Frábær mæting á vandaðan fyrirlestur um geislavarnir
Geislavarnir ríkisins og námsbraut í geislafræði við HÍ, ásamt fagfélögum röntgenlækna og geislafræðinga, stóðu fyrir mjög áhugaverðum viðburði þann 6. september sl., þar sem vísindaritari Alþjóða geislavarnaráðsins, Christopher Clement, hélt vandaðan fyrirlestur og fjallaði meðal annars um ráðleggingar um geislavarnir sjúklinga og heilbrigðisstarfsmanna, með sérstakri áherslu á réttlætingu notkunar og viðmið um geislaskammta.
Upptaka af fyrirlestrinum er aðgengileg á vefsíðu Geislavarna ríkisins.
Frábær þátttaka, nær og fjær
Greinilegt var að myndgreiningarfólk hafði mikinn áhuga á þessum viðburði og giskar ritstjóri Arnartíðinda á að a.m.k. 60 manns hafi mætt á staðinn. Auk þess var því sem fram fór streymt til Sjúkrahússins á Akureyri, þar sem góður hópur fylgdist með.
Fyrir þá sem komust á staðinn buðu Félag íslenskra röntgenlækna og Félag geislafræðinga upp á veitingar áður en fyrirlesturinn hófst og skapaðist sérlega góð stemning í hinu glæsilega húsnæði Veröld – Hús Vigdísar. Aldrei verður of oft minnst á hve mikilvægt er fyrir fagið að myndgreiningarfólk fái tækifæri til óformlegra samskipta auk skipulagðrar símenntunar.
Allt skipulag og umgjörð var til fyrirmyndar og mega skipuleggjendur vera mjög stoltir af vinnu sinni.
Alfræði ICRP
Myndgreiningarfólk kannast vel við Alþjóða geislavarnaráðið, ICRP, enda eru ráðleggingar þess undirstaðan í öllum leiðbeiningum og öðru sem stýrir geislavörnum í læknisfræðilegri myndgreiningu. Í inngangi að fyrirlestri sínum sagði Christopher meðal annars að starf ráðsins byggði á þremur máttarstólpum; vísindum, siðfræði og reynslu, og er óhætt að slá því föstu að myndgreiningarfólk vilji gjarna byggja vinnu sína á þeirri undirstöðu.
Starfsemi ráðsins er mjög umfangsmikil og skiptist í nokkrar einingar en Christopher sagði að hlutverki vísindaritarans mætti líkja við starf framkvæmdastjóra, CEO, þar sem hann bæri ábyrgð á daglegum rekstri heildarinnar. ICRP kemur að öllu því sem viðkemur geislun, hvar sem er, meðal annars í kjarnorkuverum og geimferðum en grundvallarmarkmiðin eru alltaf þau sömu og má t.d. kynna sér þau í ICRPaedia sem á íslensku mætti kalla Alfræði ICRP.
Réttlætingin í hávegum
Það er nefndin Committee 3 innan ICRP sem sinnir því sem að læknisfræðilegri geislun snýr. Í yfirliti sem Christopher sýndi mátti sjá að langstærsti hluti geislaálags á þjóðir heims kemur frá læknisfræðilegri geislun og sem dæmi um það má nefna að árlegt meðalgeislaálag á fólk við vinnu, t.d. þá sem vinna í kjarnorkuverum, er u.þ.b. 100 sinnum minna en af læknisfræðilegu geisluninni.
Hann undirstrikaði að mikilvægt væri að láta þetta þó ekki villa sér sýn, heldur hafa í huga að læknisfræðilega geislun er auðvelt að réttlæta vegna gagnsins sem fólk hefur af notkun hennar. Meðal annars sagði hann að málið snerist alltaf um hvort sjúklingurinn væri að græða á notkun geislunarinnar, hvort geislaálaginu væri haldið eins lágu og mögulegt er m.t.t. aðstæðna (as low as resonably achievable) og öllum mögulegum ráðum beitt til að koma í veg fyrir slys. Þetta þrennt sagði hann að væri almennt uppfyllt, þó undantekningar mætti að sjálfsögðu finna.
Bestunin byrjar í hönnunarferlinu
Sem starfsmanni tækni- og ráðgjafarþjónustufyrirtækis þótti ritstjóra Arnartíðinda sérlega áhugavert að heyra vísindaritara ICRP undirstrika að fyrsta skref geislavarna í læknisfræðilegri myndgreiningu væri hönnun og bygging aðstöðu, val á tækjabúnaði og uppsetning á honum. Þar næst kæmi gerð „prótókolla“ og síðan verkferlar við dagleg störf.
DRL
Christopher fjallaði sérstaklega um „Diagnostic Reference Levels“, DRL, sem eru viðmið um geislaskammt af tiltekinni tegund rannsóknar, t.d. TS af kviðarholi. Tilgangurinn með þeim er að myndgreiningardeildir geti borið meðaltalsskammta úr eigin rannsóknum saman við það sem dæmigert er annarsstaðar. Hann undirstrikaði að þetta væru ekki hámörk sem ekki mætti fara fram úr og ætti heldur ekki við rannsóknir á einstökum sjúklingum.
Innan skamms kemur út hjá ICRP ritið „Publication 135: Diagnostic Reference Levels in Medical Imaging“ þar sem hægt verður að sjá viðmið ráðsins og benti Christopher sérstaklega á DRL fyrir rannsóknir á börnum, þar sem skipt væri í þyngdarflokka (weight bands) til að koma til móts við mikinn breytileika innan sjúklingahópsins.
Þess má geta að á NCR ráðstefnunni í Reykjavík sl. sumar fjallaði dr. Raija Seuri frá Finnlandi um geislaskammtabestun og DRL, sem e.t.v. mætti kalla geislaskammtaviðmið á íslensku. Hún er einmitt sérfræðingur í myndgreiningu barna og sagði áhyggjuefni hversu mikið ósamræmi væri ennþá í geislaskömmtum við samskonar rannsóknir.
Góður fyrirlesari með skemmtilegt efni
Christopher náði vel að halda athygli fólks og augljóst að þar var vanur og hæfileikaríkur fyrirlesari á ferð. Margt fleira en ofangreint kom fram enda fyrirlesturinn í heild efnismikill og skemmtilegur. Of langt mál yrði að telja það allt upp hér en að lokum má þó minnast á rit nr. 113, „Education and Training in Radiological Protection for Diagnostic and Interventional Procedures“ sem fjallar um menntun og þjálfun þeirra sem vinna með jónandi geislun í læknisfræði.
Upptaka aðgengileg á gr.is
Geislavarnir ríkisins eru með upptöku af fyrirlestrinum aðgengilega á vefsíðu sinni og gefa þannig þeim sem á hlýddu frábært tækifæri til að rifja upp og þeim sem misstu af fyrirlestrinum gott færi á að kynna sér efnið.
Ritstjóri Arnartíðinda þakkar skipuleggjendum og öðru myndgreiningarfólki kærlega fyrir góðan fund.