Hugbúnaðarþróun Rafarnarins í nýtt félag
Raförninn ehf. hefur í 30 ár verið í fararbroddi í ráðgjöf, mælingum, viðhaldi og hugbúnaðargerð fyrir myndgreiningardeildir á heilbrigðissviði. Þann 1. janúar sl. var nýtt félag stofnað utan um hugbúnaðarþróun fyrirtækisins. Félagið nefnist Spectralis og hefur flutt inn í höfuðstöðvar móðurfélagsins, Verkís.
Raförninn mun áfram leggja áherslu á ráðgjöf, viðhald og mælingar á myndgreiningarbúnaði en með breytingunum nást fram skýrari áherslur á ólík svið og hagkvæmari rekstur sem skilar sér til viðskiptavinarins í styttri boðleiðum og mögulega hagstæðara verði.
Hugbúnaðarteymið á bak við Spectralis hefur um árabil þróað veflægar hugbúnaðarlausnir fyrir heilbrigðisgeirann þar sem áhersla er lögð á gagnasöfnun og -birtingu, gagnaöryggi og sjálfvirka gagnagreiningu til hámörkunar á rekstraröryggi. Markmiðið með nýju félagi er m.a. að kynna aukna hagkvæmni við notkun slíkra lausna í verkfræðigeiranum til að auka yfirsýn, skilvirkni og öryggi í rekstri hjá viðskiptavinum Verkís.“
Við breytingarnar fær Raförninn nýjan framkvæmdastjóra, Sigurð Hauk Bjarnason rafvirkjameistara, sem starfað hefur hjá fyrirtækinu um nokkurt skeið en fráfarandi framkvæmdastjóri Rafarnarins, Hildur Ólafsdóttir, er nýr framkvæmdastjóri Spectralis..