpu laugina og tók strax virkan þátt í hinum ýmsu verkefnum sem verið hafa í gangi hjá fyrirtækinu síðustu vikurnar. Má þar nefna uppsetningu á nýjasta tölvusneiðmyndatækinu hjá LSH, húsnæðishönnunarverkefni sem er í gangi og bráðaviðgerðir á margskonar búnaði. Meðfram þessu safnar hann sér þekkingu á myndgreiningarstarfsemi og öllum þeim fjölbreytta hátæknibúnaði sem hún byggir á, auk þess sem hann er búinn að sækja námskeið Geislavarna ríkisins fyrir tæknimenn og ábyrgðarmenn vegna röntgentækja sem notuð eru í læknisfræði.   

Fjölskyldan, hestarnir og ferðalögin
Nýjasti Raförninn er þannig strax kominn á gott flug í vinnunni en lífið er ekki bara vinna og þegar ritstjóri Arnartíðinda spurði um lífið utan vinnu sagði Einar að þar væru dætur hans þrjár miðpunkturinn og samskiptin við þær veittu honum mesta lífsfyllingu. Dæturnar eru á aldrinum 12-19 ára, Þuríður Rut útskrifast úr MR nú í vor og Sigurdís Sara og Ingibjörg Eva eru báðar í Ingunnarskóla.

Frítímanum segist Einar helst verja í hreyfingu og útivist, meðal annars stundar hann hestamennsku ásamt elstu dóttur sinni. Hann ferðast talsvert um Ísland, bæði í jeppaferðum og á gönguskónum, einkum finnst honum hálendið heillandi og hefur farið víða um það. Heima í Reykjavík er svo mætt reglulega í Boot Camp og Yoga og þegar tími gefst til mundar Einar verkfæri, málningarpensla og fleira sem þarf til að breyta og bæta í húsinu, en hann býr í friðuðu timburhúsi í miðbænum og hefur gaman af að láta það njóta sín sem best.  

Allir Rafernir bjóða Einar velkominn í hópinn og við hlökkum til áframhaldandi samstarfs.

Arnartíðindi þakka Einari fyrir.