Geislandi vor 2021
Nýir geislafræðingar eru glæsilegur vorboði, ár hvert, og þriðjudaginn 18. maí síðastliðinn voru það sjö nemendur sem vörðu diplómaverkefni sín í geislafræði. Jónína Guðjónsdóttir, lektor á Geislafræðibraut Háskóla Íslands, sendi Arnartíðindum fréttir af diplómavörnunum.
Raförninn óskar nýju geislafræðingunum innilega til hamingju! Eins og strax má sjá af listanum yfir nöfn nemenda og verkefna þá voru verkefnin að venju fjölbreytt og áhugaverð:
Signý Haraldsdóttir – Flatargeislun í röntgenrannsóknum af lungum og kvið – er munur á milli tækja og staða?
Silja Haraldsdóttir – Vinnulag við röntgenrannsóknir af ökkla – Samanburður
Ólöf Árnný Þorkelsdóttir Öfjörð –Tölvusneiðmynd af höfði – Áhrif innstillingar á myndgæði
Ólöf Eir Jónsdóttir – Notkun geislavarna á sjúklinga í röntgenrannsóknum á myndgreiningadeildum Íslands
Silja Helgadóttir – TS þvagfærayfirlit – Fara sjúklingar með grun um nýrnasteina í réttan farveg til greiningar?
Hugrún Björnsdóttir – Samanburður innstillingar, skannlegnd og skuggaefnisþéttni í tölvusneiðrannsóknum á kvið hjá þremur stofnunum – Heilbrigðisstofnun Suðurlands og Orkuhúsið.
Andrea Hlín Guðnadóttir – Geislaskammtar í tölvusneiðmyndum af kransæðum – Samanburður milli staða og við eldri rannsóknir
Metnaðarfull verkefni og gagnlegar niðurstöður
Systurnar Signý og Silja Haraldsdætur riðu á vaðið þetta árið með tvö ólík verkefni. Signý skoðaði flatargeislun í röntgenrannsóknum af lungum og kviðarholi og komst meðal annars að því að flatargeislun í þessum rannsóknum er minni nú en hún var 2008, einnig að nokkur munur var á milli tækja og staða, þó ekki jafn mikill og búist var við.
Silja kannaði verkferla við röntgenrannsóknir af ökkla og komst að þeirri áhugaverðu niðurstöðu að þrátt fyrir að sömu fjórar myndirnar séu teknar víðast hvar þá er mismunandi hverjar þeirra eru teknar við hvaða ábendingar.
Ólöf Eir Jónsdóttir gerði líka rannsókn tengda almennum röntgenrannsóknum en hún kannaði með spurningakönnun notkun blývarna á röntgendeildum og hvort leiðbeiningar væru til staðar um notkun þeirra. Rannsókn hennar sýndi tölverðan mun á notkun blývarna á milli staða og að mikil þörf væri á samræmdum leiðbeiningum.
Silja Helgadóttir rannsakaði hvort farvegur sjúklinga sem komu í TS þvagfærayfirlit á röntgendeild Landspítala, frá Bráðamóttökunni, væri í samræmi við leiðbeiningar spítalans og komst að því að svo væri í minni hluta tilfella. Hún komst einnig að því að ef erlendar leiðbeiningar hefðu ráðið farvegi sjúklinga hefðu a.m.k. 36,1% þeirra farið í ómskoðun sem fyrstu rannsókn.
Hugrún Björnsdóttir rannsakaði mögulegar ástæður fyrir mun á milli staða á geislaskömmtum í tölvusneiðmyndum af kvið og komst að því að mismunur í innstillingu og skannlengd gæti skýrt hann, a.m.k. að einhverju leiti.
Ólöf Árnný Þorkelsdóttir Öfjörð rannsakaði einnig innstillingar í TS og fann óvæntan mun á milli tækja Landspítala á því hvernig það hefur áhrif á myndgæði þegar myndefni er ekki nákvæmlega í miðju.
Andrea Hlín Guðnadóttir komst að því að geislaskammtar í tölvusneiðmyndum af kransæðum hafa minnkað mikið frá því sem áður var og eru nú álíka á öllum stöðum sem gera slíkar rannsóknir á Íslandi.
Eins og oft áður hafa nemendur með rannsóknum sínum dregið mikilvæg atriði fram í dagsljósið og niðurstöðurnar verða vonandi nýttar vel til umbóta á röntgendeildum.
Arnartíðindi þakka Jónínu fyrir.
Hér fyrir neðan má sjá mestallan diplómahópinn en á myndina vantar Ólöfu Öfjörð.