Nýjasta tækni í tölvusneiðmyndatöku á LSH

 - Fréttir

Á röntgendeild LSH á Hringbraut er nýkomið í notkun Canon tölvusneiðmyndatæki búið tækni sem skapar tímamót í rannsóknum.
Aquilion One Genesis
notar gervigreind, Machine Learning, við myndbyggingu og nær þannig meðal annars skýrari myndum og styttri rannsóknatíma.

Stöðug þróun í búnaði og þjónustu
Fyrir ári síðan sögðum við frá Canon Aquilion ONE tæki sem var nýkomið á röntgendeildina í Fossvogi og var þá öflugasta tölvusneiðmyndatæki LSH. Nú hefur nýtt flaggskip tekið forystu í tækjaflota röntgendeildanna og tæknimenn Rafarnarins eru stoltir af sínum hluta í þeirri umfangsmiklu teymisvinnu sem þarf við að setja upp hátæknibúnað af þessari stærðargráðu. Uppsetningin gekk vel og samvinnan var góð að vanda, með fínni blöndu af þaulvönu fólki og spenntum nýliðum.
Raförninn sér svo um tækniþjónustu við Genesis tækið héðan í frá, móttökuprófun er langt komin og verið er að leggja lokahönd á skipulag á gæðaeftirliti og reglubundnu viðhaldi.

Tækni dagsins í dag
Arnartíðindi forvitnuðust um hvað tæknimönnum þætti áhugaverðast og sagði Magnús Guðjónsson að tækið væri að nokkru leyti sambærilegt við ONE tækið sem tekið var í notkun í Fossvogi fyrir ári síðan en á mörgum sviðum væri tæknin orðin önnur. Sameiginlegir eiginleikar eru t.d. sjúklingaborð sem ber yfir 300 kg. og er með hliðarfærslu og að tækið getur tekið 320 0.5mm sneiðar í einum hring, sem hægt er að uppreikna í 640. Mesti snúningshraði er 0.275 sek. og röntgenrörið getur skilað 100kW afli.

Fyrir myndútreikninga er boðið upp á alveg nýjan möguleika sem Canon nefnir AiCE, Advanced intelligent Clear-IQ Engine, og byggir á djúpvélanámi, „Deep Learning“ algrím. Þessi tækni er bæði öflugri og mun hraðvirkari en eldri MBIR „Model Based Iterative Reconstruction“ tækni frá sama framleiðanda.

Smári Kristinsson tók undir með Magnúsi og benti á að síðustu 10 ár eða svo hafi mestu framfarir í myndgæðum og geislasparnaði tölvusneiðmyndatækja einmitt byggst á reiknilíkönum og ítrekuðum útreikningum en viðtökurnar hafi verið misjafnar, m.a. vegna þess að áferð myndanna breyttist við þessar aðferðir og það gat í ákveðnum tilfellum rýrt greiningargildið, sérstaklega við mikla lækkun geislaskammta.
Hann sagði að AiCE virtist byltingarkennt skref fyrir tölvusneiðmyndabúnað frá Canon, áður Toshiba, og benti á grein í European Radiology frá 11. apríl s.l. þar sem framfarir, mælt á hefðbundna mælikvarða eins og suð og merkjasuðhlutfall, eru metnar verulegar. Klíniskt mat styður tæknilegu niðurstöðurnar að mestu leyti.
Tækni sem nýtir djúpvélanám þarf að þróa sérstaklega fyrir hvert líffærakerfi og greinin í European Radiology gengur út frá lifrarrannsóknum, þar sem tölurnar sýna að suð í lifrarvef minnki um tæp 40% við notkun AiCE í samanburði við þau reiknilíkön sem Canon hefur notað í sínum tækjum til þessa.

Góð vinnuaðstaða, gott starfsfólk og góð þjónusta við sjúklinga
Þegar Arnartíðindi höfðu samband við Maríönnu Garðarsdóttur, röntgenlækni á LSH, sagði hún að þetta tæki byði t.d. upp á myndatöku af kransæðum í einum hjartslætti, sem geri kleift að rannsaka fólk með hraðari hjartslátt en áður. Hún lagði líka áherslu á að einn af kostum AiCE tækninnar sé möguleikinn á að minnka geislaskammta enn frekar en áður, án þess að myndgæði og greiningarhæfni skerðist.

„Tækið er hannað með sjúklinginn í huga,“ sagði Maríanna. „Það er opnara og líka minna um sig en eldri útgáfur og þessvegna auðveldara að koma því fyrir í gömlu húsnæði, en það var samt ráðist í miklar beytingar á húsnæðinu á TS á Hringbraut, bæði á stofunni sjálfri, vinnuaðstöðu geislafræðinga og úrlestarsvæði lækna. Alltsaman í því augnamiði að gera þjónustu við sjúklinga, bæði inniliggjandi og utanaðkomandi, betri og skilvirkari. Þessi vinna gekk hratt og vel og það stóðust allar tímaáætlanir, sem er gríðarlega mikilvægt því auðvitað verður mikið rask við útskiptingu á svona mikilvægu tæki eins og TS tæki er.“

Stefna stjórnenda er að sambærileg tæki á röntgendeildunum hafi samskonar notendaviðmót og sagði Maríanna að það væri mikill kostur að tækið er sömu gerðar og tvö nýleg tæki sem hafa verið sett upp í Fossvogi, það gerði alla þjálfun starfsfólks og gæðavinnu einfaldari.
„Í síðustu viku var hjá okkur sérfræðingur frá Canon sem vann að gerð prótokolla með Ásrúnu Karlsdóttur einingastjóra og Þórdísi Halldórsdóttur aðstoðareiningastjóra á TS, ásamt Ágústu Andrésdóttur röntgenlækni“, sagði Maríanna. „Það gekk mjög vel, enda frábært teymi þar á ferð.“

Rafernir óska LSH fólki innilega til hamingju með þessa glæsilegu viðbót við tækjakost spítalans.

Arnartíðindi þakka Maríönnu, Magnúsi og Smára fyrir upplýsingarnar.
Myndir með fréttinni eru í boði þeirra Maríönnu og Sigurðar Hauks Bjarnasonar.