Geislandi meistarar

 - Fréttir

Um daginn sögðum við frá lokaverkefnum geislafræðinga með diplómapróf, frá Háskóla Íslands, og eins og víða hefur mátt sjá fór útskrift frá HÍ fram um síðustu helgi. Í útskriftarhópnum voru líka geislafræðingar sem luku meistaraprófi og gat þar að líta metnaðarfullt fólk með glæsileg verkefni.

Á vefsíðu HÍ eru skemmtilegar fréttir af útskriftinni

Jónína Guðjónsdóttir, lektor á námsbraut í geislafræði, sendi stutta umfjöllun um meistaraverkefnin:

Hvorki meira né minna en sex geislafræðingar hafa varið meistaraverkefni við Læknadeild HÍ á vorönninni sem nú er að ljúka.  Fimm þeirra kynntu og vörðu verkefni sín í lok maí en ein vörnin fór fram í byrjun mars.  Geislafræðingarnir og verkefnin þeirra eru:

Elías Jóhannesson: Röntgenmyndataka af barni í hitakassa: Viðhorf starfsfólks og kerfisbundið yfirlit fræðirita.  Elías dró þá ályktun af sínum niðurstöðum að ef röntgendeild og Vökudeild vinna í sameiningu að stöðluðum verkferlum fyrir röntgenrannsókn af barni í hitakassa og veita í kjölfarið geislafræðingum og hjúkrunarfræðingum aukna fræðslu um staðlaða verkferla muni það draga úr áhyggjum starfsfólks vegna myndatökunnar og áreiti og geislaálag sjúklinga á Vökudeild muni minnka.

Helena Ýr GunnarsdóttirÞátttaka kvenna í skimun fyrir brjóstakrabbameini á Íslandi.  Hvað hefur áhrif á þáttökuna? Rannsókn Helenu sýndi að helsta ástæða þess að konur mæta ekki í skimun eða láta lengri tíma en 24 mánuði líða á milli skimana er framtaksleysi og tímaskortur.

Hrafnhildur Karla Jónsdóttir: Má lækka geislaskammta á LSH? Tölvusneiðmyndir af brjóstholi. Hrafnhildur komst að því að tölvusneiðmynd af brjóstholi, gerð er með mun lægri geislaskammti en venja hefur verið, gefur í langflestum tilvikum fullnægjandi myndgæði fyrir allar stærðir sjúklinga.

Oddný Árnadóttir: Nýting jáeindaskanna og framleiðsla á geislalyfjum á Landspítala – Háskólasjúkrahúsi.  Oddný kannaði meðal annars áhuga sérfræðinga á nýjum geislalyfjum og hvernig mætti halda mætti áfram að auka fjölda rannsókna t.d. með betri nýtingu á 18F-FDG framleiðslu hvers dags.

Sandra Mjöll GuðmundsdóttirÁreiðanleiki segulómunar samanborið við brjóstamyndatöku. Sandra fann ekki mun á milli segulómunar og brjóstamyndatöku á fjölda greindra hnúta, né þegar stærð hnúta í brjóstum var mæld.  Segja má að hvor aðferðin fyrir sig hafi komið vel út við endurteknar mælingar en þess ber þó að geta að úrtakið var lítið og einungis einn aðili las úr öllum rannsóknum.

Sigurbjörg Sigurðardóttir Michelsen: Algengustu ábendingar í tölvusneiðmyndatækni á Íslandi og geislaskammtar þeirra, undirbúningur fyrir setningu landsviðmiða. Rannsókn Sigurbjargar sýndi að algengustu ábendingar fyrir tölvusneiðmyndum á Íslandi eru líkar því sem gerist erlendis og í flestum tilvikum einnig miðgildi lengdargeislunar fyrir hverja ábendingu, en geislaskammtar voru nokkuð ólíkir á milli staða.  Sigurbjörg gerði tillögur að landsviðmiðum fyrir 17 ábendingar (fimm líkamssvæði).

Arnartíðindi óska nýju meisturunum til hamingju og þakka Jónínu fyrir.