Læknadagar 2018

 - Fréttir

Hinir árlegu Læknadagar standa yfir frá 15. til 19. janúar þetta árið og dagskráin er að vanda metnaðarfull, þéttskipuð fróðlegum og skemmtilegum viðburðum. Í ár á Læknafélag Íslands 100 ára afmæli og nokkrir dagskrárliðir tengjast þeim tímamótum.
Aðrar heilbrigðisstéttir en læknar eru einnig hvattar til að sækja dagskrárliði á Læknadögum. 

Fjölbreytt dagskrá
Í nýjasta tölublaði Læknablaðsins er meðal annars haft eftir Jórunni Atladóttur, formanni Fræðslustofnunar LÍ, að einkum tvennt einkenni dagskrá Læknadaga í ár. Annars vegar sé það afmæli Læknafélags Íslands og hins vegar að óvenju margt sé á dagskránni sem ætla megi að höfði til breiðari hóps en alla jafna. Jórunn segir einnig að læknar geti nú eins og undanfarin ár fengið CME-símenntunarpunkta fyrir að sækja Læknadaga og þetta tryggi gæði dagskrárinnar því hana þurfi að leggja fram á hverju ári og fá viðurkennda sem alþjóðlegt símenntunarþing.

Viðburður sem vekur athygli
Arnartíðindi hafa fylgst með Læknadögum síðustu 15 árin eða svo og alltaf hefur dagskráin verið mjög metnaðarfull, umfjöllunarefnin fallið vel að raunveruleika líðandi stundar og þátttaka verið ákaflega góð. Í gegnum tíðina hefur yfirleitt um helmingur allra lækna á Íslandi litið við á Læknadögum hvers árs.

Meirihluti fyrirlesara er alltaf íslenskur en góðir erlendir fyrirlesarar krydda hópinn með áhugaverðum erindum og gefa annað sjónarhorn. Íslenskir röntgenlæknar hafa ekki látið sitt eftir liggja, hvort heldur sem er í sjálfstæðum fyrirlestraröðum um eigið fag eða með erindum um myndgreiningu í fyrirlestraröðum sem tileinkaðar eru hinum ýmsu sjúkdómum. Þó hlutur röntgenlækna sé minni í ár en oft áður má t.d. nefna að fimmtudaginn 18. janúar er Maríanna Garðarsdóttir, formaður Félags íslenskra röntgenlækna, með erindið „CT við ósæðarlokuþröng. Hvað er svona sérstakt við TAVI-CT?“ í fyrirlestraröðinni „Meðferð við ósæðarlokuþröng í nútíð og framtíð“.

Aldarafmæli Læknafélags Íslands
Eins og áður var minnst á svífur afmælisandi yfir vötnum á Læknadögum 2018 og formaður afmælisnefndar LÍ er úr hópi röntgenlækna, Birna Jónsdóttir hjá Röntgen Domus, en Birna hefur bæði gegnt formannsstarfi í Félagi íslenskra röntgenlækna og Læknafélagi Íslands.

Í júlí/ágúst tölublaði Læknablaðsins á síðasta ári sagði Birna stuttlega frá undirbúningi afmælishaldsins. Afmælisnefndin valdi að þema afmælisársins væri læknirinn og umhverfið og dagskrá ársins má einnig finna í Læknablaðinu. 

Aðrar heilbrigðisstéttir velkomnar
Skráning á Læknadaga í heild er einungis opin fyrir félagsmenn í Læknafélagi Íslands en öllum er velkomið að sækja fyrirlestra og aðra dagskrárliði. Fólk úr heilbrigðisgeiranum er hvatt til að mæta í Hörpu meðan Læknadagar standa yfir og skrá sig á staðnum, skráningargjaldi fyrir einstaka dagskrárliði er stillt í hóf.

Eins og áður segir er margt áhugavert í boði og sem dæmi má nefna fyrirlestraröð í Rímu frá kl. 9 – 12 á þriðjudeginum um næringu á meðgöngu og aðra á sama tíma í Kaldalóni með #MeToo átakið í brennipunkti. Frá kl. 13 – 16 á þriðjuudeginum er í Kaldalóni fjallað um geðlyfjameðferð og fíknivanda aldraðra og á sama tíma er fyrirlestraröð í Silfurbergi B um skipulag heilbrigðisstofnana – samstarf og verkaskiptingu. Í Silfurbergi B kl. 13 – 16 á miðvikudeginum er velt upp spurningunni „Er minna meira“ og fjallað um oflækningar og ofnotkun rannsókna. Í Kaldalóni á sama tíma er kastljósi beint að sögunni í fyrirlestraröð um Spænsku veikina sem skók landið fyrir 100 árum.
Sérstaka athygli má vekja á málþingi fyrir almenning sem haldið er í Silfurbergi B miðvikudagskvöldið 17. janúar kl. 20 og fjallar um geðheilbrigði og samfélag.
Á fimmtudeginum kl. 9 – 12 getur verið áhugavert að setjast inn í Silfurberg B og fylgjast með erindum og panelumræðum um bráðaþjónustu utan sjúkrahúsa, þar sem kastljósi er meðal annars beint að sjúkraflugi með flugvélum og þyrlum. Á sama stað er svo hádegisverðarfundur þar sem líffæragjafir eru til umfjöllunar, sérstaklega sú spurning hvort þörf sé fyrir ætlað samþykki.
Sem dæmi um áhugaverða dagskrárliði á föstudeginum má nefna að í Rímu er frá 9 – 12 fjallað um skjánotkun barna og unglinga og eftir hádegi er á sama stað fyrirlestraröð um nýtingu erfðaupplýsinga í heilbrigðisþjónustu. Í Kaldalóni er frá 13 – 16 fjallað um mótun heilans, meðal annars nýja sýn á þetta heillandi líffæri og nýjustu myndgreiningarrannsóknir á heila við upplifun og hegðun.

Ofangreint eru aðeins örfá dæmi um spennandi dagskrárliði, margt annað er í boði og allir eru hvattir til að nýta þetta frábæra tækifæri til símenntunar sem Læknadagar eru.