- This event has passed.
Læknadagar 2019
21/01/2019 - 25/01/2019
Á Læknadögum er margt áhugavert fyrir allt heilbrigðisstarfsfólk.
Allir heilbrigðisstarfsmenn eru velkomnir á Læknadaga og hægt er að kaupa aðgang að dagskrá í Hörpu þegar ráðstefna hefst. Skráningarborðið og miðasala er opið alla dagana á meðan á ráðstefnu stendur. Eingöngu dagpassar eru þó í boði en dagpassinn kostar kr. 13.000. Ekki er hægt að kaupa sig inn á staka fyrirlestra eða hálfan dag.
Það er mælt með því að mæta snemma ef gestir eru að kaupa sér passa á staðnum þar sem raðir geta myndast nokkrum mínútum áður en fyrirlestrar hefjast. Það má einnig nefna að ekki er hægt að senda reikning á fyrirtæki fyrir þátttökugjöldum heldur þarf að greiða þátttökugjöld við skráningu.
Þeir sem vilja meiri upplýsingar geta haft samband við radstefnur@icelandtravel.is
Dagskrána má m.a. finna í Læknablaðinu og ritstjóri Arnartíðinda tók í fljótheitum saman yfirlit um dagskrárliði sem gætu vakið áhuga flestra:
Mánudaginn 21. janúar eru hádegisverðarfundir með fókus á samskipti milli heilbrigðisstétta og innan þeirra. Seinnipartinn má t.d. benda á umfjöllun um teymisvinnu, þróun hennar og framtíðaráskoranir.
Allir vilja geta notið efri áranna, með heilann í góðu lagi, og þess vegna má benda á að á þriðjudagsmorgni er meðal annars fjallað um aðferðir sem fólk getur notað alla ævi til að minnka líkur á heilabilun. Seinnipart dagsins er t.d. hægt að fræðast um niðurstöður könnunar á líðan og starfsaðstæðum lækna á Íslandi.
Fyrri hluta miðvikudags eru a.m.k. tvær fyrirlestraraðir áhugaverðar fyrir alla; annarsvegar er fjallað um langvinna, útbreidda stoðkerfisverki, m.a. af völdum vefjagigtar, og hinsvegar er umfjöllun um ofbeldi. Seinnipartinn má m.a. benda á fyrirlestraraðir um augnþurrk og um óvinnufærni og kl. 16:20 er mjög áhugaverður dagskrárliður þar sem tíu heimilislæknar á ýmsum aldri og frá ýmsum stöðum segja frá eftirminnilegum atvikum úr starfi sínu. Á miðvikudagskvöld er svo fundur opinn almenningi þar sem fjallað er um bólusetningar á Íslandi.
Heilsa og líðan læknanema og lækna er í brennidepli fyrripart fimmtudagsins 24. janúar og í hádeginu er fundur þar sem áhugaverð fullyrðing kemur fram í yfirskrift: „Rafræn skráning sjúklinga er einn helsti streituvaldur lækna í starfi, hvað er til ráða?“ Fundurinn er á vegum styrktaraðila og er forvitnilegt að vita hvað kemur fram á honum.
Á föstudagsmorgninum er meðal annars hægt að fræðast um fjarheilbrigðisþjónustu á Íslandi, sem er mjög áhugavert í landi með dreifðri byggð og oft erfiðum samgöngum. Seinnipart föstudags má svo benda á skemmtilega fyrirlestraröð þar sem tekin eru fyrir, bæði í gamni og alvöru, áföll og áfallastreita í bókmenntum fyrri alda. Læknadögum lýkur svo með skemmtun á föstudagskvöldi.