Nýir geislafræðingar vorið 2020
Þrátt fyrir að síðustu vikur hafi verið óvenjulegar í Háskóla Íslands fara diplómavarnir geislafræðinema fram núna í maí með líkum hætti og venjulega. Tíu nemendur skila diplómaverkefnum og útskrifast sem geislafræðingar í vor.
Jónína Guðjónsdóttir, lektor á Geislafræðibraut Háskóla Íslands, sendi Arnartíðindum fréttir af diplómavörnunum.
Góður hópur með fjölbreytt verkefni
Varnirnar dreifast á mismunandi daga og engum gestum er leyft að fylgjast með, en venjan er að diplómadagar Geislafræðibrautar séu opnir og fólk hvatt til að koma og heyra hvað nemendur hafa fram að færa.
Eins og áður sagði eru það tíu nemendur sem skila diplómaverkefnum í ár. Það eru:
Árný Sif Kristínardóttir
Bergey Alexandersdóttir
Droplaug Ýr Magnúsdóttir
Guðrún Jenný Sigurðardóttir
Guðrún Paulomi Sveinsdóttir
Harpa Lind Ólafsdóttir
Ilya Tverskoy
Karen Rós Bjarkadóttir
Kristlaug Inga Sigurpálsdóttir
Stefanía Eir Einarsdóttir
Tækifæri til umbóta á myndgreiningardeildum
Efni verkefnanna var fjölbreytt að vanda, mörg fjölluðu um gæði og þjónustu myndgreiningardeilda, og sýndu nemendur með verkefnum sýnum fram á ýmis tækifæri til umbóta.
Í niðurstöðum kom fram að hreinsun handa og umhverfis væri ábótavant (Guðrún Jenný) og að undir- og yfirgeislaðar myndir eru algengar; geislunarvísar (tökutölur) væru ekki nýttar sem skyldi (Guðrún) og að skilgreind tökugildi fyrir börn væru ekki til staðar í nýjum tækjum (Harpa Lind).
Nokkur munur fannst á geislaskömmtum í tölvusneiðmyndatækjum á þrem stöðum þrátt fyrir að tæki séu lík og lesið sé úr myndum á sama stað (Bergey).
Rannsökuð var notkun myndgreiningar við greiningu á botnlangabólgu og sýnt að góð ómrannsókn hefur hátt jákvætt forspárgildi og gæti komið í stað tölvusneiðmyndarannsóknar sem fyrsta rannsókn þegar grunur er um botnlangabólgu (Árný).
Nemendur könnuðu einnig áhrif þess að taka röntgenmyndir af hrygg með PA geislastefnu í stað AP (Droplaug) og að minnka þvermál útreiknaðrar tölvusneiðmyndar (Ilya).
Tvær rannsóknir sem gerðar voru á líðan og viðhorfi sjúklinga sýndu að flestir töldu sig hafa fengið nægar upplýsingar fyrir rannsókn. Fáir sjúklingar myndgreiningardeildar Heilbrigðisstofunar Vesturlands höfðu nýtt sér upplýsingar á vef stofnunarinnar og flestir vildu frekar fá upplýsingar í samtali (Karen).
Sjúklingar á leið í segulómun fundu almennt ekki fyrir miklum kvíða, þó voru konur kvíðnari en karlar, en stærð sjúklings hafði ekki áhrif (Stefanía).
Allir hvattir til að kynna sér niðurstöðurnar
Þeir sem vilja kynna sér niðurstöðurnar nánar eru hvattir til að hafa samband við hina nýútskrifuðu geislafræðinga eða starfsmenn námsbrautarinnar.
Velkomið er að hafa samband við Jónínu, joninag@hi.is
Arnartíðindi þakka Jónínu og Guðlaugu Björnsdóttur, námsbrautarstjóra, fyrir upplýsingar og myndir.
Á myndunum má sjá hluta þeirra nemenda sem bætast í hóp geislafræðinga þetta vorið.