Nýr röntgenbúnaður á Akranesi

 - Fréttir, Uncategorized @is

Árið 2020 var vissulega ólíkt öðrum árum hjá Raferninum en eins og alltaf er það góð samvinna við okkar góðu viðskiptavini sem stendur upp úr. Mörg verkefni, stór og smá, voru í gangi og meðal annars tóku Rafernir þátt í endurnýjun á röntgenbúnaði hjá HVE á Akranesi. 

Eldri röntgenbúnaður á myndgreiningardeild sjúkrahússins á Akranesi var búinn að þjóna sínu hlutverki samviskusamlega frá árinu 2006 og eðlilega kominn tími á endurnýjun. Gamla tækið var frá Canon / Suinsa með tegundarheitið i-Rad, klassísk samsetning af búnaði með rannsóknaborði og lungnastandi. 

Vandað undirbúningsferli
Röntgenstofan sjálf þurfti lítilla breytinga við en samt sem áður undirbúnings fyrir ný tæki. Sú vinna var í höndum HVE sem fékk til þess vaskan hóp, bæði starfsmenn Heilbrigðisstofnunarinnar og aðra aðila.
Gróa Þorsteinsdóttir, deildarstjóri á myndgreiningardeild HVE á Akranesi, segir að deildin hafi verið tekin í gegn árið 2006 þegar farið var frá filmum yfir á myndplötur og tækin sem nú voru að kveðja komu ný. „Þá voru gerðar miklar breytingar á húsnæðinu og allt hugsað upp á nýtt varðandi flæði og skipulag. Þó það sé langt um liðið þá voru þær breytingar afskaplega vel heppnaðar og enn í fullu gildi. Röntgensalurinn sjálfur er rúmgóður og uppstilling tækjanna var það góð áður að nýju tækin núna voru sett upp á sama hátt“, sagði Gróa.

Raförninn veitti aðstoð við útboðsgerð og stýrði uppsetningu búnaðarins þegar HVE fólk var búið að velja tæki. Fyrir valinu varð röntgentæki frá GE, sem ber nafnið Discovery XR 656 HD, vandaður nútíma búnaður sem heldur í heiðri hina klassísku „borð og standur“ útfærslu.

Uppsetning tafðist vegna Covid-19
Það voru þeir Aðalsteinn A. Guðmundsson og Magnús Guðjónsson sem báru hitann og þungann af uppsetningunni, af hálfu Rafarnarins, og eins og nærri má geta þurftu þeir í ferlinu að eiga við nokkur ljón sem Covid-19 faraldurinn setti í veg fyrir þá.
Fyrst má nefna að tækið kom beint frá Wuhan héraði í Kína, þar sem veiran greindist fyrst. Öll framleiðsla á þessu svæði fór í baklás sem gerði það að verkum að afhendingu á búnaðinum seinkaði. Vegna ferðatakmarkana var ekki hægt að fá sérfræðinga frá framleiðanda með tækinu til Íslands, þannig að Rafernir urðu að sjá um alla tæknihliðina sjálfir með aðstoð frá tæknimanni GE á Facetime. Til gamans má geta þess að það runnu tvær grímur á tæknimennina þegar kom að því að tengja aðalbrettið í tækinu, sem reyndist bera nafnið Corona!

Innan Rafarnarins var farið eftir ákveðnum sóttvarnarreglum um samgang starfsfólks og á meðan á uppsetningunni á Akranesi stóð voru þeir Alli og Maggi að mestu hafðir í sinni eigin „kúlu“ og samstarfsfólk gaf þeim viðurnefnið Covid-tvíburarnir. Þeir tóku þessu öllu með stakri ró, það eina sem þeim fannst smá vesen var að auk fjöldatakmarkana voru matsölustaðir á svæðinu með mjög takmarkaðan opnunartíma og menn þurftu að vera snarir í snúningum til að fá hádegismat. 

Frábært samstarf og góð útkoma.
Samstarfið, bæði þeirra tveggja og við alla aðra sem að framkvæmdinni komu, gekk ákaflega vel og búnaðurinn var orðinn starfhæfur um mánaðamót apríl/maí 2020. Dálitlir hnökrar urðu á að fá hluta af því sem þurfti til að hægt væri að nota alla möguleika tækisins en allt gekk þetta á endanum og geislafræðingarnir á Akranesi gátu farið að gera allar rannsóknir sem reiknað hafði verið með. Nú er komin góð reynsla á búnaðinn og að sögn Gróu er starfsfólkið mjög ánægt.
„Það er þvílík bylting að losna við lesarann og svo er stitching kosturinn í þessu tæki mjög spennandi, semsagt að geta fellt nokkrar myndir saman í eina. Við erum ríkar af móttökurum, sem er algjörlega frábært, og sá sem er í lungnastandinum er heilir 43 X 43 cm svo það þarf ekki að velta nemanum þegar við tökum hliðarmynd af lungum. Svo erum við með 35 X 43 cm nema í borðinu og 18 X 24 cm nema fyrir smáskelett.“

Í heildina gekk endurnýjunin vel
Aðspurð um helstu áhrif Covid-faraldursins á endurnýjunina sagði Gróa að auk seinkunar á að tækið kæmi hefði komið upp hik innan HVE varðandi uppsetningu, þ.e. hvort að rétt væri að fresta uppsetningu þar til faraldurinn væri genginn yfir.  „Mér leist alls ekki á þá hugmynd, vegna þess að við höfðum verið með lífið í lúkunum svo lengi yfir gamla tækinu sem var alveg komið að fótum fram. Sem betur fer var farið af stað í verkið um leið og tækið var komið til landsins“, sagði Gróa. „Í raun held ég að þegar upp er staðið hafi tímasetning Covid verið lán í óláni, vegna þess að fólki var ráðlagt að fresta læknisheimsóknum nema brýna nauðsyn bæri til. Þess vegna datt aðsókn í myndatökur töluvert niður, læknarnir á heilsugæslunni afgreiddu mikið í gegnum síma og því fækkaði rannsókarbeiðnum sjálfkrafa þaðan“, bætti hún við.  

Á meðan niðurrif og uppsetning stóðu yfir var HVE með færanlegt tæki frá LSH að láni. Ákveðið var að hafa opið fyrir brotaleit frá olnboga og fram á fingur og brotaleit á hnjám og niður úr. CT tækið var á sínum stað svo að af eldra fólki sem þurfti lungnamynd voru gerðar lágskammta CT rannsóknir en yngra fólkið fór í til Reykjavíkur í röntgenmyndatöku af lungum.
„Við vildum alls ekki gera rannsóknir með móbílnum sem mögulega yrðu ekki í fullum gæðum og töldum rétt að senda frá okkur aðrar rannsóknir en þessar sem ég nefndi“, sagði Gróa. „Okkar mottó er að ef þörf er á rannsókn þá er þörf á að gera hana almennilega.“  

Gróa sagði að í heildina hefði endurnýjunin gengið ótrúlega vel, jafnvel ekkert hægar en ef Covid hefði ekki verið til að dreifa. „Ég held að það sé nú alltaf eitthvað sem kemur upp á við uppsetningar á tækjum yfirleitt. Sérfræðingarnir úti aðstoðuðu í gegnum netið og okkar menn hér innanhúss stóðu líka sína plikt í topp eins og Rafernir.“

Þakkir!
Rafernir líta með ánægju til baka á þetta fjölbreytta verkefni og þakka öðrum sem að því komu innilega fyrir gott samstarf.