NCR 2017 frá sjónarhóli ritstjóra

 - Fréttir

Nordic Congress of Radiology var haldin í Reykjavík dagana 28. júní til 1. júlí. Um 450 ráðstefnugestir frá 33 löndum nutu þeirrar fjölbreyttu og metnaðarfullu dagskrár sem boðið er upp á. Allt gekk eins og best verður á kosið og heyra mátti á ráðstefnugestum að þeir voru almennt afar ánægðir með viðburðinn. 

Myndir!!
Á Facebook síðu NCR er fullt af flottum myndum frá henni Berglindi geislafræðingi og hirðljósmyndara ráðstefnunnar 🙂

Miðvikudagur 27. júní

Miðnæturgolf
Tekið var forskot á sæluna  og félagslegi hlutinn hófst með glæsibrag á miðvikudagskvöld, með golfmótinu Acta Radiologica Open Midnight Golf Tournament. Mótið tókst vel og bæði íslenskir og erlendir golfarar nutu kvöldsins í yndislegu veðri. Ekki bærðist hár á höfði og eftir eina dæmigerða, íslenska skúr bauð miðnætursólin upp á glæsilega sólstafi fólki til óblandinnar ánægju.
Raförninn lagði sitt af mörkum til mótsins, bæði með þátttöku helsta golfáhugafólks fyrirtækisins og með litlum teiggjöfum sem þátttakendum voru færðar. Það voru þau Bryndís Eysteinsdóttir, Eiríkur K. Þorbjörnsson og Sigurður Rúnar Ívarsson sem héldu uppi merkjum starfsfólks Rafarnarins og gekk þeim öllum prýðilega á mótinu, ekki síst Bryndísi sem varð í 4. sæti. Sigurður Haukur Bjarnason, nýr framkvæmdastóri Rafarnarins var líka á svæðinu en lét nægja að fylgjast með árangri síns fólks í keppninni og blanda geði við þátttakendur. Sem teiggjafir urðu fyrir valinu golfhandklæði merkt Raferninum og að sögn Bryndísar var ekki annað að sjá en þau gerðu ágæta lukku. Úrslit mótsins má sjá á golf.is 

Fimmtudagur 28. júní

Vandi að velja úr dagskrárliðum
Á fimmtudagsmorgni streymdu ráðstefnugestir síðan í Hörpu og fyrirlestrar og aðrir dagskrárliðir hófust í býtið. Fyrir lá það erfiða en skemmtilega verkefni að velja milli fjölda áhugaverðra atriða en ritstjóri Arnartíðinda var einn þeirra sem ákváðu að nýta morguninn til að hlýða á dr. Emanuel Kanal fjalla um öryggi við segulómun og nýjustu upplýsingar um uppsöfnun gadolinium skuggaefna í vefjum líkamans.

Öryggi við segulómrannsóknir
Í fyrra erindi dr. Kanals kom meðal annars fram að hann teldi hafa verið verulegt ósamræmi í öryggismálum við MR rannsóknir allt þar til fyrir þremur árum eða svo. Vissulega hefði víða verið unnið ötullega en samræmingu vantað. Viðmiðunarreglur The Joint Commission voru uppfærðar árið 2015 en tilmæli vegna MR öryggis eru enn of almenn til að nýtast vel.
Í rannsóknum hefur komið fram að um 80% þess sem áfátt er í öryggi á MR stofum fellur í aðeins fjóra flokka: Ekki er takmarkaður aðgangur að svæðum þar sem þess þarf, varúðar- og upplýsingaskilti vantar, ekki er leitað að hlutum sem segulmagnast og þjálfun starfsfólks er ábótavant. Mikil vinna hefur verið lögð í rótargreiningu út frá rannsóknaniðurstöðum af þessum toga og fyrir tveimur árum kom út fyrsta útgáfan af ACR MRI Quality Control Manual sem innihélt gátlista um öryggismál en eins og svo margir aðrir sem vinna að gæða- og öryggismálum styður dr. Kanal eindregið notkun gátlista.

Lögð hefur verið vinna í að staðla námsefni fyrir geislafræðinga og einnig var stigið stórt framfaraskref í Bandaríkjunum þegar reglur voru settar um að hver staður sem býður upp á segulómrannsóknir þyrfti að hafa skilgreinda ábyrgðaraðila og verða þeir að standast próf hjá American Board of Magnetic Resonance Safety (ABMRS)
Eitt af því áhugaverða sem fram kom hjá dr. Kanal var að þeir sem fengið hafa viðurkenningu ABMRS fá án endurgjalds smáforrit, app, sem er gátlisti til að ákveða hvort óhætt er að gera segulómrannsókn á manneskju með ígræðslu eða aðskotahlut í líkamanum sem engar upplýsingar eru til um. Hægt er að vista niðurstöðuna og hlaða niður á hentugu formi til að geyma í sjúkraskrá sjúklings. Ný útgáfa af þessu appi verður kynnt á RSNA 2017.

Deilur um gadolinium skuggaefni
Seinni fyrirlestur dr. Kanal fjallaði um nýjustu upplýsingar um uppsöfnun gadoliniums í vefjum líkamans, umdeild tilmæli PRAC um að „linear“ Gd skuggaefni verði tekin af markaði og hörð átök þar um. Þessi fyrirlestur var ekki síður áhugaverður en sá fyrri og hæfileikar dr. Kanal sem ræðumanns nutu sín til hins ýtrasta. Ég ætla þó ekki að rekja innihaldið að neinu marki en meðal þess sem rétt er að minnast á er að American College of Radiology (ACR) sá ástæðu til að gefa út þá yfirlýsingu að samtökin væru ósammála tilmælum PRAC. Dr. Kanal rakti fjölmörg atriði sem benda eindregið til þess að ekki séu til nægar upplýsingar til að byggja á. Meðal annars bendir margt til að ekki sé rétt að reikna með að öll „linear“ skuggaefni hafi samskonar eiginleika né heldur að öll „macrocyclic“ skuggaefni hafi samskonar eiginleika, en talið hefur verið að ekki sé hætta á Gd uppsöfnun af „macrocyclic“ skuggaefnum.

Eins og dr. Kanal sagði sjálfur þá er svo margt á huldu um þetta mál, rannsóknir í gangi og rökræður manna á milli að nýjustu upplýsingar í dag geta verið orðnar úreltar í næstu viku. Það er því ákaflega spennandi fyrir myndgreiningarfólk að fylgjast með framvindunni.  

Gott skipulag og bragðgóðar veitingar
Í kaffipástum og hádegishléi gafst frábært tækifæri til að hitta myndgreiningarfólk og spjalla af lífi og sál! Ekki spillir fyrir að veitingar eru einstaklega góðar og má þar sérstaklega nefna hádegismatinn sem fékk mikið hrós. Gæði veitinganna eru eitt af því sem ber undirbúningsnefnd ráðstefnunnar gott vitni og sama má segja um skipulagið í heild, nefndin getur verið stolt af því hvað allt gengur smurt, tímaáætlanir standast ótrúlega vel, allar nauðsynlegar upplýsingar eru fyrir hendi og bókstaflega ekki út á neitt að setja.  

Gaman á Rafarnar-básnum
Þegar ekki er verið að hlýða á fyrirlestra eða sinna símenntun á annan hátt, geta ráðstefnugestir meðal annars litið við á kynningarbásum ýmissa fyrirtækja og félagasamtaka. Á einum básnum kynnir Raförninn starfsemi sína og þar standa vaktina þeir Sigurður Haukur Bjarnason og Þorsteinn Ragnar Jóhannesson.
Við hlið Rafarna standa fulltrúar Spectralis, nýja félagsins sem stofnað var um hugbúnaðarþróun fyrirtækisins, og kynna sína starfsemi.
Ráðstefnugestir hafa verið duglegir að líta við á  Rafarnarbásnum og við hvetjum Íslendingana sérstaklega til að koma og spjalla, heyra hvað er efst á baugi hjá fyrirtækinu og ekki síður að gefa Raförnum hugmyndir um leiðir til að bæta þjónustuna enn frekar.

Áhugaverð atriði í málstofu nr. 1
Eftir hádegi var ekki síður erfitt að gera upp á milli dagskráratriða en þá lagði ritstjórinn fyrst leið sína í Rímu þar sem haldin var málstofa nr. 1 og meðal annars fjallað um geislavarnir við tölvusneiðmyndatöku og gæðatryggingu í brjóstamyndatökum. Margt annað áhugavert var á dagskránni en þetta tvennt höfðaði mest til mín, sem áhugamanneskju um allt sem tengist gæða- og öryggismálum í myndgreiningu. Útdrætti úr öllum erindum málstofunnar má finna í „abstraktabók“ ráðstefnunnar en tengill við hana bættist einmitt á vefsíðu ráðstefnunnar á fimmtudagsmorgun. Þar eru einnig útdrættir fyrir málstofur föstudagsins 30. júní.
Meðal flytjenda í þessari málstofu var Guðlaug Björnsdóttir, geislafræðingur í Hjartavernd og brautarstjóri námsbrautar í geislafræði. Hún kynnti niðurstöður úr hluta af mastersverkefni sínu, um mat á skellum (plaque) í hálsæðum.

Fimm óskir sjúklingsins
Eitt af því sem ég var búin að hlakka mest til að hlusta á var fyrirlestur dr. Stephens Swensen sem bar yfirskriftina „The five wishes of a radiology patient“. Hann stóðst væntingar og var ákaflega þörf og góð áminning um að það sem við, myndgreiningarfólk, teljum mikilvægast fyrir sjúklinginn er ekki endilega það sem hann metur mikilvægast. Óskirnar fimm voru þessar, á ensku: 1. Don´t hurt me. 2. Let me know what you know. 3. Let me decide. 4. Help me. 5. Let me design your compensation system.

Dr. Svensen útskýrði hvað liggur að baki hverri ósk og í örstuttu máli má segja að áherslan hafi verið á að nota ekki vinnubrögð sem bjóða upp á mistök, tilkynna atvik þegar þau verða og læra af þeim, varast óþarfa rannsóknir og yfirdrifin viðbrögð við niðurstöðum rannsókna, vanda sig við að upplýsa sjúklinginn og hafa hann með í ráðum án þess að ýta honum í átt að einu vali frekar en öðru og skipuleggja fjármögnun þjónustunnar þannig að greitt sé fyrir verðmæti hennar en ekki magn („value over volume“). Í raun mætti draga þetta saman í „að veita þá þjónustu sem maður mundi sjálfur vilja fá“.

Geislaskammtar og samræming
Á eftir dr. Swensen fjallaði dr. Raija Seuri um geislaskammtabestun og það sem hægt er að kalla geislaskammtaviðmið á íslensku, „dose reference levels“ (DRL). Hún nefndi að víða væri búið að leggja mikla vinnu í geislaskammtabestun en þrátt fyrir það væri enn hrópandi ósamræmi í geislaskömmtum við samskonar rannsóknir og mikilvægt að nota góða samvinnu til að samræma og staðla af fremsta megni.
DRL væru, eins og nafnið bendir til, ætlaðir til viðmiðunar fyrir dæmigerðan sjúkling og ýmist rannsóknartegund eða líkamshluta. Til væru m.a. evrópskir viðmiðunarskammtar, viðmiðunarskammtar í ákveðnum löndum og viðmiðunarskammtar sem t.d. nokkrar myndgreiningareiningar ákvörðuðu í sameiningu. Viðmiðunarskammta mætti aldrei heimfæra á einstaklinga, alltaf þyrfti að laga tökugildi að hverjum og einum.
Dr. Seuri lagði áherslu á að ekki mætti einblína á að lækka geislaskammta, alltaf yrði að taka myndgæðin með í reikninginn, þannig að ALARA reglan væri í fullu gildi, með áherslu á R-ið (reasonably achivable).

Virtir fyrirlesarar á opnunarathöfn
Dagskrá fimmtudagsins lauk á opnunarathöfn þar sem tveir virtir fyrirlesarar stigu á stokk, prófessor Anne Osborn sem flutti erindið „What radiologists need to know in the molecular genetics era“ og prófessor Audrey Paterson en hennar framlag bar yfirskriftina „The changing face of radiography: Looking back and thinking forward“.
Mörgum til léttis var nú ekki þörf á meira vali þennan daginn, eðlilega voru ekki aðrir dagskrárliðir á sama tíma og gafst því öllum kostur á að njóta fyrirlestranna sem,  eins og við varað búast,  voru báðir fræðandi, vel undirbúnir og vel fluttir.
Prófessor Osborn sagði frá nýjustu framvindu í greiningu og stigun heilaæxla og prófessor Paterson leit yfir þróun myndgreiningar, stöðuna núna, helsta árangur sem unnist hefur og framtíðarmöguleika. Hún talaði út frá sjónarhóli geislafræðinga og lagði sérstaka áherslu á að nám stéttarinnar þyrfti að laga að þeim nýja veruleika sem fylgir sameindamyndgreiningu, einstaklingsmiðaðri sjúkdómsmeðferð og fleiru tengdu starfsemi líffærakerfa, líffæra og fruma.

Vel heppnuð móttaka í Iðnó
Að opnunarathöfninni lokinni lá leið fólks í Iðnó þar sem haldin var móttaka með léttum veitingum. Tíminn var að langmestu leyti ætlaður til óformlegra samskipta en sá þáttur í ráðstefnum og öðrum viðburðum af því tagi verður seint ofmetinn. Gert var stutt hlé á spjalli til að heiðra undirbúningsnefndir ráðstefnunnar, Organizing committee og Scientific Committee, og var þeim klappað lof í lófa.

Föstudagur 30. júní

Vísindagreinar, rýni, svindl og mótleikir

Að morgni annars ráðstefnudags var meðal annars hægt að sækja röð dagskrárliða hjá Acta Radiologica og ritstjóri Arnartíðinda greip tækifærið til að fræðast um vandamál og lausnir tengd útgáfu vísindagreina.
Prófessor Herbert Kressel steig fyrstur í pontu og í máli hans kom fram að útgáfuaðilar þurfa sífellt að vera á varðbergi gagnvart varhugaverðu efni sem reynt er að fá birt. Stundum er um hrein ósannindi að ræða, falsaðar rannsóknaniðurstöður eða annnað álíka. Allskyns hagsmunaárekstrar (conflict of interest) eru algengir, fólk er hlutdrægt (biased), niðurstöður eru oftúlkaðar og svo mætti lengi telja. Þetta kallar á meira regluverk um yfirferð og rýni og á sl. 10 árum hefur afturköllun (retraction) útgefins efnis aukist mjög.

Eitt af því mikilvægasta til að tryggja gæði greina sem gefnar eru út er ritrýni (peer review) og um hana fjölluðu tveir fyrirlesarar, annarsvegar frá sjónarhóli útgefanda og hinsvegar þess sem rýnir. David Wilson, einn af ristjórum Acta Radiologica, sagði að í sumum tilvikum ylli það svosem engum skaða þó hálfgert bull væri gefið út, enda helltist þessháttar út á veraldarvefinn alla daga. Í öðrum tilvikum gætu t.d. falsaðar eða skekktar niðurstöður valdið óbætanlegu tjóni og til að sporna við því væri vænlegast að treysta á rýni fólks með góða þekkingu á viðkomandi sviði. Fyrir ritstjóra væri oft erfitt að fá nóg af góðu fólki til að rýna. Helst þyrfti fleiri en einn að rýna  hverja grein, rýnirinn mætti ekki vita hver skrifaði greinina og höfundurinn ekki vita hver rýndi. Mjög margvísleg sérþekking væri nauðsynleg og í flestum tilvikum væri fólkið sem best hentaði sem rýnar störfum hlaðið og mjög upptekið.

Undir þetta  tók prófessor Mikael Hellström, sem talaði út frá sjónarhóli rýnis. Hann orðaði það sem svo að vönduð rýni hefði aldrei verið mikilvægari en nú á tímum „alternative truth“ og „university of Google“. Sá sem beðinn væri um rýni yrði að velja af kostgæfni hvað og hversu mikið hann rýndi, því rýni sem ekki væri gerð heilshugar væri verri en engin. Manneskjan yrði að spyrja sjálfa sig hvort hún hefði nægan tíma, réttu sérþekkinguna, væri laus við hlutdrægni og hagsmunaárekstra, o.s.fr. Að hans mati þyrftu, til að aðstoða við bæði þessa ákvarðanatöku og rýnina sem slíka, að vera til meiri og staðlaðri leiðbeiningar. Einnig sagði prófessor Hellström að það mundi hvetja fólk til að taka að sér rýni ef venjan yrði að sú vinna kæmi fram á ferilskrá á og væri metin á ákveðinn hátt, í svipuðum dúr og t.d. eigin greinaskrif.

PET í Reykjavík og Umeå
Í hádeginu voru hafðar hraðar hendur við að fylla diska af girnilegum mat og síðan settist undirrituð inn í Silfurberg þar sem fram fór Satellite Symposium I, í boði GE Healthcare. Þar rakti Pétur H. Hannesson, yfirlæknir myndgreiningar á LSH, í örstuttu máli aðdraganda þess að nú hillir undir að PET rannsóknastofa verði tilbúin á sjúkrahúsinu og sagði frá stöðu framkvæmda núna.

Á eftir Pétri tók til máls Katrine Riklund, yfirlæknir myndgreiningar við háskólasjúkrahúsið í Umeå í Svíþjóð, og sagði hún frá uppbyggingu og starfsemi PET einingar sjúkrahússins. Hún benti  á mikilvægi þess að fulltrúar myndgreiningarfólksins, fólksins sem á að vinna á staðnum, tækju virkan þátt í hönnun einingarinnar og fylgdust með byggingarvinnunni til að allt yrði eins og best væri á kosið. Það var áhugavert að heyra, ekki síst vegna þess að Pétur var nýbúinn að segja frá því að myndgreiningarfólk frá LSH hefði unnið að hönnun með arkitektunum og útkoman þætti sérlega vel heppnuð.
Prófessor Riklund undirstrikaði líka að gríðarleg „pappírsvinna“ væri hluti af því að setja upp PET einingu. Að fá öll möguleg leyfi á réttum tíma, uppfylla kröfur og fylgja reglugerðum o.s.fr. krefðist mikillar skipulagningar og einnig aðstoðar sérfróðra einstaklinga. Einnig væri í daglegri vinnu nauðsynlegt að fylgja skipulögðu vinnuferli og staðla vinnubrögð eins og mögulegt væri, þau notuðu t.d. gátlista sem eru öpp (smáforrit). Hún dró enga dul á að það væri gríðarmikið verkefni að koma PET einingu í fullan gang en sagði líka að með samvinnu og þrautsegju skilaði öll fyrirhöfnin sér í möguleikum á ómetanlegri þjónustu við sjúklinga, í góðri vinnuaðstöðu. Að lokum sagði prófessor Riklund að myndgreiningarfólk frá Íslandi væri velkomið í heimsókn til Umeå til að kynna sér starfsemina hjá þeim.

Í lok þessa Satellite Symposium var gert ráð fyrir stuttri kynningu á því nýjasta í  PET búnaði frá GE og vegna tímaskorts varð kynningin beinlínis örstutt. Þrátt fyrir það var auðvelt að sjá að stöðugar tækniframfarir eru í gangi og þær nýjustu skila talsvert auknum myndgæðum.

Evrópusamstarf myndgreiningarfólks
Eitt af öllu því áhugaverða sem hægt var að kynna sér seinnipart dags var starf samtaka myndgreiningarfólks í Evrópu. Hjá röntgenlæknum er það ESR, European Society of Radiology, sem heldur utanum stærstan hluta samstarfs á Evrópugrundvelli og forseti ESR er einmitt prófessor Katrine Riklund. Hún sagði meðal annars að eitt það mikilvægasta í starfi ESR snerist um fræðslu og menntun myndgreiningarfólks, til að stuðla að samræmingu þekkingar og vinnubragða. Þar er European School of Radiology meðal þess sem efst er á baugi og full ástæða fyrir myndgreiningarfólk að kynna sér það sem þar er í boði. Mikið af metnaðarfullu efni er aðgengilegt á vef samtakanna og er það frítt fyrir ESR meðlimi. Á það má benda að félög röntgenlækna og geislafræðinga á Íslandi eiga bæði aðild að ESR og kostar því sáralitla fyrirhöfn og lágt gjald fyrir myndgreiningarfólk hérlendis að skrá sig og fá aðgang að öllu sem boðið er upp á.
European Diploma in Radiology hafa nokkrir íslenskir röntgenlæknar og nú er orðið mögulegt að ljúka því í gegnum vefinn, þó margir velji enn þann kost að mæta á ECR ráðstefnu og taka lokaprófið í Vínarborg.
Þegar minnst er á ECR ráðstefnuna má nefna að nú er mögulegt að fylgjast með allri ráðstefnunni í gegnum vefinn og að auki er vefaðgangur að efni frá ráðstefnum eftir að þeim lýkur.

Næstur á mælendaskrá var Håkon Hjemly, forseti Evrópusamtaka geislafræðinga, European Federation of Radiographer Societies (EFRS). Samtökin eru frekar ung, stofnuð árið 2008, en orðin bæði fjölmenn og öflug. Meðal fyrsta árangurs sem sást af stofnun þeirra var ákvörðun skilgreiningar á hugtakinu geislafræðingur (radiographer)  og útgáfa á siðareglum fyrir geislafræðinga.  
Hjá Hjemly kom fram að um þessar mundir væri mikil vinna í gangi í kringum EU Basic Safety Standards Directive sem tekur gildi í febrúar nk. Meðal annars er verið að bregðast við því að geislafræðingar eru varla nefndir á nafn, þrátt fyrir mikilvægi þeirra í vinnu þar sem jónandi geislun er notuð.
Hann nefndi einnig að í deiglunni væri að taka upp European Diploma in Radiography, fyrir geislafræðinga, á sömu nótum og European Diploma in Radiology.  Einnig verður í tengslum við ECR 2018 boðið upp á sérstakt tækifæri fyrir geislafræðinga „Shape your skills“ þar sem geislafræðinar sem hafa unnið í innan við 5 ár geta sent inn veggspjald eða útdrátt og átt möguleika á að fá frían aðgang að ráðstefnunni og greidda hótelgistingu í tvær nætur. Auk þess minnti Hjemly á efnið í „Education on demand“ á vefsíðu ESR, þar sem efni ætlað geislafræðingum er merkt með bókstafnum R.
EFRS vinnur með alþjóðasamtökum geislafræðinga, ISRRT, og að sjálfsögðu er samstarf við ESR bæði mikið og náið, ekki síst í tengslum við ECR. Fulltrúar frá samtökunum tveimur halda samstarfsfundi a.m.k. þrisvar á ári, reynt er að hittast í eigin persónu en fjarfundamöguleikar eru líka nýttir.

Málstofur á föstudegi
Boðið var upp á tvær málstofur á föstudeginum, númer 2 og 3, og meðal þeirra sem stigu í pontu í þeirri fyrri var Sigurður Sigurðsson, forstöðugeislafræðingur í Hjartavernd, sem reyndar kom tvisvar í ræðustól því hann kynnti niðurstöður tveggja rannsókna.
Útdrætti úr öllum kynningum í málstofunum tveim má finna í „abstraktabók“ sem er nýútkomin  sem rafrænt fylgirit með Acta Radiologica. 

Veggspjaldasýning
Nokkur veggspjöld má sjá á sýningarsvæði ráðstefnunnar og fyrir Íslendinga er sérstaklega áhugavert að skoða niðurstöður rannsóknar sem geislafræðineminn Karin Pálsson gerði undir handleiðslu Jónínu Guðjónsdóttur, lektors við Háskóla Íslands. Yfirskriftin er: „The impact of patient characteristics and collimation on Exposure Index“ og eins og hún bendir til var tilgangurinn að svara því hvort atriði eins og t.d. skuggar af handleggjum og/eða brjóstum og einnig afblendun hefðu áhrif á tökutölu og þar með myndgæði lungnamynda.
Að sjálfsögðu eru önnur veggspjöld einnig áhugaverð og full ástæða til að skoða sýninguna í heild.

Glæsilegur hátíðarkvöldverður
Á föstudagskvöld gafst kostur á að taka þátt í hátíðarkvöldverði sem fram fór í salnum Norðurljós. Fyrir kvöldverðinn var kokteilboð í Björtuloftum, þar sem ráðstefnugestir gátu notið léttra veitinga og virt fyrir sér glæsilegt útsýni yfir borgina og nágrenni hennar. Klukkan sjö var svo kallað til borðs og öllum bent á að fylgja Hildi Einarsdóttur, röntgenlækni, sem er forseti ráðstefnunnar. Hildur lyfti litlum, íslenskum fána og leiddi skrúðgöngu prúðbúinna ráðstefnugesta um þetta glæsilega hús sem Harpa óneitanlega er.
Fram var borinn þriggja rétta kvöldverður, humarforréttur, lambakjöt í aðalrétt og dýrindis súkkulaðikaka í eftirrétt, og hvítvín og rauðvín borið með. Af viðbrögðum að dæma líkaði fólki almennt maturinn mjög vel og ekki spilltu skemmtiatriðin sem voru á dagskrá við borðhaldið. Tveggja manna hljómsveitin og gleðigjafarnir Hundur í óskilum komu norðan úr Svarfaðardal og slógu í gegn með atriði sínu. Óhætt er að segja að hápunkturinn hafi verið flaututónlist leikin á hækjur! Ekki minnkaði gleðin þegar uppistandarinn Ari Eldjárn steig á svið og náði gríðarlega góðu sambandi við norrænu gestina um leið og hann skemmti öllum öðrum ekki síður.

Við sama tækifæri voru veittar ýmsar viðurkenningar. Meðal annars var tilkynnt um heiðursfélaga Nordisk Förening för Medicinsk Radiologi og voru það að þessu sinni röntgenlæknarnir Anna Björg Halldórsdóttir, Baldur F. Sigfússon, Karen Rosendahl, Jan Göthlin og Sigurður V. Sigurjónsson.
Hin virtu verðlaun „Nordisk pris í radiology“ hlaut Haraldur Bjarnason, röntgenlæknir við Mayo Clinic í Bandaríkjunum.
Nordic Society of Radiographers veitir verðlaun fyrir besta eða athyglisverðasta fyrirlestur geislafræðings á norrænu ráðstefnunni og að þessu sinni var verðlaunahafinn Kari Vikestad frá Noregi.
Í lok athafnarinnar lét svo Maríanna Garðarsdóttir sem verið hefur forseti NFMR síðasta tímabil stjórnartaumana formlega í hendur Birthe Höjlund Bech frá Danmörku.

Laugardagur 1. júlí
Síðasti hluti ráðstefnunnar fór svo fram á laugardagsmorgni og eftir það kvöddu ráðstefnugestir, sáttir og ánægðir eftir frábæra ráðstefnu. Allir sem ritstjóri Arnartíðinda heyrði í voru sammála um að viðburðurinn hefði verið einstaklega vel skipulagður, dagskráin metnaðarfull og allt tekist eins og best verður á kosið. Undirbúningsnefndinar eiga skilið að fá sérstakar þakkir og þar fyrir utan þakka Rafernir öllum innilega fyrir eftirminnilega daga!