Vel heppnað opið hús hjá Raferninum
Röntgendagurinn er 8. nóvember og í tilefni dagsins var öllum sem tengjast myndgreiningu á Íslandi boðið á opið hús að Suðurhlíð 35 í Reykjavík, föstudaginn 10. nóvember. Samkvæmið tókst sérlega vel, mætingin var frábær og fólk skemmti sér vel. Við þökkum öllum innilega fyrir komuna.
Alþjóðadagur myndgreiningar
European Society of Radiology (ESR) lagði upp með Evrópudag myndgreiningarfólks í febrúar árið 2011 en sneri strax næsta ár frá villu síns vegar, að mati ritstjóra Arnartíðinda, víkkaði sjóndeildarhringinn með samstarfi við bandaríska kollega, Radiological Society of North America (RSNA) og American College of Radiology (ACR), og úr varð International Day of Radiology (IDOR) sem haldinn er á hinum eina sanna Röntgendegi ár hvert, 8. nóvember.
Árlega hafa bæst fleiri félög og samtök myndgreiningarfólks í hópinn og má nefna að nú taka þátt meðal annarra Asian Oceanian Society of Radiology (AOSR), Colegio Interamericano de Radiología (CIR), Royal Australian and New Zealand College of Radiologists (RANZCR) og Radiological Society of South Africa (RSSA).
Aukinn skilningur á hlutverki myndgreiningarfólks
Markmið dagsins er að vekja almenna athygli á mikilvægi myndgreiningar í öruggri þjónustu við sjúklinga og auka skilning á ómissandi þætti myndgreiningarfólks í heilbrigðisþjónustu. Valin er ákveðin sérgrein í faginu hvert ár og lögð sérstök áhersla á hana. Í ár er kastljósinu beint að myndgreiningu í bráðatilvikum, emergency radiology, og víða er hægt að nálgast vel valið efni sem henni tengist.
Til dæmis má benda á:
IDOR á sína eigin vefsíðu þar sem margt áhugavert er að finna…
… og dagurinn er líka á Facebook.
Á vefsíðu RSNA eru tenglar við fjöldan allan af greinum og öðrum upplýsingum.
Elsevier útgáfufyrirtækið veitir ókeypis aðgang til áramóta að greinasafni um myndgreiningu í bráðatilvikum.
Tækifæri til að gera sér glaðan (Röntgen)dag
Á mörgum myndgreiningardeildum hérlendis er hefð fyrir að gera sér glaðan dag á Röntgendaginn. Kaffistofur fyllast af kræsingum, sjúklingunum er líka boðið upp á eitthvað gott, settar upp myndasýningar, sagan rifjuð upp, samstarfsfólki af öðrum deildum boðið í kaffi eða fundið upp á einhverju öðru til að gera daginn sérstakan.
Stærri viðburðir hafa líka verið haldnir í gegnum árin, bæði vel heppnaðar skemmtanir og metnaðarfull málþing og fyrirlestrar. Það er hægt að fara alveg aftur til ársins 2002 þegar Hjartavernd opnaði myndgreiningardeild sína með pompi og pragt og margir muna enn eftir Röntgenhátíðinni árið 2005 sem haldin var í frábærri samvinnu myndgreiningarfólks frá öllum stærri deildum landsins. Af nýrri viðburðum má nefna málþing um myndgreiningu lungna og segulómun, árið 2013, sem skipulagt var af LSH og FÍR og einnig vegleg hátíðahöld fyrir þremur árum þegar haldið var upp á 100 ára afmæli röntgenmyndarinnar á Íslandi. Við hjá Raferninum höfum oft verið þeirrar ánægju aðnjótandi að taka þátt í skipulagningu og undirbúningi með öðrum úr myndgreiningargeiranum og erum ákaflega þakklát fyrir það frábæra samstarf.
Opið hús hjá Raferninum 10. nóvember
Íslenskt myndgreiningarfólk hefur haft góð tækifæri til símenntunar og skemmtunar þetta árið. Hápunkturinn var að sjálfsögðu glæsilega norræna þingið, Nordic Congress of Radiology, sem haldið var í Reykjavík um mitt ár og fyrir skömmu fjölmennti fólk úr faginu á fyrirlestur vísindaritara Alþjóða geislavarnaráðsins.
Raförninn ákvað að leggja sitt af mörkum og í samvinnu við félaga okkar hjá Spectralis buðum við öllum sem tengjast myndgreiningu á Íslandi að koma á opið hús að Suðurhlíð 35 í Reykjavík, föstudaginn 10. nóvember.
Undirtektirnar voru frábærar, fjöldi fólks mætti á staðinn og samkvæmið tókst ákaflega vel. Allir gerðu sér gott af léttum veitingum sem í boði voru og var sérstaklega til þess tekið að tæknimennirnir væru ekki síður liðtækir við grillið en önnur „tæki“ 🙂
Aðal markmiðið var að myndgreiningarfólk fengi gott tækifæri til að hittast og spjalla en einnig sagði Sigurður Haukur, framkvæmdastjóri, frá því helsta í starfsemi Rafarnarins eins og hún er núna og Anna Berglind, frá Spectralis, sagði frá því nýjasta í þróun og notkun forritsins TotalQA.
Auk þess var sett upp spurningakeppni, með mjög mis alvarlegum spurningum, þar sem fólk notaði snjallsímana sína í baráttu um sigur og skemmtilega vinninga. Fyrsta sæti náði Gunnlaugur M. Gunnarsson, tæknimaður á LSH, og fast á hæla honum fylgdi Einfríður Árnadóttir, röntgenlæknir í Orkuhúsinu.
Fólk naut samverunnar, það var spjallað og hlegið langt fram eftir kvöldi og allir kvöddu glaðir eftir ánægjulega samverustund.
Starfsfólk Rafarnarins og Spectralis þakkar öllum innilega fyrir komuna!