Nýtt andlit í starfsmannahópnum

 - Fréttir, Uncategorized @is

Raförninn er alltaf með augun opin fyrir hæfileikaríku fólki til að auðga starfsmannahópinn. Fjölbreytt þekking, ólíkir hæfileikar, og mikil reynsla í bland við fersk viðhorf skapar sterkt teymi sem leysir krefjandi og margvísleg verkefni vel af hendi.
Nýi maðurinn sem sést hjá fyrirtækinu núna er Aðalsteinn Atli Guðmundsson, rafeindavirki sem er að vinna tilskyldan tíma eftir útskrift, áður en hann fær afhent sveinsbréf sitt.

Öflugur og fjölhæfur starfskraftur
Aðalsteinn er fæddur árið 1983, lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti 2005 og sveinsprófi í rafeindavirkjun frá Tækniskólanum í Reykjavík haustið 2017. Í milltíðinni tók hann hluta af námi í tölvunarfræði við í Háskólann í Reykjavík.

Á árunum 1999 til 2011 vann Aðalsteinn hjá Heimilisprýði ehf. þar sem hann sinnti afgreiðslu og lagerstörfum, auk þess að sjá meðal annars um vefhönnun og viðgerðir og vera ljósmyndari og almennur tölvugúrú fyrirtækisins. Frá 2011 til 2017 naut Sorpa – Góði hirðirinn starfskrafta Aðalsteins, þar sem hann hélt áfram að bæta verkefnum tengdum tölvum og ljósmyndun við almenn afgreiðslu- og lagerstörf en var einnig öryggistrúnaðarmaður og dyggur nefndarmaður í skemmtinefnd.

Aðalsteinn er fjölskyldumaður, hann og konan hans eru búin að verja saman tólf árum og eiga tvo stráka, Mattías sem er 14 ára og Hrafnkel sem er 9 ára. Fjölskyldan býr í Reykjavík og sjálfur er Alli fæddur og uppalinn á höfuðborgarsvæðinu en segir að í sér búi allra landshorna kvikindi, pabbi hans hafi verið að vestan, afi að norðan og amma að austan!

Ljósmyndun og fleiri áhugamál
Eins og sjá má á upptalningunni á störfum Aðalsteins hefur hann mikinn áhuga á öllu tölvutengdu, ásamt ljósmyndun. „Ég lærði að skjóta og framkalla filmu í eitt ár í FB, síðan þá hef ég varla lagt myndavélina frá mér og hef unnið nokkrar keppnir“ sagði Alli þegar ritstjóri Arnartíðinda var að herja á hann um upplýsingar um sjálfan sig. „Ég held t.d. titlinum Hraðasti ljósmyndari Íslands ennþá, en það er keppt árlega um hann á vegum Nýherja… sem reyndar skipti um nafn nýlega og heitir núna Origo.“
Upplýsingar um keppnina og verðlaunamyndaröðina hans Aðalsteins má sjá á vefsíðu Origo.

Aðalsteinn segist heillast af mestöllu sem er skapandi, hann á það til að teikna og mála, semja tónlist í tölvunni og jafnvel skrifa „einhvern leirburð“ í vel falið .doc skjal þegar andinn kemur yfir hann.
Kvikmyndir vekja líka áhuga Alla og þar segist hann hafa dálítið sérstakan smekk. „Þöglar myndir eru uppáhalds og svo þessar sem í daglegu tali eru kallaðar vondumyndir. Semsagt myndir þar sem aðal skemmtanagildið er hvað það er hræðilega að þeim staðið, til dæmis grátbroslega afleiddar tæknibrellur, vandræðalega slæmir leikarar og sérkennilega skrifuð handrit.“

Samt sem áður segir Aðalsteinn að stærsti hluti frítímans fari í eitthvað sem tengist tölvum og rafeindatækjum og að heimavið geti hann ekki séð nokkurt tæki í friði fyrr en hann sé búinn að opna það og glöggva sig á hvernig það virkar. Tölvuleikir eru líka á vinsældalistanum og þá helst klassískir leikir sem segja sögu og leikmaðurinn spilar einn í rólegheitunum.

„Ég hef líka voðalega gaman af veggjaklifri og að fara á snjóbretti á veturna,“ bætti Alli við. „Á sumrin renni ég mér á WaveBoard, það er tveggja hjóla hjólabretti sem maður gæti kanski kallað Vaggbretti. Ég er með eitt slíkt hérna niðri í Raferni og Daníel er efnilegur á því líka!“

Velkominn!
Allir Rafernir bjóða Aðalstein velkominn og við hlökkum til áframhaldandi samstarfs.