Raförninn hefur fengið ISO 9001 vottun
Við erum mjög stolt af að stjórnkerfi Rafarnarins er nú vottað samkvæmt alþjóðlega gæðastaðlinum ISO 9001. Þessi árangur er uppskera mikillar og samstilltrar vinnu alls starfsfólksins og staðfestir að allir þættir í heildarstarfsemi Rafarnaris uppfylla kröfur staðalsins.
Gæðamál hafa verið rauður þráður í starfsemi Rafarnarins frá upphafi og markmiðið alltaf verið að veita viðskiptavinum bestu mögulega þjónustu á hverjum tíma. Fyrir nokkru var tekin ákvörðun um að laga stjórnkerfi fyrirtækisins að kröfum ISO 9001 gæðastaðalsins og árið 2018 var svo ákveðið að stíga skrefið til fulls og sækja um vottun á kerfið hjá Vottun hf. sem er faggild vottunarstofa og hefur sérhæft sig í úttektum og vottunum stjórnunarkerfa fyrirtækja og stofnana m.t.t. alþjóðlegra stjórnunarstaðla.
Það var svo í lok apríl 2019 sem starfsfólk Rafarnarins tók formlega við vottunarskírteininu úr hendi fulltrúa Vottunar hf., með stolti og gleði.
Árangur markvissrar vinnu
Sum fyrirtæki hafa valið að láta aðeins gera úttekt á hluta af starfsemi sinni og fá vottun á hann en hjá Raferninum er alltaf horft á heildarmyndina og þess vegna kom aldrei annað til greina en að úttekt og vottun tæki til allra þátta starfseminnar.
Yfirsýn um stjórnkerfið fæst með gæðahandbók, þar sem verklagsreglur og vinnulýsingar eru fyrir alla þætti í starfsemi fyrirtækisins og unnið er að stöðugum umbótum og áhættumati á verkefnum og rekstri. Grunnur að núverandi handbók var lagður árið 2010 en stjórnunarfræði hafa alltaf verið notuð markvisst hjá Raferninum, sem meðal annars má sjá í skipulagi og virkni þjónustukerfisins Maintain Pro.
Samvinna, innan fyrirtækis og utan
Gæðastjóri fyrirtækisins viðurkennir að á hana runnu tvær grímur þegar fyrsti spurningalistinn vegna fyrirhugaðrar vottunar barst, þar þurfti að gera grein fyrir einum 85 atriðum… áður en byrjað yrði að fara yfir gæðahandbók fyrirtækisins, hvað þá heldur huga að úttekt!
Allt tókst þetta þó vel, með þeirri frábæru samvinnu sem einkennir Raferni, og lokahnykkurinn var að tveir fulltrúar Vottunar hf. tóku út starfsemi fyrirtækisins með því að fara yfir allt sem að stjórnun og daglegri starfsemi snýr, auk þess sem þeir fylgdu tæknimönnum eftir við vinnu þeirra hjá viðskiptavinum.
Við erum mjög þakklát þeim viðskiptavinum sem lentu í þessu úrtaki, allir voru einstaklega jákvæðir og gáfu umsvifalaust leyfi fyrir því að vottunarmenn kæmu með tæknimönnunum, að sjálfsögðu að uppfylltum reglum um persónuvernd.
Þjónusta í fremstu röð
Markmið okkar með því að fylgja kröfum ISO 9001 staðalsins er að halda áfram að veita bestu mögulega þjónustu og geta sýnt fram á að Raförninn sé í fremstu röð á sínu sviði. Vottun hf. mun gera eftirlitsúttektir á starfseminni á 6 mánaða fresti sem tryggir að kröfur séu áfram uppfylltar og stöðug þróun þjónustunnar í gangi.