Endurnýjun CT á Selfossi gengur vel
Á myndgreiningardeild HSu á Selfossi er verið að setja upp nýtt tölvusneiðmyndatæki sem leysir eldra tæki af hólmi. Raförninn fékk það ánægjulega verkefni að halda utanum bæði undirbúning og framkvæmd endurnýjunarinnar og hefur það gengið eins og best verður á kosið, í góðri samvinnu allra sem að hafa komið.
Ánægjulegt að taka þátt í framþróun
Kominn var tími til að endurnýja gamla tölvusneiðmyndatækið á Selfossi en það var tekið í notkun þar árið 2010 og hafði áður þjónað í sex ár á LSH, þar sem tækniþjónusta við það var í höndum Magnúsar Guðjónssonar, núverandi starfsmanns Rafarnarins. Starfsfólk Rafarnarins lagði einnig hönd á plóginn þá, m.a. við að taka tækið niður á LSH, aðstoða við hönnun á aðstöðu og setja tækið upp á Selfossi, auk þess að sjá um tækniþjónustuna upp frá því.
Það er alltaf jafn ánægjulegt að fá að taka þátt í framþróun myndgreiningar á Íslandi.
Breytingar og endurnýjun hjá HSu
Gjafasjóður HSu kaupir nýja tækið og er það Toshiba tæki af gerðinni Aquilion Lightning, keypt af Raflandi sem er umboðsaðili Toshiba á Íslandi.
Breytingar hafa staðið yfir á húsnæði HSu á Selfossi, þar sem rannsóknadeild og myndgreiningardeild eru til húsa, og því hagkvæmt að endurnýjun á tölvusneiðmyndastofu og búnaði í henni færi fram um leið. Um leið er verið að ljúka breytingum á röntgenstofunni en á henni var gerð gagnger endurnýjun þegar nýtt röntgentæki kom til sögunnar haustið 2016, eins og sjá má í frétt af eldri vefsíðu Rafarnarins.
Undanfarið hafa Rafernir m.a. unnið við að taka gamla tækið niður og tekið þátt í skipulagningu á breytingum á stofunni. Verkefnið er unnið í góðri samvinnu við vaskan hóp fólks frá HSu og ýmsum öðrum, þar sem hver hefur sitt mikilvæga hlutverk. Þeir Rafernir sem mest hafa komið að verkefninu eru Magnús Guðjónsson, Sigurður Rúnar Ívarsson og Daníel Sigurðsson, ásamt Smára Kristinssyni sem lagði fram ráðgjöf við undirbúning.
Föstudaginn 17. nóvember sl. náðist stór áfangi, þegar nýja tækið kom á staðinn og var tekið inn á myndgreiningardeildina. Þar gekk maður undir manns hönd og árangurinn lét ekki á sér standa, tækið komst fljótt og áfallalaust á sinn stað. Tæknimaður frá framleiðanda kom svo til landsins strax eftir helgi og nú er unnið að því að ljúka uppsetningu og koma rannsóknum í gang eins fljótt og hægt er.
Góð aðstaða og frábær þjónusta
Þegar öllum breytingum á húsnæði, ásamt endurnýjun tækjabúnaðar, verður lokið má reikna með að aðstaða fyrir sjúklinga og starfsfólk verði eins og best verður á kosið þjónusta HSu enn betri en áður. Við hlökkum til að flytja fréttir af framhaldinu.