Doktorsritgerð um myndgreiningu heilaöldrunar
Sigurður Sigurðsson, geislafræðingur hjá Myndgreiningu Hjartaverndar, varði doktorsritgerð sína „Neurovascular Imaging Markers of Brain Aging“ við Háskólann í Leiden, Hollandi, þann 21.febrúar sl. Aðalleiðbeinandi var Mark van Buchem frá Háskólanum í Leiden og meðleiðbeinandi var Lenore Launer frá Öldrunarstofnun bandarísku heilbrigðisstofnunarinnar.
Uppistaða ritgerðarinnar er safn átta áður útgefinna vísindagreina úr Öldrunarrannsókn Hjartaverndar þar sem birtar eru m.a. niðurstöður um tíðni öldrunartengdra breytinga í heila ásamt áhættuþáttum og afleiðingum þeirra. Tvær af greinunum fjalla um bestun myndvinnsluaðferða til að mæla rýrnun og blóðfæði í heila aldraðra.
Þessar átta greinar eru afrakstur vinnu fjölda starfsmanna og rannsakenda frá mörgum löndum og stofnunum, m.a. Landspítala Háskólasjúkrahúsi.
Á meðal helstu niðurstaða er að algengi og nýgengi blóðþurrðar og örblæðinga í heila er á bilinu 18-32% í aldurshópnum 67-90 ára. Einstaklingar með slíkar breytingar eru allt að þrefalt líklegri til að fá heilabilun miðað við þá sem ekki hafa slíkar breytingar. U.þ.b. 95% af einstaklingunum höfðu ekki verið greindir klínískt með breytingarnar fyrir þátttöku í Öldrunarrannsókninni.
Það er ályktun rannsakenda að með réttum forvörnum megi fækka verulega tilfellum þar sem aldraðir fá heilablóðþurrð og örblæðingar í heila, m.a. með meðhöndlun háþrýstings, blóðfita og blóðsega í samræmi við klínískar leiðbeiningar og með bættum lífsstíl.
Ritgerðin hefur verið gerð aðgengileg rafrænt á bókasafni Háskólans í Leiden: https://hdl.handle.net/1887/3564753
Full ástæða er til að vekja sérstaka athygli á forsíðu ritgerðarinnar en hana prýðir ljósmynd af móður hins nýbakaða doktors, glæsilegri 90 ára konu, og myndina tók Gyða S. Karlsdóttir geislafræðingur hjá Hjartamiðstöðinni. Gyða hefur getið sér orð fyrir einstaklega góðar ljósmyndir og verk hennar prýða meðal annars húsnæði Myndgreiningar Hjartaverndar.
Sigurður vildi koma á framfæri þökkum til þeirra fjölmörgu starfsmanna og rannsakenda sem eiga heiðurinn af vísindagreinum þeim sem hann notaði við gerð doktorsritgerðarinnar og einnig til þátttakenda í Öldrunarrannsókninni.
Starfsfók Rafarnarins óskar Sigurði innilega til hamingju með doktorsprófið og við hlökkum til áframhaldandi samstarfs.
.
Þessar myndir frá athöfninni tók Kolbrún Kjartansdóttir og fær hún kærar þakkir fyrir.