Íslendingar ánægðir á RSNA
RSNA ráðstefnan 2021 var sú 107. í röðinni og yfirskrift hennar „Redefining Radiology“. Heildarfækkun ráðstefnugesta borið saman við árið 2019 var um 55%, í ár er fjöldinn skráður um 21.300 en síðast þegar RSNA var haldið í raunheimum, árið 2019, mættu 47,011. Þó fámennara hafi verið á RSNA en oft áður þá mætti flottur hópur af íslensku myndgreiningarfólki á staðinn og Arnartíðindi þakka innilega þeim sem gáfu sér tíma til að senda skemmtilegar fréttir frá Chicago.
Punktar frá Íslendingum á RSNA
LSH geislafræðingar nýta tímann vel
Fyrstu fréttapunktarnir voru af geislafræðingahópnum frá LSH en Arnartíðindi leituðu til Sólveigar Svövu Gísladóttur til að fá fréttir af þeim. Hún brást fljótt og vel við og sendi hið snarasta bæði texta og ljósmyndir.
„Við erum búnar að nýta tímann vel alveg frá mánudagsmorgni, höfum farið á allskyns fyrirlestra og skoðuðum tæknisýninguna bæði mánudag og þriðjudag, hún er svo stór og svo margt mjög fróðlegt og skemmtilegt þar!“, sagði Sólveig í pósti til Arnartíðinda. „Til dæmis skoðuðum við færanlegt segulómtæki frá fyrirtækinu Hyperfine. Þar var boðið upp á að láta skanna höfuðið á sér sem við nýttum okkur nokkrar.“
Hún bætti svo við að hópnum hefði verið boðið í gleðskap hjá sama fyrirtæki, þar sem líka var hægt að fara í tækið. „Það var mun skrítnari tilfinning svona þegar áfengi var haft um hönd.“ 🙂
Geislafræðingarnir eru mjög ánægðir með fyrirlestrana sem þær segja að séu alveg frábærir, ekki síst þar sem fjallað er um geislavarnir verið að velta því upp hvenær og hvort sé hægt að réttlæta notkun blývarna.
„Svo erum við búnar að nýta dagana eftir ráðstefnuna til að versla og njóta borgarinnar“, sagði Sólveig að lokum og bætti við að þær hlökkuðu mikið til komandi daga.
Símenntun og afmælisfagnaður hjá geislafræðingum frá HSS
Til að heyra af ferðum geislafræðinga frá Keflavík höfðu Arnartíðindi samband við Helgu Auðunsdóttur. Hún sagði að þær hefðu mætt spennart til Chicago þann 26.nóv, hún sjálf að fara á sína fyrstu RSNA ráðstefnu en Jórunn Garðarsdóttir að mæta í þriðja sinn.
„Mín upplifun er að þetta er stærra svæði en ég átti von á og mikið af fólki“ sagði Helga. „En fjöldinn er víst mikið minni vegna Covid. Ég segi bara “vá, hvernig var þetta fyrir Covid??”.
Þeim stöllum þykir mjög skemmtilegt að skoða stóru tækjasýninguna og sjá hvað er nýjasta nýtt. „Mér fannst mjög áhugavert að sjá CT tæki þar sem sjúklingur stendur á meðan svæðið er skannað“, sagði Helga. „Þá koma flottar myndir með álagi og eins 3 D myndir í álagsstöðu sem á að vera frábært til greiningar og pre aðgerðar upplýsingar fyrir læknana. Auk þess sagði seljandi að þetta væri mjög lítill geislaskammtur fyrir viðkomandi sjúkling, jafnvel minni en í venjulegu röntgen.“
„Annars er nánast allt spennandi á á RSNA, sama í hvaða horn þú lítur“, bætti Helga við. „Við fórum á kynningar á CT tækjum vegna útboðs sem er í vændum hjá okkur á HSS. Mjög skemmtilegt að fá að fræðast um tækin og skoða þau og sjá myndvinnsluna sem fyrirtækin eru að kynna fyrir okkur.“
Auk þessa er verið að taka í notkun glænýtt Philips röntgentæki á HSS núna um miðjan desember og samskonar tæki er uppsett á sýningunni. Helga sagði að það hefði verið bæði gaman og gagnlegt að fá skoða það og prófa að stýra því.
„Þann 1.desember varð svo Jórunn sjötug“, sagði Helga að lokum. „Við héldum uppá afmælið á frábærum stað sem heitir The Signature Room og er á 95.hæð með útsýni yfir alla borgina. Við mælum svo sannarlega með allir sem koma til Chicago panti sér borð þarna!“
Fyrir þá sem heima sitja
Þeir sem ekki komust á RSNA þetta árið geta til dæmis leitað upplýsinga…
…Minnu frænku (AuntMinnie.com)
…Radiological Society of North America á Facebook og á Twitter og á YouTube
…öllu því sem er merkt #RSNA21 á Instagram
Svo er sérlega flottur möguleiki nota Virtual Meeting sem gefur aðgang að miklu efni, bæði í rauntíma og eftir að viðburðum lýkur. Í sumum tilvikum er boðið upp á gagnvirkni, fólk getur tekið þátt í umræðum og fengið spurningum svarað en tímamismunurinn gerir það ögn erfiðara fyrir fólk hér uppi á Íslandi 🙂
Það er nauðsynlegt að skrá sig til að nýta Virtual Meeting og það kostar u.þ.b. 38.000 íslenskar krónur en það ætti ekki að vefjast fyrir neinum vinnustað að greiða það í símenntun fyrir starfsmann.
Eftir að ráðstefnunni lýkur er efnið aðgengilegt til 30. apríl 2022.