Gæðavísir – Sífellt snjallari
Myndgreiningarfólk hjá flestum viðskiptavinum Rafarnarins kannast við Gæðavísi, veflægu gæðahandbókina sem fyrirtækið býður upp á. Eftir nýjustu uppfærslu reiknum við með að allir notendur sjái talsverða breytingu, bæði þeir sem vinna á myndgreiningardeildum sem eru með sína eigin gæðahandbók í Gæðavísi og þeir sem eingöngu nota almenna hlutann sem er öllum opinn.
Uppfærsla með óvenju áberandi breytingum
Efni Gæðavísis er að sjálfsögðu yfirfarið og uppfært reglulega og tryggt að undirliggjandi kerfi virki vel en nýlega var gerð óvenju stór uppfærsla og breytingar eru sýnilegri fyrir notendur en oftast er.
Fram að þessu hefur Gæðavísir virkað áberandi best á hefðbundnum tölvum, þó hægt hafi verið að nota hann á spjaldtölvum og snjallsímum. Eftir nýjustu uppfærslu er annað uppi á teningnum og Gæðavísir orðinn hinn þægilegasti á öllum þeim tækjum sem fólk vill nota til að skoða hann.
Við vonumst til þess að þetta geri myndgreiningarfólki auðvelt að nýta efnið hvar sem er, meðal annars inni á röntgenstofu þegar verið er að mynda sjúkling.
Virkar mun betur á snjalltækjum
Í frétt Arnartíðinda fyrir skömmu var enn einu sinni minnst á hve mikilvæg ákvarðanastuðningskerfi, leiðbeiningar og annað slíkt eru fyrir alla og hvað slíkt efni getur gert mikið fyrir öryggi bæði sjúklinga og starfsfólks.
Geislafræðingar voru oft með litla bók uppá vasann í vinnunni, með allskyns leiðbeiningum og minnispunktum og markmiðið hefur alltaf verið að Gæðavísir gæti leikið svipað hlutverk í daglegri vinnu alls myndgreiningarfólks. Nú þegar segja má að hver einasti maður sé alltaf með símann í vasanum og Gæðavísir virkar vel á öllum snjalltækjum er leiðin greið til að hafa leiðbeiningar við höndina hvar og hvenær sem er.
Ábendingar vel þegnar
Við hvetjum myndgreiningarfólk til að skoða Gæðavísi á síma og tökum fagnandi öllum fréttum um hvernig hann virkar, ásamt ábendingum um það sem betur mætti fara.