Geislandi jólakveðjur !

 - Fréttir

Við Rafernir sendum innilegar jólakveðjur til alls þess góða fólks sem við eigum samskipti við í vinnunni. Hafið það sem allra best með þeim sem ykkur þykir vænt um!
Til gamans er hér á eftir smá umfjöllun um ljólaljós, sem gæðastjóri Rafarnarins setti saman.

Ljós og alvöru ljós
Jólin eru oft kölluð hátíð ljóssins og hjá þeim sem lifa í tækniheimi, eins og myndgreiningarfólk gerir, tengist ljósið að sjálfsögðu rafmagni, perum, leiðslum og tölvum! Þegar allt þetta kemur saman getur árangurinn orðið afar skemmtilegur. Það er hverjum manni hollt að bæta sífellt við þekkingu sína og á þessum árstíma er upplagt að læra dálítið um sögu ljólaljósanna og hvernig þau virka.
Undanfarar rafmagnsljósanna voru að sjálfsögðu kertin en sem sannir tæknimenn höfum við engan áhuga á þeim. Það mætti svosem velta ögn fyrir sér eðlis- og efnafræði í sambandi við bruna, árangri af mismunandi efnum í kveik og bera saman ýmsa eiginleika tólgar, bývax og stearínkerta en við skulum bara vinda okkur strax í alvöru ljós!

Jólaljós frá tímum Edisons
Það var um miðja nítjándu öld sem rafmagn varð nógu aðgengilegt til að farið væri að nota rafljós til skrauts og yndisauka. Fyrsti maðurinn sem vitað er til að hafi skreytt jólatré heimilisins með rafljósum var Edward H. Johnson, viðskiptafélagi Thomas Edison, sem lét sérsmíða fyrir sig perur til þessara nota og dundaði sér svo við að tengja víra þar til 80 rauð, hvít og blá ljós voru komin á tréð.
Fyrstu fjöldaframleiddu jólaseríurnar komu á markað um aldamótin 1900 og það er General Electric sem getur státað af að hafa framleitt þær.
Ýmislegt um sögu jólaljósa og hvernig eldri gerðir þeirra virka má lesa um í Wikipediu og fyrir þá sem þyrstir í meira um tæknina að baki ljólaljósum standa upplýsingar á HowStuffWorks svo sannarlega fyrir sínu. 

Ljós og orka
Lengi vel voru rafmagnsljós til jólaskreytinga ekkert sem almúginn hafði efni á en á meginlandi Evrópu og í Bandaríkjunum voru þau þó orðin algengari en kertaljósin um 1930. Reikna má með að Íslendingar hafi byrjað að nota rafmagns-jólaljós fljótt eftir að önnur raflýsing varð algeng hérlendis, þ.e. um 1940, en fjárhagur og búseta væntanlega ráðið miklu um útbreiðslu þeirra. Enn óar sumum við rafmagnsreikningnum eftir hátíðirnar þó nútíma jólaljós séu stórum sparneytnari en gömlu glóðarperurnar. Díóðuljósin (LED) nota aðeins brotabrot af þeirri orku sem eldri gerðir þurfa.
Úti í heimi er bæði umhverfisvænt og ódýrt að láta  jólaljósin ganga fyrir sólarorku en þar sem gráföl dagsbirtan á Íslandi um jólaleytið spannar aðeins um fjórar klukkustundir og sólin nær varla, eða alls ekki, að kíkja upp fyrir fjallstindana er hætt við að það gæti gengið illa hjá okkur.

Snjallheimili og fleira
Það er verðugt verkefni fyrir íslenska tækninörda að gera jólaljósin á heimilinu, bæði utandyra og innan, að tölvustýrðum hátækni jóla-ljósasýningum með dúndrandi tónlist, eins og kollegar þeirra erlendis hafa löngum verið að dunda sér við.
Þetta er sýning af eldri gerðinni sem er gott dæmi um hvað mönnum tókst að gera með hefðbundnum seríum. 
Núna eru LED ljósin, díóðuljós, að taka yfir og með þeim opnuðust nýjar víddir í nördaskap! Margir eru þegar byrjaðir að snjallvæða lýsingu og ýmislegt annað á heimilum sínum og ljólaljósasýningar smellpassa þar inn í. Það er hægt að fá óteljandi gerðir af díóðuljósum sem hentugt er að stjórna með Raspberry Pi eða einhverju álíka. Snjallinnstungur, snjallperur, snjallir myndvarpar o.s.fr. eru hrein dásemd fyrir snjalla tækninörda. Það er hægt að hafa þær stöllur Siri og Alexu með í fjörinu ef vill eða nota Google Assistant en raddstýring án þeirra er líka í boði. Flottheitunum má stýra með snjallsímanum, nú eða snjallúrinu, nota fyrirfram gerðar stillingar í hinum ýmsu öppum eða semja sína eigin sýningu. Auðvitað semur hver einasti tæknimaður með nokkra sjálfsvirðingu sína eigin sýningu!
Að sjálfsögðu er í boði að láta öll ljósin blikka og dansa og slokkna og kvikna í takt við tónlist, þannig að ljólalögin koma sterk inn. Hér eru reyndar ekki notuð jólalög en sýningin er geggjuð!
Myndvarparnir eru enn ein snilldin. Engin þörf á að klifra út um allt hús að festa upp ljósaseríur og LED borða, bara varpa öllum heimsins litbrigðum, myndum og munstrum beint á veggi og þak. Nú eða láta Santa Claus og hreindýrin hans fljúga um og varpa jólapökkum niður til fjölskyldu og gesta.
Og ef maður er borgarstjóri í Dallas í Texas, þá getur maður látið búa til jólaljósasýningu með svosem einsog 160 fljúgandi drónum

Tækninördar Rafarnarins senda ykkur bestu kveðjur um gleðileg jól!