Nýjasta nýtt í Maintain Pro

 - Fréttir, Uncategorized @is

Vinna að stöðugum umbótum er hluti af daglegum störfum hjá Raferninum og þessa dagana er verið að leggja lokahönd á reglubundna uppfærslu á verkbeiðina- og þjónustukerfinu Maintain Pro sem viðskiptavinum er að góðu kunnugt. Í þetta sinn voru gerðar fáeinar breytingar sem eru meira áberandi en venjulegt er, sú stærsta á sjálfvirkum póstum frá kerfinu.

Sitt lítið af hverju
Sem dæmi má nefna að ekki er lengur hætta á að ein beiðni breytist í margar þegar verið er að senda frá stað þar sem nettenging er hæg. Hraði Maintain Pro inni hjá viðskiptavinum ræðst að mestu af nettengingunni á staðnum og stundum smellir fólk oft á „Senda“ hnappinn þegar það heldur að ekkert sé að gerast en sendir þá óafvitandi margar beiðnir um sama verkið. Nú verður „Senda“ hnappurinn óvirkur þegar beiðni er komin af stað.

Einnig má nefna að fljótlegra og einfaldara á að vera að skoða beiðnir sem eru í vinnslu fyrir ákveðna deild eða stað. Flipinn „Fyrirspurnir“ er með sjálfvalið að ef smellt er beint á „Leita“ hnappinn koma upp allar beiðnir sem skráðar eru á viðkomandi stað og ekki er búið að loka.

Nokkrar fleiri smábreytingar voru gerðar sem til samans ættu að gera Maintain Pro enn notendavænni en áður.

Skemmtilegri póstar með skýrari upplýsingum
Breytingin sem viðskiptavinir verða mest varir við í þetta sinn er á póstum sem Maintain Pro sendir þegar starfsmaður hjá Raferninum skráir svar í verkbeiðni sem viðskiptavinur hefur búið til. Markmiðið var að gera póstana læsilegri og upplýsingarnar í þeim markvissari.

Þegar svar er skráð í beiðni fær sá sem skrifaði hana póst frá „Raförninn Tækniþjónusta“ og í póstinum sést hvaða tæknimaður var að vinna í verkinu, svarið sem hann var að skrá og svo upplýsingar um beiðnina sjálfa m.a. númerið á henni og um hvað hún snýst (höfuðatriði). Ef sá sem fær póstinn vill skoða beiðnina nánar getur hann/hún smellt á hlekk í póstinum til að opna Maintain Pro kerfið. Þess má geta að viðkomandi þarf að skrá sig inn í Maintain Pro til að sjá beiðnina.

Flestum finnst frekar óspennandi að fá póst frá „einhverju kerfi“ og það getur verið freistandi að sleppa því að lesa hann. Litlar breytingar höfðu orðið á póstunum frá Maintain á öllum þeim árum sem kerfið hefur þjónað dyggilega, bæði Raferninum og viðskiptavinum, og kominn tími til að gera þá nútímalegri. Á tímum þar sem upplýsingagjöf og gagnsæi verða sífellt mikilvægari er ánægjulegt að geta bætt þessa mikilvægu leið viðskiptavinanna til að fylgjast með verkum sem verið er að vinna.

Til þess að þessi þjónusta gagnist eins og vonast er til er nauðsynlegt að sá sem biður um að Raförninn vinni eitthvert verk skrifi beiðni í Maintain Pro. Að sjálfsögðu er alltaf velkomið að hringja eða grípa starfsfólk Rafarnarins á förnum vegi en þá er mikilvægt að skrifa líka beiðni, til að sá sem biður um verkið fáið upplýsingar.

Óskað eftir skoðunum og tillögum
Það mundi gleðja starfsfólk Rafarnarins að heyra frá þeim sem nota Maintain Pro hvort breytingin á póstunum er til hins betra og hvað fleira væri hægt að gera til að bæta þjónustuna. Það er alltaf velkomið að spjalla, hvort sem er í síma eða augliti til auglitis, eða senda tölvupóst… og ef fólk notar Maintain Pro og sendir beiðni á rekstrareininguna „Kvartanir / athugasemdir / hrós“ þá berst snarlega svar þegar Edda gæðastjóri bregst við beiðninni!

Fyrirspurnir - Til að sjá beiðnir í vinnslu
Dæmi um nýja útlitið á póstum frá MP