ECR 2019

 - Fréttir

European Congress of Radiology, í Vínarborg, er stærsti viðburður í evrópska myndgreiningarsamfélaginu ár hvert og verður metnaðarfyllri með hverju árinu. Það er ekki síst að þakka fagfólki í undirbúningsnefndum og þar leggjum við Íslendingar hönd á plóg.

ECR 2019 er 25. ráðstefnan, stendur yfir dagana 27. febrúar til 3. mars og er, eins og áður, haldin í hinni glæsilegu ráðstefnuhöll Austria Center Vienna.

Sérlega vönduð dagskrá
Það er European Society of Radiology (ESR) sem heldur ráðstefnuna og dagskráin er fjölbreytt og efnismikil. Hún er að sjálfsögðu aðgengileg á vefsíðu ráðstefnunnar og til gamans má nefna að hægt er að velja úr um 400 fyrirlestrum, öðrum eins fjölda af kynningum á vísindarannsóknum og um 3000 rafrænum “posterum”. Svo er hægt að skoða myndgreiningarbúnað og annað sem tengist faginu hjá um 300 sýnendum á 26 þúsund fermetra sýningarsvæði. Fyrir utan ýmsa aðra hluti sem hægt er að sjá, heyra og upplifa.

Fulltrúi Íslands í undirbúningi ráðstefnunnar
Hver og einn grunnflokkur (topic) í vísindadagskrá ECR á sína undirbúningsnefnd (scientific subcommittee) sem vinnur í um tvö ár að undirbúningi dagskrárinnar. Einn af þessum flokkum er efni sem sérstaklega er beint að geislafræðingum og þar eigum við Íslendingar góðan fulltrúa í undirbúningsnefnd, Maríönnu Garðarsdóttur röntgenlækni.

Formaður nefndarinnar er geislafræðingurinn Andrew England, frá Englandi, og nefndin vinnur í samstarfi við samtök evrópskra geislafræðingafélaga, The European Federation of Radiographer Societies (EFRS).
Búið er að setja saman einstaklega metnaðarfulla dagskrá fyrir geislafræðinga og að sjálfsögðu er yfirlit um hana á vefsíðu ráðstefnunnar. Út frá þessu yfirliti er svo hægt að skoða afmarkaðri hluta dagskrárinnar.

Maríanna segir að nefndarstarfið sé skemmtilegt og fjölbreytt. Fyrst er unnið í skipulagningu á stærri dagskrárliðum og svo þegar útdrættir (abstractar) hafa skilað sér inn þarf að fara yfir þá alla og velja þá sem verða kynntir á ráðstefnunni.
Sem dæmi um sérlega áhugaverð atriði í dagskránni nefnir hún Professional Challenges Session, þar sem meðal annars er fjallað um leiðir til að viðhalda áhuga og metnaði, vinna gegn leiða og forðast að brenna út í starfi. Einnig bendir Maríanna á spennandi fyrirlestra og fleira um samsetta myndgreiningartækni, Hybrid Imaging, auk ýmissa dagskrárliða um geislavarnir og önnur öryggismál.

Síðast en ekki síst vildi Maríanna undirstrika að alltaf væri einstaklega áhugavert og gaman að fylgjast með geislafræðingum kynna sínar eigin rannsóknir.

Tuttugasta og fimmta ECR ráðstefnan
Í ár er ECR ráðstefnan haldin í 25. sinn og í tilefni af því er opnunarhátíðin sérlega viðamikil og glæsileg. Hún er haldin miðvikudaginn 27. febrúar, klukkan 17:45, í Hall A í Austria Center Vienna og er þar á ferð sannkölluð veislu fyrir öll skilningarvit, þar sem þema opnunarhátíðarinnar er „5 senses“.

Meðal annars sem tengist aldarfjórðungsafmæli ECR er nýr dagskrárliður, Women in Focus, sem inniheldur ýmislegt tengt konum sem starfa í myndgreiningu og öðrum greinum heilbrigðisþjónustu. Virtir fyrirlesarar koma frá öllum heimshornum og sjónum verður meðal annars beint að konum sem leiðtogum, vinnu við krefjandi aðstæður og því sem aðgreinir og sameinar mismunandi kynslóðir kvenna í heilbrigðisþjónustu.   

Þó það sé ekki nýtt í ár er þess þó ánægjulegt að geta að á 25 ára afmælinu er lögð enn meiri áherlsa á að ECR ráðstefnan hefur vottun sem „Green Meeting“ frá Österreichisches Umweltzeichen og ráðstefnugestir eru hvattir til að hafa hag umhverfisins í hávegum á ferðum sínum.

Aðgengi að efni frá ráðstefnunni
Arnartíðindi eru komin með nokkurn fjölda nafna á ECR listann sinn, og það væri gaman að fá að vita ef fleiri héðan eru staddir á ECR 2019.  

Þeir sem heima sitja geta fylgst með á ECR Online, þar sem boðið verður upp á beinar útsendingar á meðan ráðstefnan stendur yfir. Einnig er hægt að horfa á upptökur frá dagskrárliðum og sú leið verður áfram opin að ráðstefnunni lokinni. Þessi þjónusta er ókeypis og yfir 1500 dagskrárliðir aðgengilegir!

ECR er á samfélagsmiðlunum, eins og vera ber, og ýmislegt að gerast á YouTube og Facebook og Twitter.

Minna frænka í Evrópu bregst ekki, með sitt sígilda “RADCast” frá ECR 2019 þar sem hægt er að skoða fréttir, viðtöl, ljósmyndir, video og allt sem nöfnum tjáir að nefna.

Ekki má svo gleyma að skipuleggjendur ECR hafa löngum verið í fararbroddi með að veita aðgang að efni frá ráðstefnunum eftir að þeim lýkur og reikna má með að efni frá ECR 2019 birtist í Past Congresses á vikunum eftir ráðstefnu.

Arnartíðindi þakka öllum sem sendu upplýsingar á ECR listann og Maríönnu fyrir innlegg í fréttina.