Takk fyrir komuna á opið hús!

 - Fréttir, Uncategorized @is

Við þökkum öllum innilega fyrir komuna á opna húsið hjá Raferninum sl. föstudag. Allir þessir frábæru gestir gerðu þetta að einstaklega vel heppnuðu kvöldi!

Skemmtilegur og fjölbreyttur hópur fólks mætti í Suðurhlíðina og gladdist með starfsfólki fyrirtækisins. Raförninn á 35 ára afmæli á árinu og þess vegna var saga fyrirtækisins í forgrunni framan af kvöldi. Smári Kristinsson, einn af stofnendum Rafarnarins, leiddi létta sögustund og hafði með sér nokkra starfsmenn með langan starfsaldur, ásamt núverandi framkvæmdastjóra.

Eins og undanfarin ár fór fram lauflétt spurningakeppni með nokkurri áherslu á tækni og vísindi en í ár var líka áhersla á árið 1984, árið sem Raförninn var stofnaður. Bæði einstaklingar og hópar stóðu sig frábærlega og þó sum af verðlaununum reyndust ekki henta fullkomlega fyrir hópana var því tekið með  þeim léttleika og gleði sem einkenndi kvöldið í heild.

Fólk gerði sér gott af veitingum og eftir spurningakeppnina dreifðust gestir um húsnæði fyrirtækisins og allir virtust skemmta sér vel. Það var mikið spjallað og fólk var duglegt að nota sér hinar ýmsu „græjur“ sem boðið var upp á til skemmtunar. Þar má til dæmis nefna pílukastið og sjálfustöðina en þegar upp var staðið var karókíherbergið vinsælasti staðurinn.

Við Rafernir erum innilega þakklát fyrir þetta skemmtilega kvöld. Takk fyrir komuna, öll, þið eruð frábær!