Ný viðmið um geislaskammta fyrir börn

 - Fréttir

Eitt af höfuðmarkmiðum geislavarna í læknisfræði er að halda geislaskömmtum á sjúklinga eins lágum og unnt er án þess að það skerði greiningargildi rannsókna. Á undanförnum árum hafa geislaskammtaviðmið (DRL) komið þar sífellt meira við sögu og nýlega gáfu norrænu geislavarnastofnanirnar út svæðisbundin viðmið fyrir röntgenrannsóknir og tölvusneiðmyndir af börnum.

Tvær vísindagreinar með þátttöku sérfræðinga hjá Geislavörnum
Í febrúar sl. var birt frétt á vefsíðu Geislavarna ríkisins um þessi nýjustu viðmið en áður var búið að gefa út geislaskammtaviðmið fyrir tölvusneiðmyndir af kviðarholi og af heila hjá fullorðnum.
Af hálfu Geislavarna ríkisins voru það geislafræðingarnir Nellý Pétursdóttir og Jónína Guðjónsdóttir sem komu að vinnunni við nýju geislaskammtaviðmiðin og er Jónína einn af höfundum tveggja vísindagreina sem birtust á síðasta ári: Annarsvegar „Establishing paediatric diagnostic reference levels using reference curves – A feasibility study including conventional and CT examinations“, sem birtist í Physica Medica í júlí, og hinsvegar „Paediatric diagnostic reference levels for common radiological examinations using the European guidelines“ sem birtist í desember sl. í The British Journal of Radiology.

Mikið og gott samstarf milli landa
Samkvæmt upplýsingum frá Jónínu Guðjónsdóttur eru Norrænu geislavarnastofnanirnar í reglulegu samstarfi í nokkrum vinnuhópum og einn þeirra fjallar um læknisfræðilega notkun geislunar. Nellý er aðalfulltrúi Íslands í þeim hópi og þegar ákveðið var að vinna þetta verkefni um DRL fyrir börn, sá hún um að koma gagnasöfnun á Íslandi af stað.
Sami háttur var hafður á í öllum löndunum: Myndgreiningardeildum sem gera barnarannsóknir að einhverju marki var boðin þátttaka og tengiliðir á þeim stöðum sem vildu vera með fengu aðgang að og skráðu inn í sænskt geislaskammtakerfi, sem var til fyrir. Það reyndist töluvert verk að koma því af stað, fólk þurfti að læra á kerfið, fá útskýringar o.s.fr. Gagnasöfnunin sjálf var svo nokkuð tímafrek handavinna.
Úrvinnsla var gerð í samvinnu allra þjóðanna en þar fór fremst í flokki hin sænska Anja Almén sem er fyrsti höfundur að greinunum. Jónína segist sjálf hafa komið inn í vinnuna á seinni stigum, mest við að skrifa greinarnar.

Viðmiðin þurfa að gagnast við geislaskammtabestun
Í riti Geislavarna GR19:03, um kröfur til og gæðaeftirlit með röntgentækjum í læknisfræði, segir að öll röntgentæki eigi að gefa upplýsingar um geislaskammtastærðir sjúklings við hverja röntgenmynd eða við skyggningu og senda þær sjálfkrafa til vistunar í öruggt kerfi á formi sem gagnast notendum við eigið eftirlit með geislaskömmtum og við mat GR á heildargeislaálagi sjúklinga vegna læknisfræðilegrar geislunar.
Jónína bendir á að sumsstaðar í Evrópu sé notkun Radiation Dose Management systems orðin krafa og flestir þeirra skoðunar að þau séu nauðsynleg til þess að sýna að kröfur Evróputilskipunar (2013/59/Euratom) um réttlætingu og bestun séu uppfylltar. Dæmi um þetta má sjá í greininni Radiation dose management systems-requirements and recommendations for users from the ESR EuroSafe Imaging initiative – PubMed (nih.gov)

Vonast til að aukin sjálfvirkni gagnist vel í gæðastarfi
„Með meiri sjálfvirkni gerist vonandi tvennt“, sagði Jónína. „Í fyrsta lagi verður söfnun upplýsinga um geislaskammta á landsvísu auðveldari og þar með hægt að taka saman tölur fyrir landið oftar og uppfæra landsviðmið og í öðru lagi eiga notendur geislunar auðveldara með að fylgjast með eigin geislaskömmtum. Þá er hægt að bera miðgildi saman við landsviðmið en ekki síður að finna og kanna útlaga (outlayers) jafnóðum, t.d. til að læra af mistökum ef það er ástæðan fyrir óvenju mikilli geislun.“
Hún undirstrikaði einnig mikilvægi þess að velja  tökugildi fyrir börn eftir stærð en ekki aldri, enda ein af niðurstöðum verkefnisins að DRL eigi að miðast við þyngd. „Mig langar í þessu samhengi að benda á verkefni Örnu Bjarkar, geislafræðings, frá 2017 þar sem sést að geislaskammtar jafnstórra barna, ekki jafngamalla, heldur jafnstórra, voru mjög mismunandi – a.m.k. þá.“ sagði Jónína.

Raförninn getur ráðlagt um notadrjúgt kerfi
Starfsfólk Rafarnarins hefur leitað upplýsinga um þau kerfi sem í boði eru til að halda utanum geislaskammta og gera myndgreiningarfólki kleift að nýta þessar upplýsingar til geislaskammtabestunar á sínum vinnustað. Kaupa þarf aðgang að flestum þeirra og fyrir fullkomnustu kerfin er oft um talsverðar upphæðir að ræða. Þegar litið er á möguleika í opnum hugbúnaði virðist OpenREM kerfið eins og er koma best út og Raförninn hefur sett það upp til reynslu hjá tveimur viðskiptavinum. Vonast er til að eftir reynslutímabil verði hægt að bjóða OpenREM sem þjónustu hjá þeim viðskiptavinum sem það hentar fyrir.

Arnartíðindi þakka Jónínu fyrir.

Photo by MART PRODUCTION from Pexels