Covid-móbílar og nýtt röntgentæki á LSH
Markmið Rafarnarins er að veita viðskiptavinum bestu mögulega þjónustu, hvort sem tímarnir eru fordæmalausir eða ekki. Á meðan mest álag var vegna Covid-19 leysti starfsfólk Rafarnarins og LSH í sameiningu bæði venjuleg verkefni við óvenjulegar aðstæður og… óvenjuleg verkefni.
Myndgreiningarbúnaður hættir ekki að þurfa tækniþjónustu þó heimsfaraldur geysi og hjá öllum viðskiptavinum héldu Rafernir áfram að sinna nauðsynlegum verkefnum þó strangar ráðstafanir væru gerðar vegna Covid-19. Farið var vandlega eftir vinnureglum sem settar voru upp á hverjum stað, auk þess sem gripið var til ýmissa ráðstafana innan Rafarnarins.
Á Landspítala þurfti, eins og alltaf, að sinna tilfallandi viðgerðum og óhjákvæmilegum viðhaldsverkum og með góðum smitvörnum gengu þessi verk ótrúlega smurt. Þar fyrir utan var í gangi endurnýjun á heilli röntgenstofu á Hringbraut og í ofanálag varð fljótlega ljóst að sjúkrahúsið þyrfti á að halda fleiri færanlegum röntgentækjum en voru í notkun.
Endurnýjun á hefðbundinni röntgenstofu á Hringbraut
Nýja tækið sem verið var að setja upp er Canon/NRT Adora DRI og er nú komið í fulla notkun. Að sögn starfsfólks á staðnum er það góð endurnýjun í hópi þeirra tækja sem notuð eru allan sólarhringinn, alla daga. Það er vinnuvistfræðilega gott, m.a. allar hreyfingar sjálfvirkar, og einfalt í notkun. Þetta er fjórða tækið sömu tegundar sem nú er á myndgreiningardeildum LSH, auk þess sem færanlegu tækin eru með samskonar vinnuumhverfi (interface). Að það sé svipað að vinna við sem flest tæki kemur sér mjög vel, starfsfólk á auðveldara með að vinna hvar sem er, nýtt fólk er fljótara að ná hæfni og fljótlegra er að innleiða ný tæki.
Starfsfókið segir að þetta hafi til dæmis komið sér vel þegar Covid-19 brast á því kennsla á nýja tækið þurfti að fara fram með hraði og upplýsingar að berast á milli starfsmanna í hópum sem jafnvel máttu ekki vinna saman, öryggisins vegna.
Meðal þess sem starfsfólk nefndi líka sem kosti við tækið er að á því er hægt að gera rannsóknir sem ekki voru mögulegar á eldra tæki sem það leysti af hólmi. Þar má nefna hryggskekkjurannsóknir og vinkilmælingar á hnjám en við þessar rannsóknir þarf samsetningu á myndum (stitching) og með því að setja lítið blýmerki á sjúkling er hægt að láta tækið gera samsetninguna sjálfvirkt. Einnig er betra að meta snúningsbrot á fótlegg og fleira er orðið þróaðra á þessu tæki en því gamla. Þetta þýðir betri þjónustu við sjúklinga, ekki síst þá sem eru á leið í hnéaðgerðir, og fjölgun rannsókna.
Prótókollar voru fluttir úr samskonar tæki í Fossvogi, myndgæði eru almennt góð og geislafræðingar eru að vinna í bestun þeirra.
Eitt af því sem mestu munar fyrir starfsfólkið er sjúklingalyfta sem tengist tækinu. Hana er hægt að nota til að færa sjúkling sem er alveg ófær um að hreyfa sig en nýtist ekki síður þannig að sjúklingur getur sjálfur notað handfang til að „hanga í“ og færa sig að mestu leyti sjálfur t.d. úr rúmi yfir á rannsóknabekkinn.
Einnig var minnst á hvað það væri mikil snilld að hafa í raun fjóra staði, þar af eina lausa fjarstýringu, þar sem geislafræðingar geta valið sjálfvirkar hreyfingar tækisins.
Tækinu fylgir tölvuskjár fyrir myndvinnslu en til viðbótar er hægt að fá sérstakan myndskoðunarskjá með betri upplausn sem gefur geislafræðingum færi á að staðfesta myndgæði áður en myndin er send í myndgeymslukerfið (arkív).
Það eina sem kom upp þegar starfsfólk var spurt hvort eitthvað mætti betur fara í tækinu var að sjálfvirku hreyfingarnar eru dálítið hægari en þegar ákafur geislafræðingur sviptir tæki til í flýti. Sumum finnst erfitt að þurfa að „standa og horfa á tækið hreyfast“ en með góðri samvinnu, þar sem einn lætur tækið stilla sig af og annar stillir sjúklingnum upp, ganga rannsóknir hratt og vel fyrir sig.
Hinir fordæmalausu Covid-móbílar
Eins og áður sagði kom fljótt í ljós þegar laga þurfti starfsemi LSH að heimsfaraldri, að í vandræði stefndi með sóttvarnir ef þau 5 færanlegu röntgentæki (móbílar) sem í notkun voru ættu að halda áfram að ferðast fram og aftur um sjúkrahúsið. Einn móbíll var strax fastsettur í „Covid-gáminum“ og mátti ekki fara þaðan út og þörf var á mun fleiri tækjum til að hafa á lokuðum deildum.
Rafernir og LSH fólk lögðu höfuð í bleyti og útkoman varð ef til vill dálítið galin hugmynd en hún reyndist ótrúlega vel! Eldri móbílar sem hafði verið lagt þegar nýtískulegri tæki buðust höfðu prýðilega getu til að taka lungnamyndir en höfðu síðast verið notaðir með CR myndplötum og áttu sér enga tengingu við nýjustu bókana- og myndgeymslukerfin. Ákveðið var að gera tilraun til að nota fartölvur sem milliliði, fá að láni lausa DR myndmóttakara af nokkrum röntgenstofum og púsla þessu öllu saman við gömlu móbílana. Eftir heilmikla vinnu og gæðaprófanir komust í gagnið fimm svona samsetningar, fimm „ný“ tæki sem skiluðu myndum í fullnægjandi gæðum til sjúkdómsgreiningar og uppfylltu skilyrði til að fá notkunarleyfi frá Geislavörnum ríkisins.
Ein úr hópi geislafræðinga á LSH orðaði það sem svo að þetta væri örugglega einhver sú flottasta redding sem gerð hefði verið fyrir myndgreiningardeildirnar. Rafernir eru innilega þakklátir og stoltir yfir að hafa getað veitt þessa aðstoð.
Gömlu móbílarnir eru nú flestir sestir aftur í helgan stein, þegar síðast var vitað var einn þeirra enn á Covid-deildinni á Birkiborg, og hægt er að hugsa sér að þeir séu líka stoltir af þátttöku sinni í bakvarðasveit röntgentækja.
Arnartíðindi þakka starfsfólki á Röntgen á Hringbraut fyrir upplýsingarnar og óska til hamingju með nýju græjurnar.