RSNA 2017
Nú er 103. RSNA ráðstefnunni lokið í Chicago. Íslenskt myndgreiningarfólk er komið heim eftir viðburðaríka daga á fyrirlestrum, tæknisýningu, fundum og kynningum. Félagslega hlutanum hefur einnig verið sinnt, enda er það mikilvægur þáttur, og fólk fann sér tíma til að upplifa stórborgina í glæsilegum skrúða komandi hátíða.
Eitthvað fyrir alla
Yfirskrift ráðstefnunnar í ár er „Explore. Invent. Transform.“ og geta þessi orð átt við margt í síbreytilega faginu okkar en ekki síst gæðamál, þar sem mikilvægt er að kanna stöðuna, finna leiðir til úrbóta og gera breytingar!
En hvar sem áhugasvið myndgreiningarfólks liggur, þá er hægt að finna ótalmargt áhugavert á RSNA ráðstefnunni.
Glæsileg setningarathöfn og vandaðir fyrirlestrar
Einfríður Árnadóttir, röntgenlæknir í Orkuhúsinu, er einn af tryggustu „fréttariturum“ Arnartíðinda á RSNA ráðstefnum. Hún segir að Chicago hafi tekið sérlega vel á móti myndgreiningarfólki þetta árið, óvenju hlýtt í veðri og borgin fagurlega skreytt.
„Við Orkuhúsdömur, ég, Hildur og Lára höfum skundað um ráðstefnuhöllina og reynt að læra sem mest.“ sagði Einfríður í pósti til Arnartíðinda. „Það er mikið úrval fyrirlestra, meðal annars sat ég einn slíkan um rannsóknir á paranasal sinusum sem var mjög góður. Einnig var Jon Jacobson, sem er átrúnaðargoð okkar MSK ómaranna, með glæsilega umfjöllun um ómun á öxl og fleiri spennandi liðum og vöðvum.“
Setning RSNA var eins og venjulega hátíðleg athöfni í Arie Crown Theater. Einfríður sagði að í opnunarræðunni hefði forseti RSNA, Richard Ehman, talað sérstaklega um mikilvægi þess að myndgreiningardeildir haldi áfram að þróa starfið til þess að gera myndgreiningu enn öruggari og þægilegri fyrir sjúklingana. Hann undirstrikaði að myndgreining væri ein af fáum greinum læknisfræðinnar sem byggist á vísindauppgötvun og tækni sem breytti heiminum á sínum tíma. Röntgengeislar höfðu strax gríðarleg áhrif á greiningu og meðferð sjúkdóma og þróun fagsins hefur haft í för með sér stöðugar breytingar. Þessar breytingar hafa orðið í samvinnu margra stétta, nýjar uppfinningar hafa skilað sér mjög hratt í daglegri vinnu og enginn heilbrigðisstarfsmaður getur hugsað sér vinnuumhverfi án myndgreiningar. Richard Ehman er þeirrar skoðunar að gera þurfi enn fleiri vísindarannsóknir með fókus á hvernig ný tækni nýtist í starfi. Fjárfesting í rannsóknum hafi skilað sér vel innan myndgreiningar og full ástæða til að ætla að svo verði áfram. Hann minntist á að sumir hafa haldið því fram að toppnum sé náð en sagði um leið að engin merki sæust um það í fjölda vísindagreina og nýrra uppfinninga.
Hann sagði einnig þurfa að halda áfram að huga að virðissköpun í greininni, þar sem m.a. mætti horfa til betra skipulags, notkunar á gervigreind og fleiri atriða sem gætu skilað miklum sparnaði. Því mættu myndgreiningarlæknar og aðrar stéttir ekki staðna í starfi heldur taka breytingum fagnandi, t.d. úrlestrarforritum sem nýta vélrænt nám (machine learning). Við eigum að láta tæknina hjálpa okkur en ekki streitast á móti.
Tæknimenn, tæknisýning, tækninýungar
Rafernirnir Sigurður Haukur Bjarnason og Magnús Guðjónsson hafa í mörg horn að líta en eru, eins og við var að búast, spenntastir fyrir tæknisýningunni og öllu sem henni tengist. Það er löng hefð fyrir því að framleiðendur kynna nýjungar á RSNA og alltaf margt merkilegt að sjá. Einnig er oft hægt að fylgjast með tækni sem er í þróun og eitt af því sem fangaði athygli Magnúsar er sýndarveruleikabúnaður þar sem notandinn setur upp gleraugu og getur valið úr fjölda sýndarskjáa og stýrt þeim með raddstýringu eða handahreyfingum.
„Dæmið sem ég skoðaði var sérstaklega sett upp fyrir þræðingalækna.“ sagði Magnús í pósti til Arnartíðinda. „Með gleraugunum getur læknirinn valið úr mörgum myndum, svo sem æðaómun, ómun, röntgen eða CT. Hægt er að færa myndirnar fram og aftur og færa þær úr sýndarveruleika yfir á raunverulega skjái. Einnig er hægt að kalla fram mynd af stjórnborði tækisins og t.d. hækka og lækka borðið með handarhreyfingu án þess að koma við alvöru takka. Með þessu er líka t.d. hægt að sjá ómmynd beint fyrir ofan ómhausinn sjálfan, sem mér fannst alveg magnað!“
Fylgst með úr fjarlægð
Dagskráin var jafn risavaxin og metnaðarfull og allir sem sótt hafa ráðstefnurnar í gegnum árin kannast við og það var hægt að fylgjast með talsverðum hluta í rauntíma á Virtual Meeting, með því að kaupa aðgang þar. Allt efnið á Virtual Meeting er nú aðgengilegt lengur en verið hefur, eða til 28. febrúar 2018.
Allskonar samantektir og umfjöllun er samt líka í boði ókeypis, sem dæmi má nefna hina gamalgrónu vefsíðu auntminnie.com sem býður upp á „Road to RSNA“ fyrir ráðstefnuna, birtir heilmikið af flottu efni ráðstefnudagana, á “RADCAST@RSNA” og svo samantekt eftirá, í “RadcastRoundup”.
Auk þess má benda á Diagnostic Imaging og svo er ristjóri Arnartíðinda hrifinn af umfjöllun SearchHealthIT þar sem upplýsingatækni er í fókus.
Samfélagsmiðlarnir geta hentað mjög vel til að fá lifandi mynd af daglegu amstri á RSNA og auk þess sem hinir 50.000 ráðstefnugestir varpa út á veraldarvefinn þá er Radiological Society of North America vel sýnilegt á Facebook og á YouTube og á Instagram (#RSNA17) og á Twitter og á LinkedIn
Punktar sem bárust frá Íslendingum á RSNA þetta árið hafa birst á Facebook síðu Rafarnarins og hér í Arnartíðindum.