Ýmislegt frá RSNA 2018
Nú er 104. RSNA ráðstefnunni lokið. Íslenskt myndgreiningarfólk hefur notið þess að auka og uppfæra þekkingu sína með því að sækja fyrirlestra, tæknisýningu, fundi og kynningar. Fólk hefur líka gefið sér tíma til að sinna félagslega hlutanum, sem er mikilvægur þáttur, og til að upplifa stórborgina Chicago í glæsilegum skrúða komandi hátíða.
Facebook og Arnartíðindi
Eins og verið hefur síðustu ár birtust öðru hverju póstar á Facebook síðu Rafarnarins, með ýmsu skemmtilegu frá fólki á RSNA. Arnartíðindi voru að vanda rólegri í tíðinni og hér birtust aðeins efnismeiri pistlar sem líka er gaman að lesa eftir að ráðstefnunni er lokið.
Lista yfir Íslendinga sem Arnartíðindi vissu af á RSNA 2018 má finna hér.
Framtíðin er núna!
Yfirskrift ráðstefnunnar í ár var „Tomorrow´s Radiology Today“ og fókusinn bæði á framtíð fagsins okkar og því sem nýjast er í dag. Reyndar má segja að það sé einmitt það sem kastljósinu hefur verið beint að á öllum RSNA ráðstefnum og eins og venjulega var hægt að finna ótalmargt áhugavert á ráðstefnunni, hvar sem áhugasvið myndgreiningarfólks liggur.
Framtíð röntgenlæknisins í fókus á setningarathöfn
Magnús A. Lúðvíksson, röntgenlæknir, hefur oft sent Arnartíðindum efni frá hinum ýmsu viðburðum erlendis og varð fúslega við beiðni ritstjórans um nokkur orð frá setningarathöfn RSNA 2018.
„Ráðstefna Radiological Society of North America, RSNA 2018, var sett sunnudaginn 25. nóvember af forseta samtakanna, Vijay M. Rao.
Eins og hefðbundið er minntist hún látinna félaga og veitti viðurkenningar félagsins fyrir framúrskarandi árangur.
Í ávarpi sínu var henni hugleikin sú mikla breyting sem er fyrirsjáanleg á hlutverki og starfsumhverfi röntgenlækna í ljósi tilkomu tækniframfara eins og gervigreindar (artificial intelligence) og tækjaspeki (machine learning). Að hennar mati kemur þessi tækni aldrei til með að koma í stað röntgenlækna en opnar þess í stað möguleika á að umbreyta og efla þá starfsemi sem tengist röntgengreiningum og mun á þann hátt koma að gagni fyrir bæði sjúklinga og klíníska læknisfræði.
Hún viðurkenndi þó að meðal röntgenfólks væru blendnar tilfinningar um þessa framvindu, s.s. von, oftrú og ótti.
Að hennar mati felast í þessari þróun tækifæri til að breyta úrlestrarherbergjum í gagnaver, þar sem allar klínískar upplýsingar og niðurstöður rannsókna ákveðins sjúklings væru fyrirliggjandi og að hlutverk gervigreindar væri að sameina þessar upplýsingar til greiningar sjúkdóma sem annars væri misst af ef eingungis væri túlkuð sérhver rannsókn ein og sér. Greining hvers sjúkdóms væri því mun hnitmiðaðri fyrir hvern sjúkling um sig. Samráð við aðrar sérgreinar yrði útfrá slíkum upplýsingum og auðvitað á rafrænan hátt með fjarfundum o.s.frv.. Hún sá fyrir sér að röntgenlæknar framtíðar kæmu meira inn í klíníska uppvinnslu sjúklinga og tækju í raun yfir stjórn á myndgreiningu þeirra og hefðu þannig mun veigameira hlutverk en nú er. Það yrði síðan nokkurs konar afleiðing þess að röntgenlæknirinn væri þungamiðja í teymisvinnu þar sem teknar væru ákvarðanir um málefni einstakra sjúklinga. Hún lagði áherslu á að röntgenlæknirinn gæti á þennan hátt haldið áfram að vera sá sem kemur að miklu gagni bæði fyrir sjúklinga og aðra lækna og þyrfti því ekki að óttast um stöðu sína í framtíðinni.
Í framhaldinu talaði Michael P. Recht í Annual Oration in Diagnostic Radiology fyrirlestri um skapandi notkun tækni og taldi einmitt það vera lykilinn að framtíð myndgreiningar. Hans draumsýn var svipuð þ.e. að röntgenlæknar gætu orðið þungamiðja í þjónustu við sjúklinga, ef þeir væru óhræddir við að aðlagast og taka fagnandi móti þessum tæknibreytingum sem framundan væru. Það sem helst stendur í vegi gervigreindar er að það er til takmarkað magn góðra og gagnreyndra gagna og upplýsinga. „Data is power“ sagði hann.“
Kveðja frá Chicago, Magnús A. Lúðvíksson.
RSNA meets Nordic Countries
Innlegg frá ýmsum samtökum myndgreiningarfólks í löndum utan Bandaríkjanna eru fastir liðir á RSNA ráðstefnum og í ár var meðal annars boðið upp á viðburðinn „The Nordic Countries Present: Radiology the Scandinavian Way, Future Potentials“. Þar fjölluðu fulltrúar frá Norræna félagi myndgreiningarfólks, NFMR, um myndgreiningu á Norðurlöndunum og framtíð hennar.
Íslendingar mega vera stoltir af sínum fulltrúa sem var Maríanna Garðarsdóttir, formaður Félags íslenskra röntgenlækna. Hún gerði Arnartíðindum þann greiða að senda stutta umfjöllun um það sem fram fór.
„RSNA bauð Norræna félaginu, NFMR fyrir ári síðan til „RSNA meets Nordic countries“. Þema þingsins í ár er Tomorrow´s radiology today og því vorum við beðin að skyggnast aðeins inn í framtíðina.
Eftir að Birthe hafði opnað málþingið kom að mér að vera með inngang um Norðurlöndin, heilbrigðiskerfið og læknanám sem og sérnám í myndgreiningu. Þá fjallaði Ilse Veiborg um hópleit brjóstakrabbameins í Danmörku og hvernig þau hafa lagað skimun að þeirri þekkingu sem þau hafa aflað sér nú þegar og koma til með að nýta hana til framtíðar. Michael Bachman Nielsen kynnti hermikennslu í ómskoðun sem tekin hefur verið upp í Danmörku og Seppo Koskinen talaði um kennslu í bráðamyndgreiningu, en kennslu í þeirri undirsérgrein gæti orðið ábótavant þegar fram líða stundir þar sem bráðarannsóknir í Finnlandi og á fleiri Norðurlöndum eru að stórum hluta lesnar í fjargreiningu.
Að lokum fékk Birthe aftur orðið og kynnti komandi norrænt þing sem haldið verður í Kaupmannahöfn í vor og hugsa margir Íslendingar „heim til Hafnar“ á vormánuðum.
Kveðja frá Chicago! Maríanna Garðarsdóttir.“
Upplýsingar um „RSNA meets Nordic Countries“ má meðal annars finna í hinu klassíska dagblaði ráðstefnunnar „The Daily Bulletin“ og skemmtileg umfjöllun, með íslenska fulltrúann í forgrunni, er hjá AuntMinnie Europe.
Til að lesa umfjöllunina hjá AuntMinnie þarf að hafa aðgang að síðunni en fyrir þá sem ekki hafa hann nú þegar má benda á að aðgangur er ókeypis og einfalt fyrir hvern sem er að búa hann til.
Gerfigreindin allsstaðar
Hann Steini okkar, tæknimaðurinn Þorsteinn Ragnar Jóhannesson, er óþreytandi að senda Arnartíðindum efni hvar sem hann er staddur í veröldinni. Þetta er það sem honum var efst í huga í lokin á RSNA 2018:
„Á fimmtudegi á RSNA var verulega farið að fækka á McCormick Place og þeim sem ég ræddi við fannst reyndar að það hefðu verið færri á RSNA núna en undanfarin ár. Bæði gestir og sýnendur höfðu orð á þessu þannig að það verður gaman að sjá tölur um fjöldann.
Sama „buzz“ orðið var allstaðar, Artificial Intelligence eða Machine Learning. Það er ljóst að framleiðendur eru að vinna í að koma þessu inn í sín kerfi og tæki, þarna voru CT með AI búnaði og jafnvel röntgentæki. RIS og PACS nota gerfigreindina til að forgangsraða rannsóknum og vara við alvarlegum hlutum eins og heilablæðingu, eða hlutum sem líklegt er að hægt sé að missa af, eins og beinþynningu.
Einnig var töluvert um að skýrslur fyrir stjórnendur væru með ýmiskonar gerfigreindar-möguleikum til að spá fyrir um framtíðina.
Menn voru mis spenntir fyrir þessu, einn viðmælandi var yfir sig spenntur og reiknar með að notkun á allskonar smá AI plugin-um, eða viðbótum, verði töluverð og/eða að menn noti ókeypis tól fyrir sig sjálfan til að hjálpa sér, því ferlið við að fá FDA og CE samþykki á svona búnað er víst ansi strembið.
MR framleiðendur og aukabúnaðar framleiðendur voru mikið að sýna búnað til að sýna sjúklingum bíómyndir á meðan verið er að skanna þá, það á víst að geta dregið verulega úr innilokunarkennd og þannig fækkað tilvikum þar sem þarf að gefa kæruleysislyf og dregið úr þörf á svæfingu ungra barna.
Líka eru komin mjög sveigjanleg MRI „coil“, sem eru eins og þunnur koddi. Þar eru allt önnur efni en verið hefur notuð í sjálfa spóluna sem er inni í „coilinu“ og þessi tegund á að duga mikið betur heldur en hefðbundin „flex coil“.
Kveðjur frá Chicago. Þorsteinn R. Jóhannesson.
Raförninn þakkar kærlega öllum þeim sem sendu efni frá RSNA 2018, bæði það sem birtist hér í Arnartíðindum og á Facebook.
Ef þið smellið á glærusýninguna hér fyrir neðan, þá er hægt að skoða myndatexta þar sem meðal annars kemur fram nafn þess sem tók myndina.