Fólk og þjónusta í sumar
Bryndís Eysteinsdóttir hefur fært sig um stað hjá fyrirtækinu, hún starfar ekki lengur sem þjónustustjóri en beinir kröftum sínum í ýmis sérverkefni fyrir viðskiptavini okkar, sem snúa að ráðgjöf og hönnun. Raförninn þakkar Bryndísi frábær störf fram að þessu og það er mikils virði fyrir fyrirtækið að hafa hana áfram í þeim samhenta og góða hópi sem starfsfólk Rafarnarins er.
Rétta fólkið í öll verkefni
Starfsfólk Rafarnarins er sérlega góð blanda af einstaklingum á breiðu aldursbili, með fjölbreytta þekkingu og reynslu. Starfsaldur spannar allt frá fáum mánuðum upp í 35 ár, menntun fólksins nær yfir bæði tæknihlið og læknisfræðilega hlið þeirrar starfsemi sem fyrirtækið þjónar og við þorum að fullyrða að hópur með víðtækari reynslu á sínu sviði er vandfundinn.
Að svo stöddu hefur þeim verkefnum sem Bryndís sleppir takinu á verið deilt á annað starfsfólk, innan Rafarnarins og Verkís.
Sumar, frí og vinna
Í sumar kemur Anton Þór Ólafsson ferskur inn í verkefni Rafarnarins, á meðan hann er í sumarleyfi frá náminu sínu við háskólann í Umeå í Svíþjóð. Anton hefur unnið hjá fyrirtækinu með hléum allt frá árinu 2015 og er því öllum hnútum kunnugur.
Aðrir halda sínu striki og búið er að leggja óvenju mikla vinnu í verkáætlanir og sumarleyfaskipulag þetta sumarið, þar sem stór og fjölbreytt verkefni eru í gangi en að sjálfsögðu þurfa Rafernir einstöku sinnum á fríi að halda eins og annað fólk.
Eins og alltaf stefnum við á að þjónustan sé algerlega óskert yfir sumarmánuðina og hlökkum til að taka þátt í skemmtilegum verkefnum með starfsfólki viðskiptavina okkar.